Sjálfstæði atvinnurekandinn er lífseigur

Óli Björn Kárason þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar 

Í upphafi eru eftirfarandi fullyrðingar:

  • Báknið virðist uppteknara af því að koma böndum á framtaksmanninn en tryggja aukna samkeppni og stuðla að frjóum jarðvegi fyrir nýjungar og nýsköpun.
  • Ríki og sveitarfélög leggja steina í götur einkaframtaksins.
  • Með skipulegum hætti hafa ríkisfyrirtæki sótt að einkarekstri og grafið undan sjálfstæða atvinnurekandanum.
  • Erlendir auðmenn og Hollywood-stjörnur njóta meiri velvildar stjórnvalda en íslenski framtaksmaðurinn.

Öflug millistétt og sjálfstæðir atvinnurekendur eru burðarásar allra velferðarsamfélaga. Fáir stjórnmálamenn gerðu sér betur grein fyrir þessu en Eyjólfur Konráð Jónsson (1928-1997), þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Eykon hafði skýra sýn á stefnu og hlutverk Sjálfstæðisflokksins. Á fundi Varðar árið 1977 lagði hann áherslu á að hlutverk Sjálfstæðisflokksins í atvinnumálum væri að „innleiða meira frjálsræði, minni ríkisafskipti, öflugra einkaframtak, minni ríkisumsvif“. Að skapa svigrúm til athafna og frelsi fyrir framtaksmennina voru og eru skyldur sem sjálfstæðismenn hafi axlað:

„Hlutverk flokka og stjórnmálamanna er ekki að fyrirskipa hvað eina og skipuleggja allt. Það er hlutverk þeirra, sem beina aðild eiga að atvinnurekstri. Þeim ber að sjá um samkeppnina og arðsemina.“

Litla Ísland – jarðvegur nýrrar hugsunar

Hagstofan tók saman, að beiðni Samtaka atvinnulífsins, fróðlegar upplýsingar um íslenskt atvinnulíf, fjölda fyrirtækja, fjölda starfsmanna og launagreiðslur á árunum 2010-2016. Upplýsingarnar voru kynntar á Smáþingi Litla Íslands fyrr í þessum mánuði og ná yfir alla launagreiðendur að undanskildum stofnunum ríkis og sveitarfélaga, lífeyrissjóðum og félagasamtökum. Hafi einhver haft efasemdir um mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf, ættu þær efasemdir að heyra sögunni til.

  • 99,7% fyrirtækja á Íslandi eru lítil (49 eða færri starfsmenn) og meðalstór fyrirtæki (50-249 starfsmenn).
  • Lítil og meðalstór fyrirtæki höfðu 71% starfsmanna í atvinnulífinu í vinnu árið 2016.
  • Lítil og meðalstór fyrirtæki greiddu 66% heildarlauna í atvinnulífinu árið 2016.

Starfsmönnum í atvinnulífinu fjölgaði um 27 þúsund frá 2010 til 2016, þar af fjölgaði starfsmönnum lítilla og meðalstórra fyrirtækja um 20.700. Liðlega 45% fjölgunarinnar eða 12.200 voru hjá örfyrirtækjum (færri en 10 starfsmenn) og litlum fyrirtækjum.

Af þessum tölum má sjá að drifkraftar efnahagslífsins – góðærisins sem við Íslendingar höfum notið – hafa verið lítil og meðalstór fyrirtæki. Enda eru það gömul sannindi og ný að framtaksmaðurinn er aflvaki framfara og bættra lífskjara. Hann kemur auga á tækifærin, býður nýja vöru og þjónustu og skapar ný störf. Með nýrri hugsun og oft byltingarkenndum aðferðum ógnar framtaksmaðurinn hinum stóru.

Sanngirni sett til hliðar

Ég hef áður bent á hvernig stórfyrirtækin sóttu að sjálfstæða atvinnurekandanum, litlu og meðalstóru fyrirtækjunum á árunum fyrir fall fjármálakerfisins. Í krafti stærðar en þó fyrst og fremst greiðs aðgangs að láns- og áhættufjármagni náðu fyrirtækjasamsteypur ótrúlegum ítökum í íslensku atvinnulífi. Þrengt var að litlum sjálfstæðum keppinautum og þeir oft kæfðir og hraktir úr af markaði. Eftir hrun var skuldsettum stórfyrirtækjum bjargað eins og ég benti meðal annars á í grein hér í Morgunblaðinu í júní 2011:

„Hver viðskiptasamsteypan á fætur annarri hefur fengið nýtt líf. Skuldir hafa verið afskrifaðar, skuldum breytt í hlutafé og það sem stóð eftir verið skuldbreytt. Hinir hófsömu keppinautar standa eftir og skilja ekki af hverju þeim er refsað fyrir að hafa farið gætilega og gætt skynsemi í rekstri.“

Jafnræði og sanngirni voru sett til hliðar á fyrstu árunum eftir fjármálakreppuna. En framtaksmaðurinn er lífseigur eins og fyrrnefndar tölur Hagstofunnar sýna. Við getum aðeins látið okkur dreyma um hversu öflugra og fjölbreyttara íslenskt atvinnulíf væri ef sjálfstæði atvinnurekandinn hefði setið við sama borð og stórfyrirtækin á síðustu árum.

Sterkt bakbein

Þrengt hefur verið að litlum og meðalstórum fyrirtækjum með ýmsum öðrum hætti. Ríkisfyrirtæki herða sóknina og löggjafinn hefur hannað umgjörð ríkisrekstrar með ohf-væðingu, þannig að þau telja sér rétt og skylt að sækja inn á samkeppnismarkaði. Opinber hlutafélög eru líkari lokuðum einkafyrirtækjum en hefðbundnum ríkisfyrirtækjum. Fyrirtæki í eigu ríkisins eru komin í samkeppni við sendibílastöðvar og einyrkja, hafa haslað sér völl í vöruflutningum og vöruhýsingu, sinna prentþjónustu, reka verslun með snyrtivörur, undirföt og leikföng, svo dæmi séu nefnd. Á síðustu árum hafa flestar takmarkanir á rekstri ríkisfyrirtækja verið afnumdar og þau fært sig í auknum mæli inn á verksvið einkafyrirtækja.

Til að bæta gráu ofan á svart léttir eftirlitsiðnaðurinn ekki undir með litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Á stundum er engu líkara en að báknið hafi það fremur að leiðarljósi að koma böndum á framtaksmanninn en að stuðla að heilbrigðu viðskiptalífi og efla samkeppni. Sífellt flóknari reglur og fjölbreytileg gjöld íþyngja fyrst og síðast minni fyrirtækjum og geta komið í veg fyrir að framtaksmenn nái að hasla sér völl á mörkuðum þar sem stórir aðilar sitja fyrir á fleti. Þannig er búin til vernd fyrir þá stóru og dregið er úr samkeppni á kostnað neytenda.

Á sama tíma og sjálfstæðir atvinnurekendur horfa upp á skattfríðindi Hollywood-stjarna standa þeir í ströngu við að komast yfir hindranir sem ríki og sveitarfélög hafa búið til, allt frá sorphirðu til heilbrigðisþjónustu, frá fjölmiðlun til ferðaþjónustu, frá verslun til menntunar.

Með allt þetta í huga vinna sjálfstæðir atvinnurekendur afrek á hverjum degi. Og það er magnað – þrátt fyrir allt – að til séu þúsundir einstaklinga sem stofna fyrirtæki og leggja allt sitt undir til að skapa verðmæti og störf. Sjálfstæði atvinnurekandinn er lífseigur. Þess vegna er bakbein íslensk atvinnulífs sterkt og þess vegna höfum við Íslendingar náð að byggja hér upp öflugt velferðarsamfélag.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 21. febrúar 2018.