Úr hlekkjum hugarfarsins

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Allt daglegt líf okkar er markað af hinu opinbera – ríki og sveitarfélögum. Við keyrum öll um götur og vegi sem lagðir hafa verið fyrir almannafé, losnum við skólp í gegnum sameiginleg holræsi, fáum vatn og rafmagn frá opinberum aðilum. Flestir koma í þennan heim á fæðingardeildum sjúkrahúsa og ganga menntaveginn á kostnað samfélagsins. Stór hluti þjóðarinnar er í vinnu hjá hinu opinbera, þúsundir vinna við að þjónusta opinbera aðila og aðrir eiga mikið undir ríkinu komið, allt frá verktakanum sem tekur að sér vegagerð, til heildsalans sem selur ríkisfyrirtæki skrifstofuvörur, frá bakaranum sem tryggir að starfsmenn opinberra stofnana fái brauð, til tónlistarmannsins sem heldur tónleika fyrir troðfullu húsi, sem byggt var fyrir reikning skattgreiðenda.

Margir búa í húsnæði í eigu hins opinbera eða hafa náð að eignast íbúð í skjóli niðurgreiddra vaxta eða beinna styrkja í gegnum skattkerfið. Öðrum er gert ókleift að eignast íbúð. Skortstefna stærsta sveitarfélagsins keyrir upp fasteignaverð sem smitast út í allt efnahagslífið. Ríkið er leiðandi í verðmyndun á ýmsum vörum og þjónustu eða brenglar samkeppni með ýmsum reglum og afskiptum, boðum og bönnum. Með margvíslegum hætti – stundum lævísum – er reynt að hafa áhrif á hegðun almennings.

Öll njótum við aðstoðar hins opinbera; þegar veikindi steðja að, atvinnuleysi, slys, fátækt, örorka eða þegar farið er á eftirlaun. Við greiðum skatta, ef ekki af tekjum þá óbeint þegar keypt er í matinn, bensín sett á bílinn eða keypt stílabók fyrir börnin í grunnskóla.

Ríkisvæðing náungakærleikans

Óhætt er að fullyrða að yfirgnæfandi meirihluti okkar Íslendinga lítur svo á að í gildi sé sáttmáli. Við erum sammála um að standa sameiginlega að öflugu heilbrigðiskerfi þar sem allir fá nauðsynlega þjónustu án tillits til efnahags eða búsetu. Við höfum heitið því að aðstoða þá sem minna mega sín til sjálfshjálpar og stuðla að mannlegri reisn okkar allra. Og við viljum tryggja jafnræði borgaranna.

Í grámyglu hversdagsins leiða hins vegar fæstir hugann að hlutverki og skyldum ríkisins eða sveitarfélagsins. Við göngum út frá því sem vísu að allt liggi skýrt fyrir og staðinn sé vörður um sáttmálann. Af og til verðum við pirruð vegna frétta um að vafasama ráðstöfun opinberra fjármuna en erum yfirleitt fljót að komast yfir ergelsið.

Þegar stjórnmálamenn með stuðningi og oftar ekki eftir ráðleggingum embættismanna og sérfræðinga ákveða að auka útgjöld, er líklegra en ekki að við fögnum, ekki síst ef fjármunirnir eru eyrnamerktir til menntamála, heilbrigðismála eða annarra velferðarmála. Fæstir velta því fyrir sér hvort fjármunum sé vel varið – hvort þeir nýtist með skynsamlegum hætti og hvort sú þjónusta sem greitt er fyrir muni batna. Mælikvarðarnir hafa brenglast. Opinber þjónusta er mæld á stiku útgjalda en gæði þeirrar þjónustu sem veitt er fyrir sameiginlega fjármuni er aukaatriði. Kannski er þetta vegna þess að við viljum kaupa okkur frá vandamálunum, – ætlumst til þess að ríki og sveitarfélög leysi flest vandamál, ekki síst þau sem nágranni okkar glímir við. Afleiðingin er ekki aðeins sú að við hættum að hafa áhyggjur af því hvort fjármunum hins opinbera er varið með hagkvæmum hætti, heldur einnig að við verðum ónæmari fyrir erfiðleikum náungans. Við lítum svo á að með sköttum og gjöldum getum við „keypt“ okkur frá bágindum samferðafólksins.

Ég hef haldið því fram að við séum að ríkisvæða náungakærleikann. Krafan er að hið opinbera grípi til sinna ráða í stað þess að við réttum fram hjálparhönd. Ríkisvæðing náungakærleikans hefur gert það að verkum að við sættum okkur við að ríkið þenjist stöðugt út.

Hugarfarsbreyting

Ég óttast við séum hægt og bítandi að missa sjónar af hlutverki ríkis og sveitarfélaga. Við erum að festast í gildru hugarfars þar sem lausn flestra ef ekki allra vandamála sé að auka útgjöld. Tortryggni í garð einkaframtaksins hefur náð að festa rætur og talið best að ríkið annist flest, jafnvel þótt aðrir séu betur til þess fallnir, veiti betri og ódýrari þjónustu. Hægt og bítandi er hætt að huga að því hvernig takmörkuðum fjármunum er best varið til að tryggja að hægt sé að standa við sáttmála sem við viljum halda í heiðri. Kerfið er hægt og bítandi að grafa undan sjálfu sér.

Þess vegna þurfum við hugarfarsbreytingu – ekki ósvipaða og átti sér stað í íslensku atvinnulífi á síðustu tveimur áratugum liðinnar aldar. Þá tókst að draga úr þátttöku og áhrifum ríkisins af atvinnulífinu.

Á fimm ára afmælisráðstefnu Viðskiptablaðsins árið 1999 gerði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, hugarfarsbreytinguna að umtalsefni. Þótt erfitt væri að mæla hana fyndu allir glöggt fyrir henni og ættu að vera stoltir:

„Nú dettur engum í hug að sitja á biðstofum stjórnmálamannanna til að verða sér úti um fé í gjaldþrota fyrirtæki. Ríkisvaldið sér um að plægja akurinn, en fólki er látið eftir að sá og uppskera. Nú kæmist enginn stjórnmálamaður upp með að segja að almenn efnahagslögmál eigi ekki við á Íslandi. Ekki frekar en að nokkur vísindamaður með viti mundi halda því fram að þyngdarlögmálið gilti ekki hér á landi. Nú bíða menn ekki lengur eftir efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar, eða bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar, eða gengisfellingu ríkisstjórnarinnar. Fólk vill hvorki smáskammtalækningar né meint aukaverkanalaus töframeðul.“

Hugarfarsbreytingin sem Davíð Oddsson gerði að umtalsefni fyrir tæpum tveimur áratugum varð til þess að enginn vildi lengur kannast við nauðsyn þess að ríkið fái eitt að stunda rekstur á útvarps- og sjónvarpsstöðvum. Fáum ef nokkrum datt í hug að það væri eðlilegt að opinberir aðilar krefðust sérstakra skýringa á því í hvað frjáls borgari ætlaði að „eyða“ erlendum gjaldeyri sem hann keypti í banka. Ekki nokkur maður hafði skilning á því að starfsmenn Seðlabankans sætu yfir greiðslukortayfirliti, (þeirra fáu sem höfðu leyfi til að nota kreditkort) og gerðu athugasemdir við eyðsluna.

Líkt og á síðustu öld verðum við Íslendingar að brjótast úr hlekkjum hugarfarsins þó að ekki væri til annars en að tryggja hagkvæma nýtingu sameiginlegra fjármuna og styrkja þannig getu hins opinbera til að tryggja þá þjónustu sem við ætlumst til. Við þurfum að skera fituna af ríkinu og ríkisrekstrinum, innleiða samkeppni þar sem við á og nýta hæfileika og getu einstaklinga til að veita ekki síðri og oft ódýrari þjónustu en ríkið sjálft. Ef við náum að greina á milli þess hver borgar og hver veitir þjónustuna og gerum kröfu um hagkvæma nýtingu fjármuna, er að minnsta kosti hálfur sigur unninn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. maí 2018