Hildur Björnsdóttir, 2. sæti í Reykjavík:
Gallup framkvæmdi nýlega þjónustukönnun meðal allra stærstu sveitarfélaga landsins. Mælir könnunin viðhorf og ánægju íbúa með þjónustu sveitarfélaganna. Reykjavíkurborg fékk falleinkunn. Ekkert sveitarfélag landsins komst svo nálægt botninum. Reykvíkingar eru óánægðir með grunnþjónustuna. Þeir eru óánægðir með leikskólana.
Það er hverju sveitarfélagi mikilvægt að veita áreiðanlega grunnþjónustu. Það er forsenda stöðugrar búsetu og almennrar ánægju. Maður myndi ætla að höfuðborgir væru í forystuhlutverki. Svo er ekki um Reykjavík. Reykjavík veitir slaka grunnþjónustu og íbúar eru óánægðir. Lífsgæði eru lakari í Reykjavík en í nágrannasveitarfélögum.
Núverandi meirihluti hefur haldið illa á daggæslumálum. Fögur fyrirheit um aðgerðir í leikskólamálum hafa engu skilað. Haustið 2017 voru tæplega 850 börn á biðlista eftir leikskólaplássi. Dagforeldrum fækkaði um 30%. Foreldrar voru í vanda. Foreldrar eru enn í vanda. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur glatað trúverðugleikanum.
Daggæsluvandinn verður ekki leystur á einni nóttu. Við honum er engin töfralausn. Ráðast þarf í skammtímaaðgerðir samhliða langtímalausnum.
Við leggjum áherslu á fjölgun leikskólakennara. Það þarf aukið hlutfall faglærðra á leikskólana. Við þurfum að laða fleiri í stéttina og skoða kjaramál leikskólakennara heildstætt. Þetta er langtímaverkefni – enda tekur fimm ár að útskrifa nýjan leikskólakennara.
Eins þarf að stórfjölga plássum á leikskólum. Reisa þarf nýja skóla og byggja við þá sem bjóða stækkunarmöguleika. Uppbyggingin tekur tíma en miklum árangri má ná á næstu 2-4 árum.
Á meðan leyst er úr langtímaverkefnum þarf skammtímalausnir. Foreldrar hafa ekki fimm ára þolinmæði. Þau börn sem sækja nú leikskóla verða útskrifuð að þeim tíma liðnum. Foreldrar vilja lausnir strax. Þeir vilja vita hvernig vandanum verður mætt næsta haust.
Leysa þarf úr mannekluvanda leikskólanna. Við þurfum nýja hópa inn í starfið. Nýjar hugmyndir og óhefðbundnar lausnir. Til þess eru ýmsar leiðir færar. Virkja mætti unga sem aldna.
Við viljum efla dagforeldrastéttina. Gera þarf átak í aðstöðumálum og auka niðurgreiðslu til dagforeldra. Þannig greiði foreldrar barna hjá dagforeldrum sama gjald og foreldrar barna á leikskólum.
Allt eru þetta flókin og umfangsmikil verkefni. Kostnaðarsöm verkefni – forgangsverkefni. Við setjum leikskóla- og daggæslumál í forgang. Við viljum tryggja öllum börnum pláss – og foreldrum val um daggæslukosti.
Birtist fyrst í Fossvogsblaðinu 11. apríl 2018