Þörf á skýrari umgjörð um komur skemmtiferðaskipa

„Eins og við vitum mun ferðamönnum fjölga næstu ár og áratugi að öllu óbreyttu. Að því þarf að huga. Fjárfestingar ríkis og sveitarfélaga og einkaaðila verða að stuðla að sjálfbærni greinarinnar til lengri tíma“, sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um móttöku skemmtiferðaskipa. Málhefjandi var Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.

„Með sjálfbærni á ég ekki eingöngu við að við þurfum að vernda náttúruna heldur þurfum við líka að huga að samfélagslegum þolmörkum. Við getum ábyggilega varið náttúruna fyrir töluvert fleiri ferðamönnum með réttri stýringu og uppbyggingu innviða. En í mínum huga eru samfélagslegir þættir jafnvel flóknara viðfangsefni og þolmörkin mögulega lægri en hvað náttúruna varðar. Þeir eru ekki síður mikilvægir og stundum er erfiðari að meðhöndla þá,“ sagði ráðherra.

Sagði Þórdís Kolbrún von á skýrslu um þolmörk ferðamennsku á næstu dögum, en að í þeirri skýrslu sé farið ítarlega yfir náttúruleg þolmörg sem og samfélagsleg þolmörk.

„Umfjöllun um skemmtiferðaskip verður því þar á meðal. Það eru nákvæmlega þessir þættir sem koma sérstaklega til skoðunar þegar við ræðum skemmtiferðaskipin. Áfangastaðir þeirra eru oftar en ekki lítil bæjarfélög sem hafa mismikla burði til að taka á móti því mikla innflæði ferðamanna sem þeim fylgir,“ sagði ráðherra.

Hún sagði áherslu stjórnvalda síðustu ára hafa verið að dreifa ferðamönnum betur allt árið um kring. Það sé mikilvægt að létta álagi af öðrum svæðum, ekki síður til að fáfarnari svæði njóti í meira mæli ávinningsins sem fylgir ferðamönnunum.

„Næsta sumar munu suma daga verða allt að átta þúsund farþegar frá skemmtiferðaskipum á Ísafirði. Það segir sig sjálft að slíkir dagar reyna á þolmörk allra; farþega, þjónustuaðila og bæjarins sjálfs. Innviðir svæðisins eru einfaldlega ekki búnir undir slíkan fjölda og eiga ekki endilega að vera það miðað við stærð sveitarfélags. Þess vegna er mikilvægt að ákvörðunin sé upplýst um að leggja áherslu á markaðssetningu sem miðar að því að laða að erlend skemmtiferðaskip og að allir aðilar séu meðvitaðir um þær áskoranir sem því fylgja,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Það væri mikilvægt að horfa til öryggismála t.d. varðandi áhættu af mengunarslysum, sjúkdómum og slysum. Þá þurfi einnig að hafa í huga að móta reglur um landgöngu á svæðum utan hafna, t.d. við friðlandið á Hornströndum.

„Þess vegna er mikilvægt að móta skýrar reglur um slík atriði og skilgreina ábyrgð. Hér þurfa stjórnvöld, sveitarfélög og aðrir hagsmunaaðilar að koma að borðinu og eiga upplýst samtal þar sem sjónarmið heimamanna hljóta að vega mjög þungt,“ sagði ráðherra.

„Fyrir liggur að komu skemmtiferðaskipa fylgja ýmsar áskoranir. Kallað er eftir skýrari umgjörð. Ljóst er að hagsmunir og ákvörðunarvald liggja víða og því er það ekki einungis í mínu valdi að skera úr um næstu skref. En ég fagna þessari mikilvægu umræðu sem verður vonandi til þess að betur verður hægt að ná utan um ólíkar aðgerðir ólíkra aðila sem ráðast þarf í til að koma skemmtiferðaskipa verði farsæl úti um allt land vegna þess að auðvitað fylgja þessu mikil tækifæri. Og eins og við þekkjum koma skemmtiferðaskip oft á svæði sem njóta í dag ekki enn þess vaxtar sem ferðaþjónustan hefur verið í hér á landi. Þess vegna er eðlilegt að þau vilji fá skipin til sín. En við þurfum að vera vel upplýst um hvaða áskoranir fylgja því og mikilvægt er að allir séu sammála um að þetta sé sú leið sem við viljum fara“, sagði ráðherra í umræðunni á Alþingi í dag.

Alla umræðuna má finna hér.