Hvað þýða úrslit kosninganna?

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arn­ar eru að baki. At­kvæði hafa verið tal­in og niðurstaðan ligg­ur fyr­ir. Engu að síður velta fjöl­miðlung­ar, álits­gjaf­ar og ekki síst stjórn­mála­menn­irn­ir sjálf­ir, því fyr­ir sér hvað úr­slit kosn­ing­anna þýði. Hvaða skila­boð voru kjós­end­ur að gefa? Hverj­ir eru sig­ur­veg­ar­ar? Hverj­ir töpuðu?

Svör­in sem veitt eru virðast frem­ur ráðast af hvaða sjón­ar­hóli horft er, frem­ur en af hörðum tölulegum staðreynd­um. En ekki er hægt að deila um all­ar staðreynd­ir og túlka þær eft­ir hent­ug­leika.

Staðreynd­ir úr Reykja­vík:

  • Vinstri meiri­hlut­inn í Reykja­vík féll og missti 23,5%. Sam­fylk­ing­in, flokk­ur Dags B. Eggerts­son­ar borg­ar­stjóra, missti 6% frá 2014.
  • Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er stærsti flokk­ur­inn í höfuðborg­inni í fyrsta sinn frá kosn­ing­un­um 2006 með 30,8% at­kvæða. Flokk­ur­inn bætti við sig 5,1% frá síðustu kosn­ing­um.
  • Tveir flokk­ar sem buðu fram í Reykja­vík árið 2014, voru ekki á kjör­seðlin­um að þessu sinni; Björt framtíð og Dög­un.
  • Tíu ný fram­boð komu fram í höfuðborg­inni og sam­tals fengu þau 27,6% at­kvæða. Miðflokk­ur­inn, Viðreisn, Sósí­al­ista­flokk­ur Íslands og Flokk­ur fólks­ins náðu full­trú­um í borg­ar­stjórn.

Frá vinstri til hægri

Þegar horft er á þess­ar staðreynd­ir er varla hægt að kom­ast að ann­arri niður­stöðu en að hægrisveifla hafi verið í höfuðborg­inni. Mið- og hægri­flokk­ar – við get­um sagt borg­ara­leg­ir flokk­ar – fengu yfir 50% at­kvæða sem er tölu­vert meira en fyr­ir fjór­um árum þegar fylgið var í heild aðeins liðlega 36%.

Vinstri­flokk­arn­ir riðu ekki feit­um hesti og komu flest­ir blóðugir frá kosn­ing­un­um. Árang­ur Sósíalistaflokks­ins er hins veg­ar at­hygl­is­verður en þar hef­ur odd­vit­inn, Sanna Magda­lena Mörtudóttir, ör­ugg­lega skipt mestu. Glæsi­leg og viðfelld­in ung kona, jafn­vel í huga þeirra sem alla tíð hafa bar­ist gegn hug­mynda­fræði sósí­al­ista.

Sú staðreynd að ný fram­boð hafi fengið tæp 28% at­kvæða í Reykja­vík – sam­einuð væru þau ann­ar stærsti flokk­ur­inn – hlýt­ur að vera um­hugs­un­ar­efni fyr­ir þá flokka sem fyr­ir voru. Framsóknarflokkurinn missti fót­anna í borg­inni og Vinstri græn­ir eru í sár­um, ekki aðeins í Reykja­vík held­ur einnig í Kópa­vogi og Hafnar­f­irði.

Úrslit­in í Reykja­vík eru aug­ljóst ákall á breyt­ing­ar. Spurn­ing­in er sú hvort þeir flokk­ar sem náðu kjöri í borg­ar­stjórn hafi heyrt ákallið og bregðist við því. Eyþór Arn­alds, odd­viti Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði í viðtali við Rík­is­út­varpið síðastliðinn mánu­dag að staðan væri snú­in „fyr­ir marga sem voru með stór­ar yf­ir­lýs­ing­ar en það sem við sjá­um er að fólk vildi breyt­ing­ar, nýju flokk­ana og okk­ur“. Þetta er örugglega rétt mat hjá leiðtoga stærsta stjórn­mála­flokks­ins í borg­inni.

Nýju flokk­arn­ir fjór­ir fengu sex full­trúa kjörna í borg­ar­stjórn. Eng­inn þarf að velkj­ast í vafa um hugmynda­fræði Sósí­al­ista­flokks­ins. Hinir þrír, Miðflokk­ur, Viðreisn og Flokk­ur fólks­ins, hafa verið tald­ir til mið- og hægri­flokka. Hvernig þeir ákveða að spila úr þeim spil­um sem þeir fengu síðasta laug­ar­dag mun skera úr um hvort sú skil­grein­ing er rétt eða ekki.

Sterk staða Sjálf­stæðis­flokks­ins

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn bauð fram í 34 sveit­ar­fé­lög­um. Auk þess­ara sveit­ar­fé­laga stóðu sjálfstæðismenn að fram­boði með öðrum í nokkr­um sveit­ar­fé­lög­um. Eng­inn ann­ar stjórn­mála­flokk­ur hef­ur slíka stöðu um allt land, í öll­um fjórðung­um. Í 23 sveit­ar­fé­lög­um er Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn með mest fylgi allra flokka eða sam­eig­in­legra fram­boða annarra flokka.

Í tveim­ur sveit­ar­fé­lög­um varð klofn­ing­ur. Gott og öfl­ugt sjálf­stæðis­fólk taldi sig neytt til að ganga gegn göml­um sam­herj­um í Vest­manna­eyj­um og á Seltjarn­ar­nesi. Í Eyj­um varð klofn­ing­ur­inn dýrkeypt­ur. Á næstu vik­um og mánuðum er það verk­efni kjör­inna full­trúa og annarra áhrifa­manna í Sjálf­stæðis­flokkn­um að jafna þann ágrein­ing sem upp hef­ur komið.

Eft­ir kosn­ing­arn­ar síðasta laug­ar­dag liggja þess­ar staðreynd­ir fyr­ir um Sjálf­stæðis­flokk­inn á landsvísu:

  • Bauð fram í 34 sveit­ar­fé­lög­um.
  • Stærsti flokk­ur­inn í 23 sveit­ar­fé­lög­um.
  • Með hrein­an meiri­hluta í níu sveit­ar­fé­lög­um.
  • Í þrem­ur sveit­ar­fé­lög­um eru sjálf­stæðis­menn með yfir 60% fylgi og í átta með yfir 51%.
  • Í sjö sveit­ar­fé­lög­um er Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn með 40-50% fylgi.
  • Fylgi flokks­ins í þess­um 34 sveit­ar­fé­lög­um er í heild um 34,5%.
  • Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn fékk kjörna 118 full­trúa í sveit­ar­stjórn­ir.

Staða Sjálf­stæðis­flokks­ins er því gríðarlega sterk. Á Snæ­fellsnesi var niðurstaðan glæsi­leg sem og í Rangárþingi ytra og eystra. Staðan í Vest­manna­eyj­um, er þrátt fyr­ir klofn­ing, einnig mjög traust. Þannig má lengri telja og benda t.d. á Akra­nes og í Bol­ung­ar­vík.

Á höfuðborg­ar­svæðinu er Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn ráðandi póli­tískt afl í öll­um sveit­ar­fé­lög­un­um. Í Garðabæ jókst fylgið tölu­vert og er nú 62%. Hreint ótrú­leg­ur ár­ang­ur und­ir for­ystu Gunn­ars Einarsson­ar bæj­ar­stjóra.

Í heild jók Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn tölu­vert við fylgi sitt í sveit­ar­fé­lög­um höfuðborg­ar­svæðis­ins, bæði frá síðustu sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um 2014 og alþing­is­kosn­ing­um á síðasta ári. Alls studdu 35.460 kjósend­ur Sjálf­stæðis­flokk­inn á höfuðborg­ar­svæðinu eða rétt liðlega 35%. Í síðustu alþingiskosningum var fylgi flokks­ins um 26,3%. Fylgið er því um 8,8% meira en á síðasta ári.

En jafn­vel þótt staða Sjálf­stæðis­flokks­ins sé góð og víða mjög sterk standa flokks­menn frammi fyr­ir áskor­un­um sem þeir verða að mæta. Þá skipt­ir mál­flutn­ing­ur­inn miklu en verk­in á Alþingi og í sveitar­stjórn­um mestu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. maí 2018