Nokkur orð um fílinn og sjálfstæða fjölmiðla

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Sjálf­stæðir fjöl­miðlar standa höll­um fæti í ójafnri sam­keppni. Þeir mega sín lít­ils gegn for­rétt­ind­um rík­is­ins á fjöl­miðlamarkaði og alþjóðleg­um stór­fyr­ir­tækj­um sem sjúga rit­stjórn­ar­efni og aug­lýs­inga­tekj­ur úr garði einka­rek­inna fjöl­miðla.

Í liðinni viku kynnti mennta­málaráðherra hug­mynd­ir sem koma til greina í viðleitni stjórn­valda til að styrkja rekst­ur sjálf­stæðra fjöl­miðla. Útfærsl­ur eru eft­ir en öll­um má vera ljóst að þær valda ekki straum­hvörf­um í rekstri einka­rek­inna fjöl­miðla. Á sama tíma og þeir berj­ast flest­ir í bökk­um hef­ur fjár­hags­leg­ur hag­ur Rík­is­út­varps­ins stöðugt vænkast og dag­skrár­valdið orðið öfl­ugra.

Við blas­ir að eng­inn póli­tísk­ur vilji er til þess að ráðast að rót vand­ans – for­rétt­ind­um Rík­is­út­varps­ins. Óhætt er að full­yrða að mik­ill meiri­hluti þing­manna stend­ur trygg­an vörð um Rík­is­út­varpið. Engu er lík­ara en að sum­um þyki vænna um þá stofn­un en nokkra aðra. Þess vegna verður samstaða um það að „bæta“ Rík­is­út­varp­inu upp reiknað tekjutap vegna lít­ils hátt­ar tak­mörk­un­ar á um­svif­um þess á aug­lýs­inga­markaði, líkt og mennta­málaráðherra legg­ur til. Og reikn­ing­ur­inn end­ar alltaf hjá skatt­greiðend­um.

Ég hef orðað þetta þannig að Rík­is­út­varpið njóti þess að vera í mjúk­um og hlýj­um faðmi stjórn­mál­anna. For­gangs­röðunin þegar kem­ur að fjöl­miðlun hér á landi er sú að fyrst skuli tryggja rekst­ur og framtíð Rík­is­út­varps­ins og síðan sé rétt að vinna að því að sjálf­stæðir fjöl­miðlar lifi af – svona rétt við hung­ur­mörk.

Á jötu rík­is­ins

Ein af þeim hug­mynd­um sem mennta­málaráðherra varpaði fram í síðustu viku er að rit­stjórn­ar­kostnaður rit- og ljósvakamiðla verði end­ur­greidd­ur að hluta. Reiknað er með að rík­is­sjóður verji um 350 millj­ón­um króna í end­ur­greiðslur á kom­andi ári.

Þegar þetta er skrifað ligg­ur ekk­ert fyr­ir eft­ir hvaða regl­um verður farið við vænt­an­lega end­ur­greiðslu, sem þó verður bund­in við ákveðið há­mark. Ég hef ít­rekað varað við hug­mynd­um um milli­færslu­kerfi hins op­in­bera til að styðja við bakið á ein­stök­um fyr­ir­tækj­um eða at­vinnu­grein­um. Við höf­um slæma reynslu af slíku. Og það er þver­sögn fólg­in í því að reyna að styðja við frjálsa og opna fjöl­miðlun með bein­um rík­is­styrkj­um og milli­færsl­um.

Val­kreppa mín og margra annarra er hins veg­ar að við eig­um ekki um marga kosti að velja og fáa góða, a.m.k. ekki á meðan við höf­um ekki póli­tísk­an styrk til þess að leiðrétta rang­lætið sem viðgengst á fjöl­miðlamarkaði með um­fangs­mikl­um rík­is­rekstri. Það skal ját­ast að við sem leggj­um áherslu á öfl­uga einka­rekna fjöl­miðla erum í nauðvörn. En ólíkt Snæfríði Íslands­sól get­um við ekki leyft okk­ur að velja frem­ur versta kost­inn en þann næst­besta (eða minnst vonda).

Und­ir lok síðasta árs lagði ég til að virðis­auka­skatt­ur af áskrift­um prent-, ljósvaka- og net­miðla yrði felld­ur niður. Með niður­fell­ingu virðis­auka­skatts­ins væri fólg­in yf­ir­lýs­ing um nauðsyn þess að leiðrétta lít­il­lega sam­keppn­is­stöðu á fjöl­miðlamarkaði – gera hana ör­lítið sann­gjarn­ari og heil­brigðari. Það kann að vera að skyn­sam­legra sé að taka upp end­ur­greiðslu virðis­auka­skatts frem­ur en að fella hann niður með form­leg­um hætti. Með sama hætti er hægt að huga að kost­um og göll­um þess að fjöl­miðlar geti fengið end­ur­greidd trygg­inga­gjöld vegna rit­stjórna.

Allt að 600 millj­óna íviln­un til RÚV

Á sama tíma og fjár­hags­leg­ur styrk­ur Rík­is­út­varps­ins hef­ur auk­ist hef­ur staða sjálf­stæðra fjöl­miðla verið að veikj­ast. Hækk­un virðis­auka­skatts á áskrift­ir blaða og tíma­rita úr 7% í 11% í árs­byrj­un 2015 var þungt högg. Lögþvingaðar áskrift­ar­tekj­ur Rík­is­út­varps­ins – út­varps­gjald bera ekki virðis­auka­skatt.

Þegar Alþingi samþykkti að inn­leiða virðis­auka­skatt með lög­um árið 1988 var ákveðið að sala dag­blaða og sam­bæri­legra lands­mála- og héraðsfrétta­blaða skyldi und­anþegin virðis­auka­skatti. Þessu var breytt árið 1992 þegar nýtt lægra þrep virðis­auka­skatts var tekið upp – þá 14% en efra þrepið var 24,5%. Eft­ir breyt­ing­una lagðist virðis­auka­skatt­ur á bæk­ur, blöð tíma­rit, og af­nota­gjöld út­varps og sjón­varps, þar með talið á af­nota­gjöld Rík­is­út­varps­ins. Með lög­um árið 2006 var neðra þrep virðis­auka­skatts lækkað í 7% en það var hækkað að nýju árið 2015, eins og áður seg­ir.

Rík­is­út­varpið var gert að op­in­beru hluta­fé­lagi með lög­um árið 2007. Fram að þeim tíma var inn­heimt af­nota­gjald sem bar virðis­auka­skatt en eft­ir að út­varps­gjald var inn­leitt sam­hliða formbreyt­ingu hef­ur virðis­auka­skatt­ur ekki verið lagður á. Litið er svo á að út­varps­gjaldið falli und­ir 12. grein laga um virðis­auka­skatt og því hef­ur Rík­is­út­varpið haldið full­um rétti til innskatt­frá­drátt­ar, þó að ekki sé lagður á virðis­auka­skatt­ur.

Fyr­ir formbreyt­ing­una 2007 var staða Rík­is­út­varps­ins gagn­vart lög­um um virðis­auka­skatt sú sama og annarra fjöl­miðla sem selja áskrift­ir og aug­lýs­ing­ar, af­nota­gjald/​áskrifta­gjald í neðra þrepi virðis­auka­skatts en aug­lýs­ing­ar í efra þrepi og full heim­ild til innskatts­frá­drátt­ar. Aug­ljóst er að af­nám virðis­auka­skatts á af­nota­gjald (út­varps­gjald) Rík­is­út­varps­ins jók for­skot rík­is­fjöl­miðils­ins. Ætla má að skatta­leg íviln­un Rík­is­út­varps­ins vegna þessa sé 5-600 millj­ón­ir króna á ári.

Af­nám virðis­auka­skatts af áskrift­um eða end­ur­greiðsla er skref í þá átt að leiðrétta mis­mun­un sem hef­ur viðgeng­ist of lengi.

Fyrst skal farið að lög­um

Rík­is­út­varpið fékk á síðasta ári liðlega 4,1 millj­arð króna frá skatt­greiðend­um í formi út­varps­gjalds og hafði auk þess 2,3 millj­arða í tekj­ur af aug­lýs­ing­um, kost­un og öðru í sam­keppn­is­rekstri. Heild­ar­tekj­ur voru því rúm­lega 6,4 millj­arðar króna.

Rík­is­út­varpið starfar sam­kvæmt sér­stök­um lög­um. Í 4. grein er Rík­is­út­varp­inu gert skylt að stofna og reka dótt­ur­fé­lög, vegna sam­keppn­is­rekstr­ar. Þetta á t.d. við um sölu aug­lýs­inga og út­leigu á tækja­búnaði eða aðstöðu til fram­leiðslu á kvik­mynda- og sjón­varps­efni. Fram til loka síðasta árs þurfti Rík­is­út­varpið ekki að upp­fylla þessa kvöð. En sam­kvæmt ákvörðun Alþing­is í des­em­ber 2015 var Rík­is­út­varp­inu gert skylt frá og með 1. janú­ar 2018 að vera með sam­keppn­is­rekst­ur í dótt­ur­fé­lög­um, með aðskild­um fjár­hag.

Þetta hef­ur ekki verið gert. Rík­is­út­varpið geng­ur því gegn ákvæðum laga og hef­ur gert allt þetta ár meðal ann­ars þegar aug­lýs­inga­markaður­inn var þurrkaður upp í sum­ar í skjóli heims­meist­ara­móts­ins í knatt­spyrnu. Skaði einka­rek­inna fjöl­miðla verður seint met­inn að fullu.

Er ekki rétt, þegar reynt er að rétta hlut og skjóta stoðum und­ir sjálf­stæða fjöl­miðla, að byrja á því að tryggja að Rík­is­út­varpið fari að lög­um?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. september 2018