Fyrir okkur öll

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins

Frambjóðendur á listum Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar eru næstum fimm hundruð talsins. Þessi fjölmenna og öfluga sveit vinnur nú stefnumálum sínum fylgis um allt land á lokasprettinum fyrir kjördag. Ég hef verið svo heppin að hafa haft tækifæri til að heimsækja frambjóðendur og stuðningsmenn flokksins í mörgum sveitarfélögum á undanförnum vikum. Hvarvetna ríkir metnaður til að gera betur í þágu samfélagsins, með bjartsýni, gleði og kraft að leiðarljósi.

Slagorð Sjálfstæðisflokksins í síðustu alþingiskosningum, „Fyrir okkur öll“, á ekki síður vel við í þessum kosningum. Sveitarfélögin bera ábyrgð á mörgum mikilvægustu hagsmunamálum borgaranna og hafa því veruleg áhrif á lífsgæði okkar allra. Því miður er víða pottur brotinn en við höfum líka dæmin um hvernig hægt er að standa vel að málum, veita góða þjónustu og sýna á sama tíma ráðdeild í rekstri.

Snúum Reykjavík af rangri leið

Í Reykjavík hefur Sjálfstæðisflokkurinn kynnt skynsamlega og metnaðarfulla stefnu í mörgum málum sem auka mun lífsgæði borgaranna og bæta daglegt líf, til að mynda í húsnæðismálum og í dagvistunar- og leikskólamálum þar sem boðið verður upp á fleiri valkosti og fjölbreyttari þjónustu. Nýleg þjónustukönnun í stærstu sveitarfélögum landsins sýnir að hvergi eru íbúarnir óánægðari með þjónustu leikskóla og grunnskóla en í Reykjavík, sjálfri höfuðborg landsins. Þetta er með ólíkindum og verðskuldar í mínum huga eitt og sér að kjósendur færi núverandi meirihluta reisupassann. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hafa bent á hvernig gera megi betur.

Borgin hefur brugðist á fleiri sviðum. Hún fær falleinkunn á fimm af níu mælikvörðum fjármála í nýrri skýrslu Samtaka atvinnulífsins. Og hún er Íslandsmeistari í skattbyrði í flokki stærstu sveitarfélaga landsins; ekkert þeirra tekur til sín hærra hlutfall af tekjum íbúanna en Reykjavík gerir. Þetta er afleitt og þessu ætlar Sjálfstæðisflokkurinn líka að breyta. Það má ekki alltaf vera fyrsta svar hins opinbera að seilast dýpra ofan í vasa heimilanna, oft til að fjármagna óskilvirkt og þunglamalegt bákn. Stjórnvöld verða að líta í eigin barm, hagræða og forgangsraða. Sjálfstæðisflokkurinn hefur því boðað að hann ætlar að lækka útsvar borgarbúa í þrepum á hverju ári þar til það verður komið undir 14%. Þetta eru góð og skynsamleg áform sem auka munu ráðstöfunartekjur einstaklinga og fjölskyldna í Reykjavík.

Nýtum tækifæri hverrar byggðar

Ég er stolt af því að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins víðsvegar um landið hafa slegið réttan tón í nálgun sinni á viðfangsefnin. Að sjálfsögðu er höfð uppi eðlileg og málefnaleg gagnrýni á frammistöðu og stefnumál annarra en megináherslan er á ágæti okkar eigin stefnu, góða frammistöðu þar sem við höfum verið við stjórnvölinn, og tækifærin sem við sjáum í hverri og einni byggð; tækifærin til að gera betur fyrir okkur öll.

Ég trúi að byggðir landsins eigi sér bjarta framtíð. Með skynsamlegum áherslum geta stjórnvöld bæði á landsvísu og á hverjum stað lagst á eitt um að nýta með ábyrgum hætti þau tækifæri sem sannarlega eru fyrir hendi á mörgum sviðum, til að mynda í ferðaþjónustu, fiskeldi, iðnaði, matvælaframleiðslu og margvíslegri nýsköpun á þessum sviðum og fleirum. Krafturinn býr í fólkinu og hugvitinu eru lítil takmörk sett; verkefni okkar stjórnmálamanna er að hlúa að jarðveginum og sjá til þess eins og frekast er unnt að forsendur séu til staðar til að hægt sé að nýta tækifærin. Ég get fullvissað lesendur um að við finnum öll til ábyrgðar í þeim efnum og verkefnin eru ærin.

Ég veit að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hafa það sem þarf til að nýta tækifærin.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 19. maí.