Þrífösun: þörf á nýrri nálgun

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins:

Í mars 2017 skipaði ég starfshóp undir forystu Haraldar Benediktssonar alþingismanns um það mikilvæga málefni að greina og gera tillögur til úrbóta varðandi raforkudreifikerfi dreifiveitna. Hlutverk hópsins er ekki síst að leggja fram tillögur að því hvernig bæta megi útbreiðslu á því sem kallað er 3ja fasa rafmagn.

Þörfin fyrir slíkar tengingar er fyrst og fremst þar sem veruleg starfsemi fer fram, til að mynda búrekstur, ferðaþjónusta eða annar smáiðnaður sem treystir á öflug tæki og búnað. Það er illt til þess að vita að skortur á tengingum standi uppbyggingu fyrir þrifum, eins og til að mynda forsvarsmenn sveitarstjórnar Borgarbyggðar hafa lýst fyrir mér oftar en einu sinni að sé staðan á Mýrum.

Starfshópurinn hefur unnið að greiningum á þessu verkefni. Ríflega helmingur allra tenginga í dreifbýli er þriggja fasa. Kostnaður við þær tengingar sem eftir eru er nálægt 10 milljörðum. Endurbætur fylgja endurnýjunaráætlun Rarik, sem hefur með langflestar þessara tenginga að gera. Samkvæmt þeirri áætlun lýkur verkinu um 2034. Verði ákveðið að fara hraðar þarf að grípa til sértækra aðgerða. Fyrirtækið hefur takmarkaða fjármuni til framkvæmda, en dreifing rafmagns er sérleyfisrekstur og lýtur sérstökum gjaldskrám sem byggja á opinberum tekjumörkum dreifiveitna. Hraðari úrbætur þýða einfaldlega hærri dreifingarkostnað.

Starfshópurinn leitar því að öðrum leiðum til að mæta brýnni eftirspurn. Gerð hefur verið sérstök rannsókn á meðal sveitarfélaga um forgangsröðun á endurbótum. Það þurfa ekki allir raforkunotendur 3ja fasa tengingar og því er nauðsynlegt að greina raunverulega þörf og meta leiðir til að mæta henni.

Áhugi minn beinist ekki síst að því að láta reyna á samlegðaráhrif með ljósleiðaraframkvæmdum sem standa fyrir dyrum, til dæmis í Borgarbyggð og Skaftárhreppi, svo að tvö sveitarfélög séu sérstaklega nefnd. Eðli þessara tveggja tegunda af lagnaframkvæmdum er ólíkt. Fjarskiptin eru á samkeppnismarkaði, en verkefnið „Ísland ljóstengt“ starfar á svæðum þar sem styðja þarf við slíkar framkvæmdir. Raforkudreifing er aftur á móti sérleyfisrekstur, eins og áður segir. Mikilvægt er að ganga úr skugga um að regluverk og lög hindri ekki að unnt sé að samnýta þessar tvær framkvæmdir, sem lúta ólíkum reglum. Kostnaðarsamsetning framkvæmdanna er líka ólík. Verkefnið er því ekki einfalt.

Ætlun mín er að beita mér fyrir því, á grundvelli þeirrar vinnu sem unnið er að í starfshópnum, að tekin verði upp ný nálgun við forgangsröðun þrífösunarverkefna, sem endurspegli betur en gert er í dag hvernig ná megi mestum ávinningi með sem minnstum tilkostnaði. Í því sambandi er mikilvægt að láta reyna á þá nálgun að taka með í reikninginn áðurnefnd samlegðaráhrif með fyrirhuguðum ljósleiðaraframkvæmdum.

Mögulega mætti síðan í víðara samhengi skoða samlegð með fleiri skyldum verkefnum, til að mynda átaki í útbreiðslu á varmadælutækni á köldum svæðum.

Mýrarnar eru falleg sveit og sérstök perla. Þar er mikill sóknarhugur og ungt og kraftmikið fólk er að byggja þar myndarleg fyrirtæki og setjast þar að. Við eigum að hafa metnað til að sjá til þess að skortur á innviðum standi ekki í vegi fyrir þessari jákvæðu þróun og að því munum við vinna.

Greinin birtist fyrst í Skessuhorni 24. maí 2018.