Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Sjálfstæðir fjölmiðlar standa höllum fæti í ójafnri samkeppni. Þeir mega sín lítils gegn forréttindum ríkisins á fjölmiðlamarkaði og alþjóðlegum stórfyrirtækjum sem sjúga ritstjórnarefni og auglýsingatekjur úr garði einkarekinna fjölmiðla.
Í liðinni viku kynnti menntamálaráðherra hugmyndir sem koma til greina í viðleitni stjórnvalda til að styrkja rekstur sjálfstæðra fjölmiðla. Útfærslur eru eftir en öllum má vera ljóst að þær valda ekki straumhvörfum í rekstri einkarekinna fjölmiðla. Á sama tíma og þeir berjast flestir í bökkum hefur fjárhagslegur hagur Ríkisútvarpsins stöðugt vænkast og dagskrárvaldið orðið öflugra.
Við blasir að enginn pólitískur vilji er til þess að ráðast að rót vandans – forréttindum Ríkisútvarpsins. Óhætt er að fullyrða að mikill meirihluti þingmanna stendur tryggan vörð um Ríkisútvarpið. Engu er líkara en að sumum þyki vænna um þá stofnun en nokkra aðra. Þess vegna verður samstaða um það að „bæta“ Ríkisútvarpinu upp reiknað tekjutap vegna lítils háttar takmörkunar á umsvifum þess á auglýsingamarkaði, líkt og menntamálaráðherra leggur til. Og reikningurinn endar alltaf hjá skattgreiðendum.
Ég hef orðað þetta þannig að Ríkisútvarpið njóti þess að vera í mjúkum og hlýjum faðmi stjórnmálanna. Forgangsröðunin þegar kemur að fjölmiðlun hér á landi er sú að fyrst skuli tryggja rekstur og framtíð Ríkisútvarpsins og síðan sé rétt að vinna að því að sjálfstæðir fjölmiðlar lifi af – svona rétt við hungurmörk.
Á jötu ríkisins
Ein af þeim hugmyndum sem menntamálaráðherra varpaði fram í síðustu viku er að ritstjórnarkostnaður rit- og ljósvakamiðla verði endurgreiddur að hluta. Reiknað er með að ríkissjóður verji um 350 milljónum króna í endurgreiðslur á komandi ári.
Þegar þetta er skrifað liggur ekkert fyrir eftir hvaða reglum verður farið við væntanlega endurgreiðslu, sem þó verður bundin við ákveðið hámark. Ég hef ítrekað varað við hugmyndum um millifærslukerfi hins opinbera til að styðja við bakið á einstökum fyrirtækjum eða atvinnugreinum. Við höfum slæma reynslu af slíku. Og það er þversögn fólgin í því að reyna að styðja við frjálsa og opna fjölmiðlun með beinum ríkisstyrkjum og millifærslum.
Valkreppa mín og margra annarra er hins vegar að við eigum ekki um marga kosti að velja og fáa góða, a.m.k. ekki á meðan við höfum ekki pólitískan styrk til þess að leiðrétta ranglætið sem viðgengst á fjölmiðlamarkaði með umfangsmiklum ríkisrekstri. Það skal játast að við sem leggjum áherslu á öfluga einkarekna fjölmiðla erum í nauðvörn. En ólíkt Snæfríði Íslandssól getum við ekki leyft okkur að velja fremur versta kostinn en þann næstbesta (eða minnst vonda).
Undir lok síðasta árs lagði ég til að virðisaukaskattur af áskriftum prent-, ljósvaka- og netmiðla yrði felldur niður. Með niðurfellingu virðisaukaskattsins væri fólgin yfirlýsing um nauðsyn þess að leiðrétta lítillega samkeppnisstöðu á fjölmiðlamarkaði – gera hana örlítið sanngjarnari og heilbrigðari. Það kann að vera að skynsamlegra sé að taka upp endurgreiðslu virðisaukaskatts fremur en að fella hann niður með formlegum hætti. Með sama hætti er hægt að huga að kostum og göllum þess að fjölmiðlar geti fengið endurgreidd tryggingagjöld vegna ritstjórna.
Allt að 600 milljóna ívilnun til RÚV
Á sama tíma og fjárhagslegur styrkur Ríkisútvarpsins hefur aukist hefur staða sjálfstæðra fjölmiðla verið að veikjast. Hækkun virðisaukaskatts á áskriftir blaða og tímarita úr 7% í 11% í ársbyrjun 2015 var þungt högg. Lögþvingaðar áskriftartekjur Ríkisútvarpsins – útvarpsgjald bera ekki virðisaukaskatt.
Þegar Alþingi samþykkti að innleiða virðisaukaskatt með lögum árið 1988 var ákveðið að sala dagblaða og sambærilegra landsmála- og héraðsfréttablaða skyldi undanþegin virðisaukaskatti. Þessu var breytt árið 1992 þegar nýtt lægra þrep virðisaukaskatts var tekið upp – þá 14% en efra þrepið var 24,5%. Eftir breytinguna lagðist virðisaukaskattur á bækur, blöð tímarit, og afnotagjöld útvarps og sjónvarps, þar með talið á afnotagjöld Ríkisútvarpsins. Með lögum árið 2006 var neðra þrep virðisaukaskatts lækkað í 7% en það var hækkað að nýju árið 2015, eins og áður segir.
Ríkisútvarpið var gert að opinberu hlutafélagi með lögum árið 2007. Fram að þeim tíma var innheimt afnotagjald sem bar virðisaukaskatt en eftir að útvarpsgjald var innleitt samhliða formbreytingu hefur virðisaukaskattur ekki verið lagður á. Litið er svo á að útvarpsgjaldið falli undir 12. grein laga um virðisaukaskatt og því hefur Ríkisútvarpið haldið fullum rétti til innskattfrádráttar, þó að ekki sé lagður á virðisaukaskattur.
Fyrir formbreytinguna 2007 var staða Ríkisútvarpsins gagnvart lögum um virðisaukaskatt sú sama og annarra fjölmiðla sem selja áskriftir og auglýsingar, afnotagjald/áskriftagjald í neðra þrepi virðisaukaskatts en auglýsingar í efra þrepi og full heimild til innskattsfrádráttar. Augljóst er að afnám virðisaukaskatts á afnotagjald (útvarpsgjald) Ríkisútvarpsins jók forskot ríkisfjölmiðilsins. Ætla má að skattaleg ívilnun Ríkisútvarpsins vegna þessa sé 5-600 milljónir króna á ári.
Afnám virðisaukaskatts af áskriftum eða endurgreiðsla er skref í þá átt að leiðrétta mismunun sem hefur viðgengist of lengi.
Fyrst skal farið að lögum
Ríkisútvarpið fékk á síðasta ári liðlega 4,1 milljarð króna frá skattgreiðendum í formi útvarpsgjalds og hafði auk þess 2,3 milljarða í tekjur af auglýsingum, kostun og öðru í samkeppnisrekstri. Heildartekjur voru því rúmlega 6,4 milljarðar króna.
Ríkisútvarpið starfar samkvæmt sérstökum lögum. Í 4. grein er Ríkisútvarpinu gert skylt að stofna og reka dótturfélög, vegna samkeppnisrekstrar. Þetta á t.d. við um sölu auglýsinga og útleigu á tækjabúnaði eða aðstöðu til framleiðslu á kvikmynda- og sjónvarpsefni. Fram til loka síðasta árs þurfti Ríkisútvarpið ekki að uppfylla þessa kvöð. En samkvæmt ákvörðun Alþingis í desember 2015 var Ríkisútvarpinu gert skylt frá og með 1. janúar 2018 að vera með samkeppnisrekstur í dótturfélögum, með aðskildum fjárhag.
Þetta hefur ekki verið gert. Ríkisútvarpið gengur því gegn ákvæðum laga og hefur gert allt þetta ár meðal annars þegar auglýsingamarkaðurinn var þurrkaður upp í sumar í skjóli heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Skaði einkarekinna fjölmiðla verður seint metinn að fullu.
Er ekki rétt, þegar reynt er að rétta hlut og skjóta stoðum undir sjálfstæða fjölmiðla, að byrja á því að tryggja að Ríkisútvarpið fari að lögum?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. september 2018