„Mér er til efs að við höfum áður séð jafn hátt hlutfall atvinnustarfseminnar í landinu í opinberri eigu eða í óbeinni eigu almennings í gegnum lífeyrissjóðina og í dag,“ sagði Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Landsvirkjunar í gær.
„Orkufyrirtækin og stórir bankar eru í opinberri eigu, fyrir utan fjölmiðil, flugstöðina, flugvellina og margt fleira sem ég gæti talið upp. Þegar við leggjum þetta saman við það hversu mjög umsvif lífeyrissjóðanna hafa aukist í atvinnulífinu á Íslandi, þar sem þeir fara í dag með rúmlega helmings hlut í skráðum fyrirtækjum og eiga alls um þriðjung alls fjármagns í landinu, dregst upp þessi athyglisverða mynd: Að við höfum líklega aldrei áður séð jafn hátt hlutfall atvinnustarfseminnar í landinu í ýmist beinni opinberri eigu eða í óbeinni eigu almennings í gegnum lífeyrissjóðina,“ sagði Bjarni í ræðu sinni.
Hann sagði starfshóp sem hann hafi skipað á síðasta ári hafa lagt til ákveðnar aðgerðir sem væru til skoðunar í stjórnkerfinu, en starfshópurinn hafi enn fremur bent á ýmsa ágalla í kerfinu sem myndu birtast almenningi í hærra verði og lakari þjónustu við neytendur ef ekki yrði brugðist við.
Hann ræddi einnig raforkumarkaðinn og sagði: „Hið opinbera er yfir og allt um kring á raforkumarkaði. Hið opinbera fer með leyfisveitingar- og reglusetningarvaldið. Ríki og sveitarfélög eiga nær alfarið framleiðslufyrirtækin. Flutningakerfið og dreifiveiturnar eru í opinberri eigu og háð sérleyfum. Á raforkusölumarkaði þar sem ætlunin var að ná fram samkeppni eru fá merki um að hún sé í reynd til staðar.“
Árið 2003 voru innleidd ný raforkulög sem ætlað var að ná fram samkeppni og velti svo fram þeirri spurningu hvort þetta fyrirkomulag dragi úr því að við náum fram kröftum markaðarins til þess að skila betri þjónustu og betri verðum til neytendanna í landinu.
„En er ekki nóg að hið opinbera framleiði og haldi á flutningskerfi og dreifiveitum? Þarf það líka að reka smásölufyrirtækin? Ef svarið við því er já, að ríkið þurfi líka að reka smásölufyrirtækin, til hvers í ósköpunum vorum við þá að þessu öllu saman árið 2003? Að brjóta þetta upp og skilja þarna á milli. Og höfum við spurt okkur nægilega sterkt í millitíðinni hvort þeim markmiðum sem að var stefnt árið 2003 hafi verið náð? Ég held að þetta séu spurningar sem við þurfum að færa framar í forgangsröðina í umræðunni í dag,“ sagði Bjarni.
„Ákvörðun Landsvirkjunar um verðgólf í heildsölu verður óhjákvæmilega af þessari ástæðu ráðandi í verðmyndun á smásölumarkaði. Er hugsanlegt að við þurfum að auka gagnsæi um þær ákvarðanir Landsvirkjunar?“ spurði ráðherra ennfremur.
Þá ræddi hann um þær miklu jákvæðu breytingar sem orðið hafa á lífsgæðum fólks á Íslandi, m.a. í kjölfar virkjanaframkvæmda um allt land á síðustu áratugum.
„Mér finnst eins og við séum nú að nálgast ný tímamót þar sem það er að verða algjör bylting í umræðu um endurnýjanlega orkukosti,” sagði Bjarni Benediktsson.
Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra í heild sinni má finna hér.