Leitað verði umsagnar nánustu ættingja

„Markmið frumvarpsins er að tryggja að ekki sé unnt að rjúfa varanleg tengsl barns við fjölskyldu látins foreldris eða foreldra, séu báðir foreldrar látnir, án nokkurrar aðkomu nánustu ættingja þess foreldris eða þeirra foreldra,“ segir í greinargerð með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ættleiðingar sem nú hefur verið lagt fyrir Alþingi öðru sinni.

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Vilhjálmur Árnason, þingmaður Suðurkjördæmis. Meðflutningsmenn eru; Andrés Ingi Jónsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ólafur Ísleifsson, Bergþór Ólason, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Sigurður Páll Jónsson, Jón Steindór Valdimarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Annarsvegar er lagt til að ef sótt sé um ættleiðingu barns sem misst hefur annað foreldri sitt eða bæði, hvort sem um er að ræða frum- eða stjúpættleiðingu, skuli leita umsagnar nánustu fjölskyldu látins foreldris barnsins eða þeirra beggja ef bæði eru látin.

Hinsvegar er lagt til að í þeim tilvikum þar sem barn hefur verið í fóstri hjá umsækjendum og hagir þess mæla eindregið með ættleiðingunni skuli þó leita umsagnar nánustu fjölskyldu ef annað foreldri er látið eða bæði.

Hægt er að kynna sér frumvarpið í heild sinni hér á vef Alþingis.