Tryggir aukið jafnræði foreldra

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, mun leggja fram frumvarp um skipta búsetu barna á næsta ári en hún hefur þegar hafið þá vinnu sem jafna mun stöðu foreldra sem skilin eru að skiptum og deila forsjá yfir börnum sínum – óháð lögheimili.

„Með auknu jafnræði foreldra í þessum efnum tel ég að auka megi líkurnar á almennri sátt, börnum til heilla,“ segir Sigríður sem hefur ráðið Hrefnu Friðriksdóttur, prófessor í fjölskyldu- og sifjarétti við Háskóla Íslands, til að veita ráðgjöf við gerð frumvarpsins en um er að ræða umfangsmikið mál sem brýnt er að klára. Vinna við gerð frumvarpsins heyrir undir verksvið fjögurra ráðuneyta, þ.e. dómamálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, samgönguráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis, og kallar m.a. á kerfisbreytingu hjá Þjóðskrá.

„Hjónaskilnaður eða sambúðarslit eru fólki sjaldnast auðveld. Einkum ef börn eru til staðar. Blessunarlega þá skilur fólk oftast að skiptum með sameiginlegan skilning á þörfum barna sinna til þess meðal annars að umgangast báða foreldra sína. Sameiginleg forsjá er orðin regla fremur en undantekning og í vaxandi mæli dvelja börn jafnt hjá báðum foreldrum sínum. Í þessu ljósi er eðlilegt að endurskoða löggjöf er lýtur að réttindum og skyldum foreldra í þessu sambandi,“ segir Sigríður.