Áratugur glataðra tækifæra
'}}

Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður:

Aðgengi að raforku í nægjanlegu magni með góðu afhendingaröryggi er undirstaða nútímasamfélags og ein af helstu forsendum fyrir jákvæðri byggðaþróun. Skortur á aðgengi að raforku hefur bitnað illa á Norðurlandi, sérstaklega í Eyjafirði, hamlað atvinnuuppbyggingu og gert fyrirtækjum erfitt fyrir í sínum rekstri þeim til kostnaðarauka og/eða hamlandi áhrifum.

Í þessu samhengi hefur oft verið talað um áratug glataðra tækifæra. Á svæðinu hafa íbúar og fyrirtæki búið við takmarkað afhendingaröryggi, og gæði orkunnar hefur ekki verið fullnægjandi með tilheyrandi flökti og óáreiðanleika. Á síðastliðnum tveimur árum hafa verið settar upp fjölmargar díselrafstöðvar í Eyjafirði og kostnaðurinn við þær verið yfir 100 milljónir, bara til að auka raforkuöryggi. Staðan er fullkomlega óviðunandi.

Uppbygging nýrrar byggðalínu

Núverandi byggðalína var lögð fyrir rúmum 40 árum. Elsti hluti hennar er línan frá Akureyri og til vesturs sem er frá 1974. Í um áratug hafa raflínurnar sem eru hluti af meginflutningskerfi raforku hér á landi vera fulllestaðar á Norðurlandi.

Nú horfir til betri vegar á næstu mánuðum. Framkvæmdir við nýja Kröflulínu 3 eru að hefjast en hún tengir saman Kröflu og Fljótsdalsvirkjun. Kröflulína 3 er 122 km að lengd og er kostnaður við gerð hennar áætlaður um 7,9 milljarðar króna.

Ef áætlanir ganga eftir þá eru líkur á að framkvæmdir við Hólasandslínu 3 á milli Rangárvalla (Akureyrar) og Kröflu hefjist veturinn 2019/2020. Lengd Hólasandslínu er 71 km og kostnaður áætlaður 7,7 milljarðar króna.

Í kjölfarið, áætluð verklok 2021, má reikna með að staða raforkumála í Eyjafirði taki stakkaskiptum. Hér er um verulegar framkvæmdir að ræða og áætlaður kostnaður við að tengja Rangárvelli  og Fljótsdalsvirkjun með Hólasandslínu 3 og Kröflulínu 3 er um 15,6 milljarðar.

Lokaskrefið væri síðan Blöndulína 3 sem er áætluð framkvæmd upp á 8 milljarða og yrði lengd hennar 107 km frá Rangárvöllum í Blönduvirkjun. Með þessum áföngum væri búið að gjörbreyta þeirri slæmu stöðu sem raforkukerfið er í á Norðurlandi og færa það yfir í að  vera fyrsta flokks raforkukerfi  sem er forsenda framtíðaruppbyggingar svæðisins. Hér er rétt að geta þess að þessar þrjár línur eru allar í 10 ára kerfisáætlun Landsnets. Hins vegar eru  Kröflulína 3 og Hólasandslína 3 einungis í þriggja ára framkvæmdaáætlun fyrirtækisins þar er ekki  gert ráð fyrir  Blöndulínu 3.   Hún er hins vegar ákaflega mikilvæg fyrir allt Norðurland  styrkir flutningskerfið, eykur raforkuöryggi og skapar svigrúm fyrir aukinni orkunýtni öllum til hagsbóta.

Horft til framtíðar

Við endurbyggingu byggðalínunnar er mikilvægt að vel sé staðið að verki enda má reikna með að ekki verði farið á nýjan leik í sambærilegar framkvæmdir á byggðalínunni fyrr en seint á þessari öld.

Þegar  uppbygging byggðalínunnar frá Blöndu til Fljótsdalsstöðvar er lokið verður til mjög öflugt flutningskerfi á Norður- og Austurlandi og leysir af hólmi þá  döpru stöðu sem uppi er í dag. Hér er kannski rétt að hafa í huga að eftir að núverandi byggðalína var tekin í notkun þá hafa þrjár stórar virkjanir verið teknar í notkun og tengdar við kerfið, Blönduvirkjun, Fljótsdalsstöð og í nóvember síðastliðnum Þeistareykjavirkjun. Aflgeta þessara þriggja virkjana er rétt um 900 megavött.

Í dag er flutningsgeta byggðalínuhringsins um 3-4% af aflgetu virkjana í landinu.  Markmið stjórnvalda er að flutningsgeta byggðalínunnar sé að minnsta kosti 15% af aflgetu virkjana landsins og að því er stefnt. Þjóðhagslegt tap íslensks samfélags vegna lélegrar nýtingar á orkuauðlindinni vegna takmarkaðrar getu flutningskerfisins  hleypur á milljörðum króna og er algjörlega óásættanleg.

Eitt af stóru málunum

Efling flutningskerfis raforku á Norður- og Austurlandi er eitt af stóru málunum í dag. Þegar uppbyggingu þess er lokið og raforkuöryggi hefur verið bætt skapast mikil sóknarfæri í uppbyggingu og eflingu atvinnulífs á svæðinu meðal annars í tengslum við  fjórðu iðnbyltingunni.

Greinin birtist í Víkurdegi 4. september 2018