Um byggingu knatthúss FH

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnafirði:

Vegna misvísandi umræðu og deilna í tengslum við fyrirhugaða byggingu knatthúss í Kaplakrika vil ég koma á framfæri helstu staðreyndum málsins.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar ákvað í fyrra að byggt yrði knatthús hjá FH og voru 200 milljónir króna settar á fjárhagsáætlun til verksins fyrir árið 2018. Áætlað var að kostnaðurinn við húsið yrði alls 720 milljónir króna og myndi greiðast á þremur árum. Upphaflega var áformað að bæjarfélagið myndi sjálft annast framkvæmdina og um síðustu áramót var verkið sett í alútboð. Lægsta tilboð hljóðaði upp á um 1.100 milljónir króna sem var allt of hátt og var því öllum tilboðum hafnað.

Forgangsröðun ÍBH

Bætt aðstaða til knattspyrnuiðkunar er brýn í bæjarfélaginu, bæði í Kaplakrika og á Ásvöllum, þar sem þúsundir barna og ungmenna stunda íþróttina. Við ákvörðun um fyrrgreinda framkvæmd var farið eftir forgangsröðun Íþróttabandalags Hafnarfjarðar, byrjað yrði í Kaplakrika og síðan byggt á Ásvöllum. Eitt af fyrstu verkefnum nýs meirihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar var að fara yfir stöðuna sem upp var komin eftir að öllum tilboðum í knatthús FH hafði verið hafnað. Að lokinni ítarlegri skoðun var ákveðið að semja við FH um byggingu á hagkvæmu knatthúsi. Skyldi kostnaður ekki verða meiri en 790 milljónir króna en félagið hefur lagt fram kostnaðaráætlun um byggingu hússins fyrir þá upphæð.

Eignaskiptasamningar og eftirlitshópur

Samhliða var ákveðið að ljúka gerð eignaskiptasamninga við FH, sem hafa verið ókláraðir um langt árabil en vinna við eignaskiptin var tekin upp á síðasta kjörtímabili. Þar vegur þyngst aðalíþróttahúsið í Kaplakrika en samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar frá 1989 er kveðið skýrt á um að FH yrði eigandi þess húss frá árinu 2005. Frágangi þeirrar samþykktar var aldrei lokið, eignaskiptunum ekki þinglýst og er eignin því enn skráð á Hafnarfjarðarbæ. Á fundi eftirlitsnefndar með fjármálum íþróttafélaga hefur bæjarstjórn verið hvött til að ganga frá þessu uppgjöri.

Nú hefur Hafnarfjarðarbær gert rammasamkomulag við FH sem gerir ráð fyrir eignaskiptum, þ.e. að Hafnarfjarðarbær greiði alls 790 milljónir króna fyrir þrjú mannvirki á svæðinu, íþróttahús og tvö knatthús. Í staðinn byggi félagið sjálft þriðja knatthúsið á eigin ábyrgð fyrir þessa sömu fjárhæð. Í samningnum er kveðið á um að nýja húsið verði eign félagsins, í því felast eignaskiptin.

Einnig var samið um að sérstakur hópur, svonefndur Kaplakrikahópur, yrði skipaður og hefði meðal annars fjárhagslegt eftirlit með framkvæmdinni og að greiðslur frá bænum verði inntar af hendi eftir framvindu verksins. Hópurinn er skipaður óháðum sérfræðingum og fulltrúum bæjarins og félagsins. Verkefni hópsins er einnig að fullnusta eignaskiptin á Kaplakrika en skýrt skal tekið fram að ekki mun koma til frekari greiðslna til FH af hálfu bæjarfélagsins vegna þeirra.

Engin áhrif á fjárhagsáætlun

Sú ákvörðun að semja við FH um byggingu hússins, í stað þessi að bærinn sjái um framkvæmdina, hefur engin áhrif á fjárhagsáætlun þessa árs. Fjárheimildin, 200 milljónir króna er til staðar og þótt hér sé verið að kaupa húsnæði í stað þess að framkvæma er einungis um tilfærslu innan málaflokks að ræða sem leiðir hvorki til hækkunar né lækkunar. Allt tal um annað er rangt.

Það eina sem vakir fyrir meirihluta bæjarstjórnar í þessu máli er að halda fjárhagsáætlun og ráðstafa þeim fjármunum sem fyrri meirihluti bæjarstjórnar hafði ákveðið til uppbyggingar á knattspyrnuaðstöðu í Kaplakrika. Fulltrúar meirihlutans eru með hagsmuni hafnfirskra skattgreiðenda í huga. Hér er ekki um neina eftirgjöf eða óeðlilega fyrirgreiðslu til FH að ræða.

Stefna núverandi meirihluta er að halda áfram á braut aga og aðhaldssemi í rekstri bæjarins. Hvergi verður hvikað í þeim efnum. Samningurinn við FH mun spara um 300 milljónir króna miðað við að bærinn hefði sjálfur staðið að byggingu hússins. Það eru aðalatriði málsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. ágúst 2018