Thordis Kolbrun

Rússar elska líka börnin sín

Úr ólíkum áttum Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir

Kalda stríðið, með sínu viðkvæma ógnarjafnvægi og viðvarandi hættu á útrýmingu mannkyns vegna gagnkvæmrar tortryggni austurs og vesturs, varð þeim ágæta tónlistarmanni Sting (sem móðursystir mín lét mig hlusta á, lítt áhugasaman unglinginn) tilefni til að semja lagið sitt um „Rússana“.

Það væri fullmikið að segja lagið stórkostlegt en textinn er áhugaverður. Meginstefið er spurningin um hvort Rússar elski ekki börnin sín rétt eins og við hin. Söngvarinn vonar að svo sé, enda sé þeim þá alveg eins mikið í mun og okkur hinum að afstýra allsherjartortímingu. „Hvorug fylkingin hefur einkarétt á almennri skynsemi,“ syngur hann; „hvað sem líður hugmyndafræði erum við öll bara manneskjur – og vonandi elskum við öll börnin okkar.“

Okkar köldu stríð
Ef við veltum fyrir okkur hvaða málefni hafi á undanförnum áratugum skipt íslensku þjóðinni í fylkingar, nánast eins og í „köldu stríði“, eru virkjanaframkvæmdir á meðal þess fyrsta sem kemur upp í hugann. Gjáin á milli fylkinga er iðulega djúp og illbrúanleg. Algengt er að önnur segi um hina: „Þið viljið virkja allt.“ Hin svarar: „Þið viljið vernda allt.“

Það verður að segjast verndarsinnum til hróss að þau hafa almennt ekki knúið fram þá stefnu að „vernda allt“, í það minnsta ekki fram til þessa. Þrjár síðustu virkjanaframkvæmdir (stækkun Búrfellsvirkjunar sem gangsett var í vikunni, Þeistareykjavirkjun og Búðarhálsvirkjun) fóru allar fram í ágætri sátt. Upp á síðkastið hefur það þó orðið áleitin spurning hvaða næstu virkjanir verði samþykktar eins greiðlega, þegar jafnvel lítt sýnilegar framkvæmdir á borð við Skrokkölduvirkjun mæta andstöðu þrátt fyrir að tilkvaddir sérfræðingar hafi með faglegri umfjöllun og einkunnagjöf sett þær í flokk minnstu mögulegu umhverfisáhrifa.

Virkjanasinnar hafa að sjálfsögðu ekki heldur viljað „virkja allt“, í það minnsta ekki í seinni tíð. Um flesta virkjanakosti sem búið er að setja í verndarflokk vegna neikvæðra umhverfisáhrifa ríkir fullkomin sátt um að hrófla ekki við þeirri niðurstöðu, þótt á fyrri tímum hafi verið uppi alls kyns hugmyndir sem engum dytti í hug að mæla með í dag.

Af framangreindu sést að nálarauga náttúruverndarsjónarmiða, sem virkjanakostir þurfa að komast í gegnum, hefur þrengst. Líklegt er að þetta sé að hluta til breytt gildismat og varanleg þróun, að mörgu leyti heillavænleg, en að hluta til dægursveiflur sem ráðast af efnahagsástandinu hverju sinni.

Styðjum faglega nálgun
Það liggur fyrir að við þurfum að auka orkuframleiðslu til að mæta þörfum framtíðarinnar. Hvernig gerum við það? Jú, við höfum komið því þannig fyrir að í stað þess að tvær fylkingar standi í sífelldum hrópum og köllum um hvern virkjunarkostinn á fætur öðrum eru lög í landinu um hvernig við komumst að niðurstöðu. Við gerum það með verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) sem byggir á faglegu mati sérfræðinga. Í framhaldinu fer svo fram enn ítarlegra mat á umhverfisáhrifum, m.a. til að tryggja að sveitarfélagið, sem veitir framkvæmdaleyfi, hafi örugglega fullnægjandi upplýsingar í höndunum áður en það tekur sína ákvörðun.

Ég notaði tækifærið til að minna á stöðu og tilgang rammaáætlunar þegar ég var í vikunni innt álits á þeim tíðindum að Náttúrufræðistofnun hefði lagt til við umhverfisráðherra að Drangjökull og umhverfi hans yrðu friðlýst, sem samkvæmt fréttum gæti sett Hvalárvirkjun stólinn fyrir dyrnar þó að hún sé í nýtingarflokki rammaáætlunar og í undirbúningi.

Ég minnti einfaldlega á þá staðreynd að rammaáætlun er hið lögbundna ferli til að flokka virkjunarkosti og leggja á þá faglegt mat færustu sérfræðinga.

Mætti raska svæði í verndarflokki?
Hvalárvirkjun hlaut jákvæða niðurstöðu í matsferli rammaáætlunar og Alþingi staðfesti þá niðurstöðu sem sinn vilja. Síðan þá hefur umhverfismat farið fram, álit Skipulagsstofnunar á því mati liggur fyrir, og svo er það í höndum viðkomandi leyfisveitenda, til að mynda sveitarstjórnar og Orkustofnunar, að meta hvort leyfin verði veitt.

Þegar vegið er og metið hversu heppilegt væri að grípa inn í þetta ferli og friðlýsa svæði í nýtingarflokki áður en það hefur verið virkjað, sýnist mér að fróðlegt geti verið að velta fyrir sér hvort gera mætti hið gagnstæða, sem væri að raska svæði í verndarflokki áður en það hefur verið friðlýst. Að gera þar sambærilegt rask og virkjun hefði haft í för með sér en bara ekki setja upp túrbínur og virða þar með virkjunarbannið í hvívetna.

Það er algjör óþarfi að gera mér upp þá skoðun, sem því miður hefur verið gert af þessu tilefni, að mér sé ekki annt um íslenska náttúru, að ég telji að náttúran eigi „einungis að þjóna manninum“ og ekki beri að umgangast hana með virðingu. Svarthvítar alhæfingar af slíku tagi eru að mínu mati kaldastríðstal sem skilar litlu. Það er tímabært að við áttum okkur öll á því að Rússar elska líka börnin sín.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 30. júní.