Allt snýst þetta um fólk

Kristján Þór Magnússon, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi:

Uppbygging atvinnulífsins í Þingeyjarsýslum á undanförnum árum hefur að mínum dómi skilað sér í aukinni bjartsýni og meiri almennri jákvæðni meðal íbúa á svæðinu.

Jákvæð rekstrarniðurstaða Norðurþings er sömuleiðis fagnaðarefni og sé rétt haldið á spilunum erum við vonandi að horfa fram á áframhaldandi hagvaxtaskeið næstu árin. Allt byggir það þó á því að við fáum áfram fleira fólk hingað til okkar sem sér og finnur að hér sé gott að búa. En hvað þarf til? Þegar kemur að ástæðum þess að fólk tekur sig upp og flyst búferlum hafa rannsóknir sýnt að fólk horfir alla jafna fyrst til þess hvar atvinnumöguleika við hæfi hvers og eins er að finna. Fjölbreytni í atvinnulífinu í Norðurþingi er því lykillinn að fjölbreyttu samfélagi, mannlífi og heilbrigðri íbúaþróun til lengri tíma litið.

Ég hef þá sýn að vilja byggja upp samfélag sem einkennist af eftirfarandi þáttum. Í fyrsta lagi vil ég búa í samfélagi þar sem fólk deilir svipuðum grunn gildum og vinnur sameiginlega að stóru markmiðunum. Ég vil búa í samfélagi þar sem rödd allra fær að heyrast og þar sem fólk er hvatt til þess að tjá sig. Ég vil samfélag þar sem sanngirni er grunnstef í samskiptum og samfélag þar sem íbúar þekkja sýnar skyldur, ekki bara sinn rétt. Ég vil búa í samfélagi þar sem forgangsraðað er í þágu velferðar og ég vil oftar að við minnum hvert annað á hvaðan við erum að koma og hvert við erum að fara því saga samfélagsins og arfleifð er nauðsynlegur hluti þess að geta öðlast raunverulega framtíðarsýn. Ég vil búa í samfélagi þar sem samneyti við aðra er í hávegum haft og ýtt er undir fjölbreytt félagslíf. Enda eru heilbrigð samfélög þau samfélög sem búa yfir miklum félagsauði. Ég vil búa í samfélagi þar sem kjörnir fulltrúar í stjórnmálum, hjá félaga- og hagsmunasamtökum standa með gildum samfélagsins. Samfélagið í Norðurþingi á að vera opið og upplýst samfélag þar sem fólk er meðvitað um það sem er að gerast á hverjum tíma og getur tekið þátt í að móta framtíðina. Ég vil búa í jákvæðu og hvetjandi samfélagi sem leggur áherslu á að allir einstaklingar þess fái notið velferðar og hamingju. Að sjálfsögðu er það óhugsandi að fólk greini ekki á um ýmsa hluti, en öflugustu leiðtogar samfélaga ná að leiða mál farsællega til lykta með ákvörðunartöku hvar allar hliðar máls hafa verið kannaðar og tillit tekið til sjónarmiða sem flestra.

En að mörgu er að hyggja. Á uppgangstímum eins og við lifum nú er álag ekki síður mikið á fólk og fyrirtæki og öll heyrum við umræðuna um álag og stress sem því miður of margir upplifa sem krónískt ástand. Á tímum upplýsingaofgnóttar, hinna óteljandi samskiptamiðla, mikils áreitis og kapphlaupsins endalausa um tíma fólks er vert að spyrja sig hvernig okkur tekst upp við að samræma heilbrigð tengsl atvinnulífsins og einkalífs? Erum við í Norðurþingi að standa okkur vel í þessum efnum? Gefum við okkur tíma til þess að bjóða nýja íbúa velkomna? Búum við í samfélagi þar sem reglulega heyrast raddir þeirra sem eru að gera áhugaverða og flotta hluti og heyrist örugglega í þeim sem horfa jákvæðir fram á veginn? Heyrast hrósin fyrir það sem vel er gert nægjanlega hátt og er kastljósinu beint að því sem skiptir mestu máli þegar upp er staðið?

Ég hef velt þessu fyrir mér undanfarið í ljósi t.a.m. afar jákvæðrar upplifunar minnar sem foreldri barna á leikskólanum Grænuvöllum, hvort við sem eldri erum getum ekki oftar gert aðeins betur og jafnvel lært af því sem unnið er daglega með í skólunum okkar? Erum við örugglega fyrirmyndir barna okkar þegar við eigum í samskiptum við annað fólk? Já, við erum það alltaf, sama í hvernig samskiptum við eigum. Temjum okkur því jákvæð samskipti og uppbyggileg. Erum við að leggja okkur fram við að láta öðrum líða vel? Það er svo merkilegt hvað það kostar oft lítið en gefur mikið. Það besta í lífinu er frítt og allt það, segir í textanum. Er þess gætt nægjanlega vel í atvinnulífinu að fyrirtækjamenningin hafi samhljóm við það sem t.d. sveitarfélagið er að gera alla daga í sínum stærstu stofnunum eins og grunn- og leikskólum? Af hverju mótast vinnustaðabragurinn? Einkennist hann af umhyggju, byggir hann á gagnkvæmri virðingu, reisn, vinsemd og festu eins og unnið er með í skólunum okkar? Nota stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja í sveitarfélaginu hvatningu og er hugað að samspili vinnustaðarins og heimila starfsfólks? Eftir hvaða stefnum er unnið?

Við höfum alla burði til þess að standa okkur frábærlega á öllum þessum sviðum. En til þess þurfum við samstarf á breiðum grunni. Því biðla ég til ykkar um að við tökum höndum saman, heimilin og atvinnulífið og gerum með okkur sáttmála sem miðar að því að fjölga stundum með börnum okkar og fjölskyldum. Lítum oftar við hjá eldri frænkum, frændum og kunningjum okkar. Leggjum símana oftar til hliðar og tölvuna og tæknigræjurnar frá okkur. Lesum fyrir hvert annað, bjóðum oftar í mat og göngum meira utandyra. Síðast en ekki síst skulum við gefa okkur tíma til að sinna sjálfum okkur betur bæði líkamlega og andlega. Það er forsendan fyrir því að getað gefið meira af sér heima, í vinnunni eða félagsstarfinu. Þannig ýtum við undir þá framtíðarsýn sem ég hef á jákvætt og hvetjandi samfélag í Norðurþingi. Ert þú ekki örugglega með mér á þeirri vegferð?

Greinin birtist fyrst á 640.is 23. maí 2018.