Nemendum í lögreglufræðum fjölgað um tæp 25%

Fjárframlög til lögreglunnar jukust um 34% eða um 4,7 milljarða á árunum 2014-2017 og á þessu ári var 220 milljónum króna bætt við til eflingar málsmeðferðar kynferðisbrotamála. Þetta kom fram í máli Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, við sérstaka umræðu um löggæslumál á Alþingi í dag.

Ráðherra sagði að við værum nú að sjá afrakstur af miklum skipulagsbreytingum sem áttu sér stað fyrir nokkrum árum með fækkun og sameiningu lögregluumdæma á landinu og að þau hafi með því verið efld til muna. Árangurinn væri verulegur og almenn ánægja með fyrirkomulagið, ekki síst innan lögreglunnar.

Starfandi faglærðir lögreglumenn eru nú 649 á landinu og hefur fjölgað um 29 síðan árið 2014. Nefndi ráðherra í ræðu sinni að unnið væri að heildstæðri greiningu innan lögreglunnar á því hvers vegna fjölgunin hafi ekki orðið meiri, m.a. í ljósi aukinna fjárheimilda á umliðnum árum.

Þá hefur verið gert átak í að fjölga nemendum í lögreglufræðum og sagði ráðherra að ráðuneytið hefði nú þegar samið við Háskólann á Akureyri um að þeim verði fjölgað úr 40 í 49, eða um tæp 25%.

Alla umræðuna má finna hér á vef Alþingis.