151 skref að enn betri utanríkisþjónustu

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra:

Í september í fyrra hófst umfangsmesta umbótaferli í sögu utanríkisþjónustunnar. Markmiðið var að íslenska þjóðin yrði hæfari til að grípa tækifæri framtíðarinnar og bregðast við áskorunum sem hún stendur frammi fyrir. Þetta var leiðarljósið í 151 tillögu skýrslunnar „Utanríkisþjónusta til framtíðar – hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi“. Þar er sjónum beint að því hvernig best megi nýta mannauð og fjármuni á sveigjanlegan hátt og með skýrri forgangsröðun. Með samstilltu átaki hafa nú, ári síðar, yfir eitt hundrað tillögur þegar komið til framkvæmda. Þess sjást skýr merki í störfum okkar bæði heima og erlendis.

Ísland hefur ávallt byggt afkomu sína á útflutningi. Með breyttri heimsmynd og lífsháttum verðum við í enn ríkara mæli að reiða okkur á markaðsaðgengi erlendis fyrir íslenskar vörur, þjónustu og hugvit. Þessi megin forsenda viðhalds og vaxtar íslensks þjóðarbús er grunnstef áðurnefndrar skýrslu. Í samræmi við hana voru samþykkt lög um breytingar á stöðu Íslandsstofu og tilhögun fríverslunarviðræðna verið breytt. Viðskiptafulltrúi hefur verið ráðinn við sendiráðið í Japan og svipuð ráðning undirbúin við sendiráðið í Kanada. Í Afríku hefur sendiráðið í Úganda verið styrkt til að kortleggja viðskiptatækifæri í álfunni og gerðar hafa verið áætlanir um opnun viðskiptaskrifstofa á vesturströnd Bandaríkjanna og í Austur-Asíu. Í sumarbyrjun fór ég Japans til að þrýsta á um fríverslunarsamninginn og loftferðasamning og nýverið hélt ég til Kína til að fylgja eftir gildandi fríverslunarsamningi, íslenskum útflutningi til hagsbóta.

Sterkari staða innan EES hefur lengi verið markmið íslenskra stjórnvalda. Með útgáfu skýrslunnar „Gengið til góðs – skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins“ og samþykki ríkisstjórnar um ráðstafanir horfir mjög til bóta. Þannig má nefna afturhvarf til þess að öll ráðuneyti hafi fulltrúa í Brussel til að efla íslenska yfirsýn og hagsmunagæslu. Vænti ég þess að sjá áþreifanlegan árangur af þessu á næstu misserum.

Öryggis- og varnarmál hafa aftur fengið þann sess sem hæfir fullvalda ríki og endurspeglar breyttar alþjóðlegar aðstæður. Varnarmálaskrifstofa hefur verið endurreist og framlög til öryggis- og varnarmála aukin sem gerir Íslandi betur kleift að standa við skuldbindingar hvað varðar eigin viðbúnað og gagnvart bandalagsríkjum.

Framlög til þróunarsamvinnu fara sömuleiðis vaxandi. Fljótlega verður lögð fram tillaga til þingsályktunar um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019-2023 þar sem áherslur okkar og áætlanir verða vel skilgreindar með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Niðurstöður nýlegrar jafningjarýni á vegum þróunarsamvinnunefndar OECD eru afar jákvæðar.Þar erum við hvött til þess að nýta áfram sérþekkingu okkar í þágu fátækra þjóða, t.d. á sviði jarðhita og sjávarútvegs. Samstarf við íslenskt atvinnulíf hefur verið aukið og einkageirinn hvattur til fjárfestinga enda ljóst að heimsmarkmiðunum verður ekki einungis náð með opinberri þróunarsamvinnu. Senn munu svo sérstakir þróunarsamvinnufulltrúar hjá Sameinuðu þjóðunum og OECD sinna öflun og miðlun upplýsinga.

Undirbúningur formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu 2019-2021 er kominn vel á veg og að sama skapi gengur vel að undirbúa formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Það er krefjandi en jafnframt spennandi að takast slíkt á hendur og í því felast mikil tækifæri fyrir land og þjóð. Sama á við um setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna næstu misserin en það er eitt stærsta verkefni á alþjóðavettvangi sem Ísland hefur undirgengist. Í framhaldinu bíða formennska Íslands í Evrópuráðinu 2022-2023 og hugsanleg  seta í stjórn UNESCO 2021-2025.

Það er sérstakt metnaðarmál utanríkisþjónustunnar að aðstoða Íslendinga í vanda erlendis. Þegar hafa ýmsar tillögur skýrslunnar sem varða borgaraþjónustu verið framkvæmdar, t.d. varðandi útgáfu vegabréfa.. Kjörræðismenn Íslands um allan heim hafa lengi veitt ómetanlega aðstoð og svo verður áfram. Því til viðbótar er ætlunin að virkja þá betur í viðskiptaþjónustu með auknum stuðningi úr ráðuneytinu.

Á meðal annarra nýmæla má nefna að deild sendiherra og sérstakra erindreka með búsetu á Íslandi er tekin til starfa. Vonir standa til að þannig verði ýmis erindrekstur gagnvart öðrum ríkjum og stofnunum markvissari og álagi létt af sendiskrifstofum. Þá starfar nú deild sem fylgist með stjórnsýsluframkvæmd utanríkisþjónustunnar og nýtingu mannauðs og fjár.

Þótt mörg störf í utanríkisþjónustunni séu óhjákvæmilega unnin í trúnaði á gagnsæi samt að ríkja eins og kostur er. Því hefur upplýsinga- og greiningargeta ráðuneytisins verið efld og allt verklag endurskoðað. Jafnframt hefur verið leitað til innlendra og erlendra aðila um hvernig efla megi umræðu um utanríkismál.

Ég bind miklar vonir við að þessar umbætur verði ekki afmarkað verkefni heldur upphaf á stöðugu ferli. Stigvaxandi árangur af íslenskri hagsmunagæslu í síbreytilegum heimi verður ávallt okkar markmið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. september.