338 milljarðar til fjárfestinga á tímabilinu 2019-2023

„Í kjölfar mikillar lækkunar skulda og vaxtagreiðslna hefur nú skapast svigrúm til innviðauppbyggingar og þess sjást skýr merki í fjármálaáætluninni,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra í framsöguræðu sinni með fjármálaáætlun ríkisins 2019-2023.

„Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að afkoma hins opinbera á árinu 2019 verði jákvæð um sem nemur 1,3% af vergri landsframleiðslu, eða tæplega 37 milljörðum króna, og að hún verði jákvæð um 1,1% af vergri landsframleiðslu að meðaltali á áætlunartímabilinu. Gert er ráð fyrir að afgangur af heildarafkomu ríkissjóðs verði ekki minni en 1% af vergri landsframleiðslu árið 2019 og að jafnaði ekki minni en 0,8–0,9% af vergri landsframleiðslu á árunum 2020–2023. Það svarar til þess að árlegur afgangur verði 25-34 milljarðar króna eða um um 140 ma.kr. uppsafnað til ársins 2023,“ sagði ráðherra.

„Í spá Hagstofunnar er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 2,9% í ár og 2,8% á næsta ári en um 2,5-2,6% eftir það. Gangi þessi spá eftir verður þetta lengsta samfellda hagvaxtarskeið Íslandssögunnar,“ sagði ráðherra.

Sagði hann að í áætluninni sé gert ráð fyrir áframhaldandi afgangi af rekstri ríkis og sveitarfélaga öll ár áætlunarinnar.

Skuldir ríkissjóðs áætlaðar 21% af VLF árið 2023

„Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað hratt á undanförnum árum eða úr um 1.500 milljörðum króna þegar þær náðu hámarki árið 2012 í 911 milljarða króna í lok árs 2017. Lækkun skulda má rekja til ábyrgrar ríkisfjármálastefnu, viðsnúnings í rekstri ríkissjóðs og að sjálfsögðu ráðstöfun stöðugleikaframlaga. Aðrar óreglulegar tekjur hafa einnig runnið til niðurgreiðslu skulda,“ sagði Bjarni.

Hann sagði að áfram væri gert ráð fyrir lækkun skulda hins opinbera og að strax á árinu 2019 verði skuldamarkmiðum náð, ári fyrr en áætlað hafi verið. „Í lok tímabils eru heildarskuldir ríkissjóðs áætlaðar um 737 milljarðar króna og verður hlutfall brúttóskulda af vergri landsframleiðslu þar með um 21%.“

Sagði ráðherra markmið fjármálaætlunarinnar að varðveita efnahagslegan stöðugleika og tryggja stefnufestu í opinberum fjármálum samhliða því að treysta samfélagslega innviði.

„Ágætt jafnvægi er í hagkerfinu um þessar mundir eftir kröftugan vöxt undanfarin ár. Þetta birtist meðal annars í litlu atvinnuleysi, lítilli verðbólgu, hóflegum verðbólguvæntingum og betri eiginfjárstöðu heimila og fyrirtækja en verið hefur um langt skeið,“ sagði ráðherra.

Sagði hann ytri aðstæður hafa verið hagfelldar og vísaði þar m.a. í uppgang ferðaþjónustunnar. „Viðfangsefnið framundan er að varðveita þennan árangur og framlengja hann með samstilltri hagstjórn peningamála, opinberra fjármála og vinnumarkaðarins.“

Þá sagði ráðherra fjárfestingu í innviðum samfélagsins vera eitt af lykiláherslumálum ríkisstjórnarinnar.

Um 120 milljarðar settir í samgöngur og fjarskipti

„Meðal helstu verkefna er bygging nýs Landspítala við Hringbraut, bygging Hús íslenskunnar, myndarleg innviðauppbygging  á ferðamannastöðum, kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna og uppbygging hjúkrunarheimila. Þá er í áætluninni gert ráð fyrir verulegum framlögum til uppbyggingar í samgöngu- og fjarskiptum en alls verður varið ríflega 120 ma. kr. til þeirra mála.“

Alls kom fram að gert væri ráð fyrir að fjárheimildir til fjárfestinga í útgjaldarömmum málefnasviða nemi ríflega 338 milljörðum króna á tímabilinu 2019-2023.

Ráðherra sagði að áfram verði unnið að styttingu biðlista og að hjúkrunarrýmum verði fjölgað. Að nýtt greiðsluþátttökukerfi taki gildi og stefnt sé að lækkun í greiðsluþátttöku sjúklinga á tímabilinu.

„Þjónusta vegna geðheilbriðis verður styrkt verulega með fjölþættum aðgerðum um land allt. Einnig er fyrirhugað að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðisþjónustunni,“ sagði Bjarni.

Af fleiri verkefnum sem rúmast innan fjármálaáætlunarinnar má nefna; stóraukin framlög til landamæravörslu og löggæslu auk sérstaks átaks vegna meðferðar kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. Þá verður á sviði menntamála staðið með myndarlegum hætti að  aðgerðaáætlun um máltækni og háskólastigið eflt.

„Þá er vert að geta aukinna framlaga til að draga úr tannlæknakostnaði aldraðra og öryrkja. Einnig er fyrirhugað að gera breytingar á bótakerfi almannatrygginga fyrir öryrkja en þær breytingar verða unnar í samráði við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega,“ sagði ráðherra.

Hann sagði að heildarútgjöld á tímabilinu vaxi árlega um 40-55 milljarða króna, að árinu 2022 undanskildu þegar þau vaxa um tæpa 30 milljarða.

„Það svarar til 4,1–6,8% nafnvaxtar á ári en 3,2% á árinu 2022. Að undanskildum vaxtagjöldum er gert ráð fyrir því að vöxtur frumgjalda verði áþekkur vexti vergrar landsframleiðslu yfir tímabilið“, sagði ráðherra í ræðu sinni.

Ráðherra sagði að áfram sé stefnt að því að draga úr álögum, gera skattheimtu sanngjarnari og að tryggja skilvirkni skattframkvæmdar.

„Virðisaukaskattur á bækur verður afnuminn í byrjun næsta árs og ári síðar er gert ráð fyrir breytingu á fyrirkomulagi skattlagningar á höfundaréttargreiðslum en þær verða skattlagðar sem eignatekjur. Í seinni áfanganum verður einnig horft til skattlagningar á fjölmiðla og tónlist,“ sagði ráðherra.

Tekjuskattur í neðra skattþrepi verður lækkaður

Gengið er út frá því að tekjuskattur lækki í neðra skattþrepi og að heildarendurskoðun fari fram á tekjusköttum einstaklinga og á bótakerfinu, m.a. með það að markmiði að unnt verði að draga úr skattbyrði og koma á fót heildstæðu og einfaldara kerfi. Er þar horft til stuðnings hins opinbera við barnafjölskyldur vegna húsnæðiskostnaðar með markvissari fjárhagslegum stuðningi við efnaminni heimili.

Þá nefndi ráðherra að undirbúningur að endurskoðun laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki væri þegar hafinn.

„Miðað við fyrirliggjandi efnahagsspár og greiningar eru góðar aðstæður fyrir hendi til þess að viðhalda áfram traustum hagvexti. Meginviðfangsefni hagstjórnarinnar framundan felst í því að allir helstu hagaðilartaki höndum saman og leggist á eitt við að varðveita þann mikla árangur sem náðst hefur,“ sagði ráðherra í ræðu sinni.

Alla ræðu ráðherra má finna hér og umræðuna alla hér.