Thordis Kolbrun

Ástæða til að skoða starfsemi smálánafyrirtækja

„Ég mun á næstunni skipa starfshóp sem falið verður að gera heildstæða úttekt á starfsemi smálánafyrirtækja og koma fram með tillögur er lúta að regluverki smálánafyrirtækja,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við sérstaka umræðu á Alþingi í dag um smálán. Málshefjandi var Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

„Það er mín skoðun út frá sjónarmiðum um neytendavernd að núverandi staða mála þegar kemur að regluverki smálánafyrirtækja sé ekki eins og best verður á kosið og ástæða sé til að taka þau mál til nánari skoðunar,“ sagði ráðherra.

„Varðandi hvað sé hægt að gera í úrbótaskyni af hálfu löggjafans þá eru þar ýmsar leiðir sem mögulega koma til greina, m.a. að gera starfsemina leyfisskylda, skilgreina smálánafyrirtæki sem fjármálafyrirtæki og færa þau þannig undir Fjármálaeftirlitið, gera auknar kröfur um upplýsingaskyldu og ýmislegt fleira,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Hún sagði að innan ráðuneytisins væri hafin vinna við að fara skipulega yfir alla þætti smálána, skilgreina hugtakið smálán og að greina stöðu slíkra fyrirtækja og áhrif þeirra á íslenskan fjármálamarkað og á neytendur. Þá sagði ráðherra að hún vildi á fram frekari sjónarmið áður en kerfinu yrði breytt. Sagði hún að flest smálánafyrirtæki sem hefðu fengið á sig viðurlög Neytendastofu til innheimtu hjá tollstjóra væru nú í gjaldþrotaskiptum.

„Ég vil að lokum nefna það að við göngum lengra en Evrópulöggjöfin gerir kröfu um. Það er ekki þar með sagt að við getum ekki gengið enn lengra, en bara að það sé haft í huga. Þetta endurspeglar auðvitað á ákveðinn hátt hvernig við lítum á starfsemina, þ.e. að hún sé ekki eins og hver önnur starfsemi,“ sagði ráðherra við umræðuna.

Alla umræðuna má finna á Alþingi hér.