Krafan um aukin útgjöld

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

Það er stefna Sjálfstæðisflokksins að draga úr skattheimtu og hemja vöxtinn í útgjöldum ríkisins. Það er hins vegar ekki laust við að ég finni fyrir því úr mörgum áttum að ætlast sé til þess af mér sem ráðherra, að ég freisti þess að auka útgjöld til málaflokka sem undir mig heyra sem allra mest.

Mörgum þykir það gefa höggstað á ráðherra að útgjöld til málaflokka hans standi í stað, hvað þá að þau dragist saman. Og sjái ráðherra tækifæri til að lækka útgjöld á einhverju sviði þykirmörgum að í þeirri stöðu sé klókt og nánast skylda að finna tafalaust nýjar leiðir til að eyða þeim fjármunum í eitthvað annað, til að koma í veg fyrir að umsvif viðkomandi ráðherraminnki.

Besta ríkisstjórn frá hruni

Gefum okkur nú að þetta séu rétt sjónarmið; að útgjaldaaukning sé góður mælikvarði á stjórnmálamenn. Þá er það mér sönnánægja að gleðja landsmenn – sérstaklega stjórnarandstöðuna – með þeim tíðindum að núverandi ríksstjórn er besta ríkisstjórn sem Ísland hefur haft frá hruni. (Mest aukning heildarútgjalda á milli fjárlagafrumvarpa.) Jæja, þá er hægt að haka við það.

Það má ekki misskilja orð mín sem svo, að aldrei sé brýnt að auka útgjöld. Að sjálfsögðu er það oft nauðsynlegt. Skilaboð mín eru hins vegar þau, að það er of rík tilhneiging til að ganga út frá því sem gefnum hlut að fullkomið línulegt samband sé á milli útgjalda og árangurs.

Aukin matarútgjöld betri?

Ekkert heimili myndi líta þannig á málin. Engum myndi detta í hug að það væri sérstakt fagnaðarefni að matarútgjöld heimilisins hefðu aukist um 20% á milli ára, og þar með lægi sjálfkrafa ljóst fyrir að heimilisfólk hefði fengið miklu betri mat.Munurinn gæti allt eins legið í snakki og sælgæti. Engum kæmitil hugar að setja það sem sérstakt markmið fyrir heimilið að auka matarúgjöldin aftur um 20% á næsta ári til þess að komast í hóp þeirra 10% heimila landsins sem eyða mestu í mat. Það væri fráleitt keppikefli. Þarna gilda miklu fleiri mælikvarðar, svo sem um hollustu, gæði, hagkvæmni og umfang sóunar.

Heildarútgjöld segja bara brot af sögunni, og það sama gildir mun víðar í opinberum rekstri en oftast er viðurkennt eða samþykkt í umræðu dagsins. Við spyrjum of oft bara um krónurog aura, en of sjaldan um afköst, gæði, árangur, hagkvæmni, sóun og óþarfa.

Opinn tékki dugði ekki

Bandarískan hugveitan Cato vakti athygli á því fyrir mörgum árum að til er dæmi um að reynt hafi verið að eyða svo til ótakmörkuðu fé í þeirri viðleitni að bæta opinbera þjónustu. Dómari í Kansas City komst að þeirri niðurstöðu árið 1985 að slök þjónusta skólakerfisins í umdæminu fæli í sér mismunum sem væri brot á stjórnarskrá. Hann úrskurðaði að yfirvöldum væri skylt að eyða eins miklu fé og þau teldu sig þurfa til að bæta úr þessu; peningar væru ekkert vandamál og þeim yrði einfaldlega reddað. Í krafti þessa galopna tékka sló umdæmið hvert metið á fætur öðru í útgjöldum á hvern nemanda, ár eftir ár, í hvorki meira né minna en tólf ár. Skólakerfið þarna varð að lokum hið dýrasta í gervöllum Bandaríkjunum. Árangurinn var enginn.

Ekki beint samband

Aftur skal ítrekað að þetta þýðir ekki að aukin útgjöld séu alla jafna slæm eða aldrei nauðsynleg. Þetta þýðir aðeins að það er ekki alltaf beint samband á milli útgjalda og árangurs, en allt of oft er gengið út frá því að svo sé.

Í fjárlagaumræðu á Alþingi þann 15. desember sl. var ég spurð af þingmanni stjórnarandstöðunnar hvort ég væri ánægð með útgjöld til nýsköpunarmála í frumvarpinu, sem vaxa ekki á milli ára að þessu sinni, eftir gríðarlegan vöxt síðustu ár. Svar mitt: „Ég ætla að vera heiðarleg og segja að ég er ánægð með þá fjármuni sem fara í þau.”

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 27. janúar.