Einkaleyfi og nýsköpunarvirkni

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Í febrúar síðastliðnum var haldið málþing um hugverkarétt í jarðvarmageiranum. Tilgangur málþingsins var að vekja fyrirtæki í jarðvarma og orkuiðnaði til umhugsunar um mikilvægi þekkingar, hugvits og verndunar hugverka fyrir samkeppnishæfni iðnaðarins. Þar kom fram að Íslendingar eiga engin einkaleyfi á aðferðum til að nýta jarðvarma og ekkert slíkt einkaleyfi er í vinnslu. Aftur á móti eru erlendir aðilar duglegir við að leggja fram slíkar umsóknir.

Þessar fréttir komu mér mjög á óvart og hafa valdið mér áhyggjum. Á Íslandi hefur byggst upp mikil þekkingu á nýtingu jarðvarma og hefur þeirri þekkingu verið miðlað víða. Hér er til að mynda rekinn jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna. Fjöldi fyrirtækja hafa flutt út bæði tækni og þekkingu sem tengjast nýtingu jarðvarma og því sætir það furðu að ekkert þeirra hafi enn ekki séð tækifæri í því að vernda þær aðferðir með einkaleyfi. Í kjölfar þessara frétta lagði ég fram fyrirspurn til ráðherra iðnaðar- og nýsköpunarmála en hún var í þremur liðum:

  • Hefur ráðherra áhyggjur af þeirri þróun að Íslendingar eigi engin einkaleyfi á sviði jarðvarmavinnslu á meðan erlendir aðilar hafa skráð töluvert af slíkum einkaleyfum hér á landi?
  • Hefur ríkisstjórnin eða ráðherra það markmið að fjölga íslenskum einkaleyfum til að auka enn frekar samkeppnishæfni landsins?
  • Hvaða aðferðum beitir hið opinbera til að hvetja til þess að íslenskir vísindamenn og hugverkamenn verndi hugverk sín með því að sækja um einkaleyfi?

Heildstæð nýsköpunarstefna

Í svörum ráðherra kom fram að gríðarleg aukning hafi verið í fjölda einkaleyfa á sviði jarðvarmavinnslu í heiminum á síðustu árum. Íslendingar hafa af einhverjum ástæðum ekki verið þátttakendur í því ferli og það er mjög miður, að mínu mati. Ráðherra sagði afdráttarlaust að það væri markmið að fjölga einkaleyfum enda leggur ríkisstjórnin mikla áherslu á nýsköpun í stjórnarsáttmála sínum. Það kom einnig fram í máli ráðherra að til standi að móta heildstæða nýsköpunarstefnu fyrir Ísland í nánu samstarfi við atvinnulífið og vísindasamfélagið en undirbúningur þeirrar vinnu er hafinn. Í þeirri vinnu verði sérstaklega horft til fjölgunar íslenskra einkaleyfa til að auka enn frekar á samkeppnishæfni landsins. Hið opinbera hefur ýmis verkfæri til að styðja við fjölgun íslenskra einkaleyfa en það verður að skoða og útfæra nánar í þeirri vinnu sem fram undan er við gerð nýsköpunarstefnu. Ég fagna þessum áformum og tel slíka stefnumörkun mikilvæga til að auka fjölbreytni íslensk atvinnulífs til framtíðar.

Umræða um skort á því að íslenskir aðilar sæki um einkaleyfi er ekki ný af nálinni og bent hefur verið á það í erlendum úttektum um rannsókna- og nýsköpunarumhverfi á Íslandi að hér sé um veikan hlekk að ræða. Að mörgu leyti stöndum við mjög vel að okkar nýsköpunarumhverfi og komum við almennt nokkuð vel út úr alþjóðlegum samanburði. En það er alltaf hægt að gera betur og fjöldi íslenskra einkaleyfa er, og hefur verið, veikur hlekkur í okkar nýsköpunarkeðju. Rannsóknir sýna að einkaleyfi hvetja til nýsköpunar og að það er samhengi milli fjölda einkaleyfa og fjárfestinga í rannsóknar- og þróunarstarfi. Það er því ljóst að miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íslenskt atvinnulíf og nauðsynlegt að efla þekkingu á mikilvægi einkaleyfa.

Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. apríl 2018