Hin umþrætta áhætta

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:

Fyrir fáeinum árum var ég búsett í London. Sonur minn var í grunnskóla og dóttir mín örfárra mánaða gömul. Dag einn barst erindi frá skólanum sem greindi frá mislingasmiti innan bekkjarins. Dóttir mín hafði ekki náð þeim aldri að vera bólusett gegn mislingum. Ég fylgdi syni mínum gangandi til skóla daglega og var systir hans ávallt meðferðis í vagninum. Vegna vanrækslu annarra foreldra komst hún því daglega í návígi við óbólusett börn. Börn sem reyndust með mislinga.

Á sama tíma bárust fregnir af andlátum barna í Bretlandi af völdum hættulegra smitsjúkdóma. Dauðsföll sem hefði mátt fyrirbyggja með almennum bólusetningum.

Inntökuskilyrði á leikskóla

Þátttaka í almennum bólusetningum á Íslandi er undir viðmiðunarmörkum. Hún er óviðunandi að mati sóttvarnarlæknis. Minnki þátttaka frekar má búast við dreifingu sjúkdóma sem ekki hafa sést hérlendis um árabil. Samkvæmt alþjóðaheilbrigðisstofnun hafa mislingar náð gífurlegri útbreiðslu í Evrópu síðustu tvö ár – raunar hafa mislingatilfelli sextánfaldast á tímabilinu.

Með hliðsjón af þeim aðstæðum sem uppi eru, legg ég til að Reykjavíkurborg geri almennar bólusetningar að skilyrði við inntöku í leikskóla borgarinnar. Við innritun verði óskað samþykkis foreldra fyrir nauðsynlegri öflun upplýsinga um bólusetningar barns. Markmiðið ætíð að tryggja börnum aukna heilsuvernd. Frá reglunni verði þó sanngjarnar undantekningar.

Tillagan sækir fyrirmynd til fjölda annarra Evrópuþjóða sem búa við sambærilegt lagaumhverfi. Hún sækir stoð í lög um leikskóla og meðferð upplýsinganna færi eftir ákvæðum persónuverndarlaga.

Hvers lengi ætlum við að bíða?

Bólusetningar eru ekki einungis gagnlegar þeim sem þær þiggja – þær eru einnig nauðsynlegar þeim varnarlausu. Til eru einstaklingar sem af heilsufarsástæðum eða vegna unga aldurs mega ekki þiggja bólusetningar – þeir reiða sig á hjarðónæmi samfélagsins.

Óbólusettum börnum fjölgar. Foreldrar þessara barna eru í langflestum tilfellum að gleyma sér. Heilsugæslur hafa hrint af stað fræðslu- og eftirfylgniátaki en átakið virðist ekki hafa skilað tilætluðum árangri. Einhverjir segja að gefa þurfi átakinu meiri tíma. En útbreiðsla smitsjúkdóma er hröð – á fyrstu sex mánuðum þessa árs hafa yfir 41.000 mislingatilfelli greinst í Evrópu. Hversu lengi ætlum við að bíða?

Ef bólusetningar verða inntökuskilyrði á leikskóla borgarinnar yrði það foreldrum tiltekin hvatning. Skilyrðinu yrði ekki beitt af harðræði. Foreldrum væri gefinn aðlögunartími og fólk aðstoðað við að ljúka bólusetningum barna sinna svo tryggja megi leikskólapláss. Útfæra mætti samstarf við heilsugæslur um sprautuþjónustu inni á leikskólum. Verkefnið yrði unnið í góðri samvinnu.

 Hagsmunir heildarinnar

Hafi barni ekki verið gefið nafn við 6 mánaða aldur telja yfirvöld sig knúin til að beita foreldra dagsektum. Vilji foreldrar gefa barni nýstárlegt nafn gæti það verið stöðvað af mannanafnanefnd. Ef foreldrar neita barni um bólusetningar aðhafast yfirvöld ekkert.

Talið er að eingöngu 2% foreldra séu mótfallin bólusetningum. Það er því lítill hluti barna sem lendir í vanda verði tillagan samþykkt. Foreldrar þessara barna geta leitað til dagforeldra eða sjálfstætt starfandi leikskóla. Stærsti vandi þessara barna er auðvitað sá að þeim eru ekki tryggðar bólusetningar. Þeim er ekki tryggð nauðsynleg heilbrigðisþjónusta. Það telja einhverjir barnaverndarmál og brot á barnasáttmála sameinuðu þjóðanna.

Flest viljum við vernda börnin okkar og tökum ákvarðanir eftir bestu sannfæringu. En sumar ákvarðanir eru þess eðlis að þær varða hagsmuni annarra. Þá koma þær öðrum við. Foreldrum má ekki vera í sjálfsvald sett að taka skaðlegar ákvarðanir um líf barna sinna – allra síst þegar slíkar ákvarðanir geta einnig haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir börn annarra.

Tillögunni er ekki ætlað að jaðarsetja óbólusett börn. Henni er ætlað að huga að hagsmunum heildarinnar. Fræða þarf foreldra óbólusettra barna og styðja börnin sérstaklega svo þeim séu tryggð þroskavænleg skilyrði.

Djörfung og dugur

Sóttvarnarlæknir setur ekki inngönguskilyrði á leikskóla. Það gera sveitarfélög með heimild í lögum um leikskóla. Sóttvarnarlæknir gefur ekki út tilmæli um skyldubundnar bólusetningar nema faraldur fari af stað hérlendis. Það er hins vegar pólitísk ákvörðun hvort sveitarfélög vilji ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir. Stjórnmálamenn þurfa stundum að taka djarfar ákvarðanir með hagsmuni heildarinnar í huga.

Gjarnan bíða vegaframkvæmdir eftir dauðaslysum. Sumir vilja ekkert aðhafast fyrr en alvarleg tilfelli smitsjúkdóma greinast hérlendis. Ég tel rétt að bregðast við strax.

Bólusett þrífast börnin best

Í Berufjarðarkirkjugarði má finna gröf sex systkina. Á þriggja vikna tímabili árið 1862 létust þau hvert af öðru úr barnaveiki. Þau voru á aldrinum tveggja til tólf ára. Það voru vissulega gjörólíkir tímar. En því má ekki gleyma að réttur til bólusetninga eru nútímaforréttindi. Látum okkur þau forréttindi ekki í léttu rúmi liggja. Setjum aukinn þrýsting á foreldra og tryggjum öryggi barna.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. september 2018