Það er gott að búa í Skagafirði – gerum gott samfélag enn betra

Ari Jóhann Sigurðsson, 6 sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði:

Í aðdraganda kosninga er rétt að staldra við, líta yfir farinn veg en einnig að horfa til framtíðar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið þátttakandi í meirihlutasamstarfi með Framsóknarflokknum sl. fjögur ár. Samstarfið hefur gengið vel og hefur margt áunnist.

Framkvæmdir á vegum Sveitarfélagsins hafa verið áberandi, nefna má sérstaklega hitaveituvæðingu og lagningu ljósleiðara í dreifbýli. Þá er verið að laga íþróttaaðstöðu á Sauðárkróki og unnið hefur verið að endurbótum við sundlaugina þar. Safnahúsið var tekið í gegn og klárað sem og Iðjan við Sæmundarhlíð sem er vinnustaður fyrir fatlað fólk. Um þessar mundir er verið að vinna við endurbætur á gamla mjólkursamlaginu við Aðalgötu.

Vinna við deiluskipulag Sauðárkrókshafnar er í fullum gangi og stefnt er að dýpkun á snúningsplani hafnarinnar í haust. Við það skapast betri möguleikar á að taka á móti stærri skipum, s.s. skemmtiferðaskipum. Þá hefur verið óskað eftir fjármagi til að endurnýja og bæta hafnaraðstöðu á Hofsósi en beðið er eftir nýrri samgönguáætlun þar sem fjármagn verður eyrnamerkt höfninni þar. Endurbætur á höfninni á Hofsósi eru á forgangslista sem og stækkun á Sauðárkrókshöfn.

Farið var af stað með verkefni í flokkun sorps í dreifbýli en tilraun var gerð með slíka flokkun í Hegranesi. Það verkefni gekk vel og nú er stefnan sett á að tunnuvæða önnur svæði í sveitarfélaginu og þar með flokkun sorps. Teikningar af móttökustöð fyrir sorp í Varmahlíð eru tilbúnar og útboð á verkinu að fara af stað. Það verður að viðurkennast að þetta verkefni hefur tekið allt of langan tíma en verður komið í gagnið í haust. Í heild sinni eru umhverfismál málaflokkur sem nauðsynlegt er að setja í forgang og þar þurfa allir að leggja sitt af mörkum, bæði einstaklingar en ekki síður fyrirtæki. Endurskoða þarf regluverk og sorphirðugjöld þannig að samræmi verði á milli þeirra aðila sem menga.

Moksturþjónustu á tengivegum hefur verið óviðunandi um langt skeið. Óskað hefur verið eftir breytingum á reglum um sjómokstur og hálkuvarnir við Vegagerðina og er sú vinna í fullum gangi hjá Vegagerðinni. Nauðsynlegt er að reglum verði breytt og þjónustan aukin til muna. Góðar samgöngur eru undirstaða til vaxtar og framþróunar í samfélaginu. Vegasamgöngur eru ásamt internetaðgangi og póstþjónustu nauðsynlegar samgöngur til að viðhalda og auka búsetuskilyrði í dreifbýli.

Sjálfstæðisflokkurinn setur fram metnaðarfulla stefnuskrá og framtíðarsýn. Taka þarf af festu á biðlistavandamálum í leikskólum og strax þarf að hefjast handa við uppbyggingu á leikskólanum á Hofsósi og í Varmahlíð. Mikilvægt er að hefja nú þegar samtal við foreldra og starfsfólk í áðurnefndum leikskólum og vinna að lausnum í samstarfi við þjónustunotendur. Ráðast þarf strax í endurbætur á Varmahlíðarskóla en þar er og hefur vinnuaðstaða nemanda og starfsfólks verið óviðunandi til langs tíma.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á samtal við íbúa og íbúalýðræði, opna stjórnsýslu og gegnsæi. Sjálfstæðiflokkurinn hafnar valdboðspólitík en setur lýðræðisleg vinnubrögð í öndvegi.

Sjálfstæðisflokkurinn í Skagafirði er tilbúinn að leiða meirihlutasamstarf í sveitarstjórn. Til þess að svo geti orðið þarf hann á stuðningi kjósenda að halda. Ég hvet alla til að seta X við D.

Greinin birtist fyrst í Feyki 16. maí 2018 (sjá hér).