Hverfislýðræði

Björn Gíslason – 8. sæti í Reykjavík:

Töluvert hefur verið rætt um hverfislýðræði á undanförnum misserum og ekki síst í eystri hverfum borgarinnar, þar sem íbúum hefur þótt nóg um miðborgarstefnu núverandi meirihluta Reykjavíkurborgar.

Svokölluð hverfisráð eru í öllum hverfum borgarinnar og hafa verið um árabil. Óánægju hefur gætt í hverfisráðum í ljósi þess hversu litla tengingu þau hafa inn í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og eru aðallega umsagnaraðilar um ýmis mál en fá samt litlu ráðið. Hlutverk hverfisráða er að stuðla að hvers konar samstarfi innan hverfis. Þau eiga samkvæmt lýsingu á hlutverki þeirra að vera „vettvangur samráðs íbúa, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda, og eru virkir þátttakendur í allri stefnumörkun hverfanna.“

Lágmarkskrafa að formaður búi í hverfinu

Sá háttur hefur verið hafður á að kosið er í hverfisráðin í Ráðhúsinu, í stað þess að íbúar í hverfinu fái sjálfir að kjósa sína fulltrúa í ráðin. Þetta verður til þess að kosningin fer eftir pólitískum línum og jafnvel eru dæmi þess að formenn hverfisráðanna búi ekki í því hverfi þar sem þeir gegna formennsku. Til að mynda býr formaður hverfisráðs Vesturbæjar, Sverrir Bollason, í Árbænum. Eðlilegra hefði verið að umræddur Sverrir hefði setið fyrir flokk sinn, Samfylkinguna, í hverfisráði Árbæjar og sinnt sínu eigin hverfi.

Samkvæmt núgildandi reglum sem gilda um val á fulltrúum og formönnum í hverfisráðin gætu Árbæingar átt von á því að næsti formaður hverfisráðs Árbæjar komi úr allt öðru hverfi borgarinnar, t.d. úr 101.   

Hverfisráðin eiga ekki vera pólitísk skiptimynt

Hverfisráðin eiga ekki verið notuð sem pólitísk skiptimynt fyrir gæðinga stjórnmálaflokkanna. Borgarbúar yrðu eflaust hissa ef þeir vissu hverjar launagreiðslur fyrir formennsku og setu í hverfisráðunum væru – sem eru tíu talsins – og hversu oft þau funda í hverjum mánuði. Almennum launamanni þætti það dágóð laun að fá 104.846 kr. fyrir einn fund í mánuði.

Með því að íbúar kjósi sjálfir fulltrúa í hverfisráðin verður það tryggt að eingöngu þeir sem búa í hverfinu sitja í ráðinu. Fulltrúar, kjörnir af íbúum, sem búa í hverfinu hafa bæði meiri þekkingu og tilfinningu fyrir brýnum hagsmunamálum hverfisins og hvernig beri að forgangsraða verkefnum sem nauðsynlegt er að sinna. Um er að ræða skólamál, íþróttamál, þjónustu og félagsstarf eldri borgara, útivistar- og umhverfismál svo fátt eitt sé nefnt.

Kosið um sjálfsögð viðhaldsverkefni

Eitt af verkefnum hverfisráðsins er að sjá um íbúakosninguna „Hverfið mitt“,  þar sem íbúar geta kosið um mál tengd hverfinu, en vandamálið er að hlutfallslega litlir fjármunir eru settir í verkefni tengd þessari kosningu. Og oftar en ekki er kosið um sjálfsögð viðhaldsverkefni s.s. á gangstéttum eða leiktækjum á róluvöllum og ruslastampa á göngustígum.

Endurskipuleggja þarf hlutverk hverfisráða með það að leiðarljósi að þau hafi meiri áhrif, komi meira að ákvarðanatöku í sínu hverfi og þá má jafnframt athuga um stærri mál í hverfinu.

Með þessu móti fengju íbúar vonandi meiri áhrif á mikilvægar ákvarðanir sem snúa að þeirra hverfum.

Birtist fyrst í Árbæjarblaðinu 16. mars 2018