Frumkvæði fyrir Ísland

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Ákvörðun Breta að ganga úr Evrópusambandinu felur í sér mikla áskorun fyrir okkur Íslendinga.

Framtíðarþróun Evrópu og Evrópusamstarfs er í mikilli deiglu vegna ákvörðunar Breta um að ganga úr Evrópusambandinu og næstu misseri munu skera úr um hvernig ráðamenn leysa úr því höfuðmarkmiði að eiga frjáls viðskipti til hagsbóta fyrir almenning. Ábyrgð valdhafa í Brussel og höfuðborgum Evrópusambandsríkja er því mikil. En á íslenskum stjórnvöldum hvílir einnig mikil ábyrgð, ábyrgð á því að tryggja íslenska hagsmuni við þessar aðstæður.

Allt frá því úrslit atkvæðagreiðslunnar í Bretlandi lágu fyrir hefur utanríkisþjónustan, og stjórnsýslan í heild, unnið hörðum höndum að því gæta hagsmuna Íslands varðandi öll þau flóknu úrlausnarefni sem verið er að ræða í höfuðborgum Evrópu. Lagalegu úrlausnarefnin eru flókin og kemur fjöldi fólks víða í stjórnkerfinu að þessu með okkur, að ógleymdu samráði við atvinnulífið og aðra hagsmunaaðila. Í almennri umræðu hér á landi um hvernig gengur og rekur í samningaviðræðum milli London og Brussel gleymist oft að líta á hið stærra samhengi og þar skapar Ísland sér nokkra sérstöðu þegar litið er til ríkjanna í kringum okkur.

Við höfum komið á fót skýru og skilvirku skipulagi utan um okkar heimavinnu og samráð sem utanríkisráðuneytið stýrir. Brexit-ráðherranefnd er að störfum og þá heldur sérlegur Brexit-stýrihópur utan um samræmda vinnu stjórnvalda. Þá hafa verið skipaðir fimm vinnuhópar sem skipaður eru færustu embættismönnum víðs vegar úr stjórnkerfinu sem hafa rýnt í málaflokka EES-samstarfsins og hvað er í húfi við útgöngu Breta úr ESB og EES.

Síðustu átján mánuði hefur Brexit-stefna Íslendinga grundvallast á þremur skýrum sviðsmyndum með skýrri forgangsröð. Í fyrsta lagi að gerður verði djúpur og víðfeðmur efnahags- og samstarfssamningur við Bretland sem undirstrikar náin tengsl landanna á helstu sviðum. Í öðru lagi að EFTA-ríkin fjögur eða EFTA-ríkin þrjú innan EES (EFTA-ríkin utan Sviss) semji í sameiningu við Bretland þegar það á við og samræmist hagsmunum Íslands. Þriðja sviðsmyndin er að samningur við Bretland taki mið af samningum ESB og Bretlands þegar það á við og samræmist hagsmunum Íslands.

En þótt hin eiginlegu úrlausnarefnin í Brexit séu bundin við svæðisbundnar stofnanir og samstarf ríkja í evrópsku samhengi er nauðsynlegt að setja Brexit í mun stærra, hnattrænt viðskiptasamhengi þar sem meginstefin eru skýr.  Fyrir útflutningsdrifið hagkerfi eins og Ísland er forgangsmál að við grípum tækifærin þegar þau gefast. Sóknarfæri Íslands liggja í efnahagslegum orkubúum framtíðarinnar, hvort sem litið er til Asíu, Suður-Ameríku eða Afríku, og við lítum svo á að Brexit og yfirlýstur metnaður Breta í átt að stóraukinni fríverslun geti leyst úr læðingi jákvæða krafta á alþjóðavettvangi. Staðan er einfaldlega sú að Bretar eru að ganga úr Evrópusambandinu og það væri ábyrgðarleysi að sitja aðgerðarlaus hjá og bíða eftir því sem verða vill.

Flest ríki heims leggja mikla vinnu og fjármuni í að tryggja hagsmuni sína í hinu alþjóðlega umhverfi. Íslensk stjórnvöld hafa að undanförnu tekið frumkvæði hvað alþjóðlega fríverslun varðar. Afstaða okkar gagnvart útgöngu Breta er því í fullu samræmi við okkar áherslur í utanríkisviðskiptum, enda er markmiðið að tryggja sömu eða betri viðskiptakjör við Bretland eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Við vinnum samkvæmt skýrri stefnu og áætlun sem helgast af þremur meginþáttum. Í fyrsta lagi fylgjumst við grannt með viðræðum Breta og ESB um bráðabirgðafyrirkomulag og meginforsendur útgöngusamnings og eigum í nánu samráði við helstu samstarfsaðila vegna þessa.  Meginmarkmið þessarar vinnu er að gæta þess að hagsmunir EES-EFTA ríkjanna á innri markaðinum verði ekki fyrir borð bornir í bráðabirgðasamkomulagi Breta og ESB sem gilda mun eftir mars 2019. Við viljum sem einfaldasta lausn sem endurspeglar sérstöðu EES-samningsins og tryggir snurðulausa framkvæmd hans á bráðabirgðatímabilinu.

Í öðru lagi erum við að leggja grunn að hugsanlegu framtíðarfyrirkomulagi á viðskiptum okkar við Bretland, á okkar eigin forsendum. Við höfum átt innihaldsríkar viðræður við Breta um grundvallarforsendur framtíðarfyrirkomulags á fríverslun Breta og Íslendinga samhliða nánara pólitísku og efnahagslegu samstarfi eftir Brexit. Höfuðmarkmið okkar er fríverslunarsamningur sem myndi byggja frekar ofan á það viðskiptafrelsi sem Ísland nýtur á vettvangi EES og er þar helst til að taka fullt afnám tolla á sjávarafurðum.

Í þriðja lagi er unnið að gerð varúðarráðstafana ef ekki næst samkomulag milli ESB og Bretlands með þeim afleiðingum að tollmúrar myndu rísa innan álfunnar. Í þeirri vinnu byggjum við á skýru hagsmunamati, greiningu helstu markmiða og síðast en ekki síst frumkvæði í því að girða fyrir þá hættu sem EES-samningnum kynni að vera búin í slíkri stöðu.

Ákvörðun Breta að ganga úr Evrópusambandinu felur í sér mikla áskorun fyrir okkur Íslendinga. Við höfum kosið að mæta þeim áskorunum með frumkvæði og skýrri stefnumörkun, en einnig með opnum huga fyrir þeim tækifærum sem þessi flókna staða kann að fela í sér.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 8. mars