Búskussar í borgarstjórn

Marta Guðjónsdóttir, 5. sæti í Reykjavík:

Einn þeirra fjölmörgu, íslensku málshátta sem hitta naglann nákvæmlega á höfuðið er þessi: „Umgengni lýsir innri manni“. Hér áður fyrr voru orð eins og „þrifnaður“ og „hirðusemi“ veigamikil hrósyrði gesta sem komu á ókunnuga bæi og þá jafnframt hrósyrði gagnvart þeim sem þar fóru með húsbóndavald. Hirðusemi lýsir svo sannarlega mikilvægum mannkostum. Hún er vitnisburður um virðingu okkar fyrir verðmætum. umhverfi og öðrum einstaklingum. Hirðuleysi ber hins vegar vott um leti, ómennsku og skort á virðingu.

Minni umhirða – vaxandi frjókornaofnæmi

Ég hef stundum áður vakið athygli á þeirri dapurlegu staðreynd að núverandi borgaryfirvöld hafa verið eftirbátar allra sinna forvera í umgengi. Reykjavík hefur aldrei verið sýnd eins mikið hirðuleysi og nú á tveimur síðustu kjörtímabilum. Grasfletir hafa verið slegnir mun sjaldnar en áður og umhirða útvistarsvæða minni með tilheyrandi vaxandi frjókornaofnæmi. Á sama tíma hefur nemendum í 8. bekk grunnskóla verið ítrekað neitað um sumarvinnu hjá borgaryfirvöldum. Undantekningin er þó að vísu nú í sumar enda kosningavor. Áttundu bekkingar mega því búast við sumarvinnu á fjögurra ára fresti – þegar kosið er til borgarstjónar.

Skrefagjald og spánnýir sorpskattar

Stefna borgaryfivalda í sorphirðu- og sorpeyðingamálum hefur verið jafn óheppileg og hún er til fyrirmyndar í ýmsum nágranna sveitarfélögum Reykjavíkur. Hér hefur öll viðleitnin farið í það að vekja tortryggni og óánægju borgarbúa í stað þess að vinna í sameiningu með almenningi að því að auka og vanda flokkun úrgangs. Dregið hefur úr tíðni sorphirðu í Reykjavík, sérstakar bláar tunnur seldar á okurverði, sendir út mælingamenn um alla borg til að mæla fjarlægð sorptunna frá gangstéttarbrún og nýr skattur eða skrefagjald lagt á þá sem hafa tunnurnar meira en 15 metra frá brúninni. Borgarbúum var jafnvel hótað með ruslatunnulöggæslumönnum sem áttu að hnýsast í einkalíf fólks með því að róta í sorptunnum þess. Nýjasta útspilið hjá borgaryfirvöldum í þessum málaflokki eru djúpgámar sem nú á að koma fyrir hér og þar um borgina með enn nýjum gjöldum á borgarbúa.

Veggjakrot á opinber mannvirki og fasteignir einstaklinga hefur nú stóraukist aftur, hvoru tveggja í og við Miðbæinn og í úthverfum, eftir að verulega dró úr því fyrir um áratug þegar farið var í sérstakt átak til að stemma stigu við þessari hvimleiðu skemmdarstarfssemi.  En borgaryfirvöld láta sér fátt um finnast eins og búast mátti við.

Borgarstjóri í felum

Alvarlegt  umhverfisóhapp átti sér stað er klóakfrárennsli Vesturbæinga rann óhindrað út í fjöruna við Ægisíðu, vikum saman, án þess að gerðar yrðu ráðstafanir og án þess að borgaryfirvöld sæju ástæðu til að tilkynna borgarbúum um þessa mengun við mjög fjölfarna útivistarstíga. Þegar fjölmiðlar reyndu að hafa upp á borgarstjóra til að fá fréttir og skýringar á óhappinu og furðulegum viðbrögðum yfirvalda, þá lét hann aldrei ná í sig. Hann var yfir það hafinn að blanda sér í pípulagnir. Þá hefur drykkjarvatn Reykvíkinga mengast nokkrum sinnum í vetur, vegna viðhaldsleysis, auk þess sem svifryksmengun í Reykjavík hefur aukist gífurlega vegna samgöngustefnu bogaryfirvalda.

Allt eru þetta dæmi um fádæma hirðuleysi sem ber ótvíræðan vott um virðingarleysi gagnvart umhverfi okkar og samfélagi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. maí 2018.