Ákall um aðgerðir – Vesturland og Vestfirðir

Jón Gunnarsson alþingismaður og fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á ástand þjóðvegakerfisins á Vesturlandi og Vestfjörðum. Á þessu svæði er ástandið sennilega hvað verst á landsvísu og brýnust þörf fyrir úrbætur til að fylgja eftir kröfum almennings og atvinnulífs.

Vestfjarðavegur, Gufudalssveit

Áformað var að fara í útboð fyrsta verkþáttar Vestfjarðavegar um Gufudalssveit síðastliðið haust, en afstaða skipulagsyfirvalda kom í veg fyrir að svo yrði. Stefnt var að því að sl. haust yrði sköpuð aðstaða fyrir verktaka, gert skarð í gegnum Teigsskóg og keyrt fyllingarefni út í firðina. Frekari fjármögnun yrði kunngjörð í samgönguáætlun á Alþingi í byrjun þessa árs. Öllum sem til þekkja er ljóst að nýr vegur um Gufudalssveit þolir enga bið. Þessi framkvæmd hefur verið lengi á dagskrá en málið tafist vegna dómsmála og afstöðu Skipulagsstofnunar. Nú er beðið niðurstöðu sveitarfélagsins varðandi skipulagsmál, en hennar er að vænta í febrúar. Þessi vegur er síðasti áfanginn í að tengja með bundnu slitlagi byggð- irnar á sunnanverðum Vestfjörðum en nú mega íbúar og aðrir þeir sem þarna eiga leið um aka um gamlan malarveg, m.a. yfir Hjallaháls og Ódrjúgsháls sem er hættulegur allri umferð og sérstaklega að vetrarlagi. Ótalmörg dæmi eru um að stórvirkar vinnuvélar hafi þurft til að drösla flutningabílum yfir helstu farartálma á þessari leið. Í þessu samhengi er vert að minnast á háa ferðatíðni flutningabíla sem flytja afurðir Arnarlax af svæðinu, en grundvallaratriði fyrir fyrirtæki sem flytja út ferska vöru er að geta treyst á greiðar samgöngur, hvort sem er á landi, með flugi eða á sjó. Endanlegur kostnaður vegna nauðsynlegra vegabóta í Gufudalssveit er ekki ljós, en þegar ég síðast spurði var verðmiðinn á ódýrasta kostinum um 7 milljarðar króna. Þá var ekki verið að tala um jarðgöng í gegnum fjöll eins og einhverjir krefjast, enda myndu slíkar framkvæmdir hleypa kostnaði upp um milljarða króna, ásamt því að tefja verkið enn frekar – og eru nú tafirnar orðnar ærnar samt. Milljarður til eða frá skiptir okkur gríð- arlega miklu máli. Milljarður er t.a.m. þumalfingursreglan við kostnað á byggingu einna mislægra gatnamóta, svo að dæmi sé nefnt.

Dýrafjarðargöng, Dynjandisheiði

Það er vel að hafnar eru framkvæmdir við Dýrafjarðargöng. Ljóst er að þessi jarðgöng munu skipta sköpum fyrir Vestfirði, en það er einnig jafn ljóst að ef ekki fylgir nýr vegur um Dynjandisheiði, þá er til lítils unnið. Fram hefur komið að kostnaður við Dýrafjarðargöng er áætlaður um 13 milljarðar króna, en þá er Dynjandisheiðin eftir sem er óhjá- kvæmileg framkvæmd ef Dýrafjarð- argöng eiga að nýtast sem skyldi. Áætlaður kostnaður við Dynjandisheiði er 4,5 milljarðar króna. Kostnaður við nauðsynlegar vegabætur á sunnanverðum Vestfjörðum, þ.e. Dýrafjarðargöng, Dynjandisheiði og Gufudalssveit, slagar þannig upp í 30 milljarða. Á norðanverðum Vestfjörðum er líka verk að vinna. Þar bíða framkvæmdir við Djúpveg og veginn á Ströndum um Veiðileysuháls, en áætlaður kostnaður við þær framkvæmdir er talinn munu nema vel á annan milljarð króna. Það blasir við að enginn einn landshluti er í jafn brýnni þörf fyrir bráðaaðgerðir í vegamálum og Vestfirðir. Það er að vonum að íbúar þessa landshluta séu orðnir óþreyjufullir og kalli eftir aðgerðum.

Vesturland

En það er víðar en á sunnanverðum Vestfjörðum sem skórinn kreppir. Handan Breiðafjarðar blasir Skógarströndin við og lengi hefur verið beðið eftir endurbótum á Skógarstrandarvegi. Um er að ræða um 70 km langan vegarkafla frá Dölum í Stykkishólm, en þarna er boðið upp á þröngan og stundum illfæran malarveg og á þessari leið eru fjölmargar hættulegar beygjur og einbreiðar brýr. Litlum fjármunum hefur verið varið til endurbóta á þessum vegarkafla, þótt ærin ástæða sé til. Verkefnið sem við blasir er enda mikið og mun kostnaður við endurgerð vegarins með bundnu slitlagi vera áætlaður um 6 milljarðar króna, en fullnaðarhönnun vegarins er ekki lokið. Annar vegarkafli á Snæfellsnesi hefur beðið allt of lengi, en fyrir liggur margítrekað loforð stjórnvalda um lúkningu vegarins yfir Fróðárheiði, en kostnaður vegna hans er talinn vera um 400 milljónir króna. Líkur eru þó á að þetta verk verði klárað á þessu ári. Borgfirðingar hafa lengi kallað eftir vegabótum, enda eru langir kaflar malarvega í héraðinu. Vegurinn um Uxahryggi hefur fengið nokkra fjárveitingu sem mjög hefur verið kallað eftir, m.a. af ferðaþjónustunni, en betur má ef duga skal. Þannig gerir lausleg áætlun um að tengja saman Suð- urland og Vesturland með ferðamannavegi frá Borgarfjarð- arbraut um Uxahryggjaveg og Kaldadalsveg að Þingvallavegi við þjónustumiðstöð á Þingvöllum ráð fyrir því að kostnaður við framkvæmdina nemi 2,2 milljörðum króna umfram það sem þegar hefur verið ákveðið að verja til verkefnisins. Þá er ótalinn kostnaður við lagningu bundins slitlags á langa vegarkafla í Borgarfirði, auk breikkunar á helstu leiðum.

Vesturlandsvegur

Umferð um Vesturlandsveg hefur stóraukist undanfarin misseri og á vaxandi fjöldi ferðamanna þar stóran þátt, en einnig og ekki síður má rekja vaxandi umferð til þess að fólk búsett á Akranesi og í Borgarnesi sækir vinnu á höfuðborgarsvæðið. Umferð um Hvalfjarðargöngin nálgast einnig þolmörk út frá öryggissjónarmiðum. Brýnt er að ráðast án tafar í endurbætur á Vesturlandsvegi. Áætlað er að kostnaður við tvöföldun vegarins á Kjalarnesi að Hvalfjarðargöngum ásamt tvöföldun einbreiðs vegarkafla í Mosfellsbæ sé nálægt 4 milljörðum króna. Það er öllum ljóst að umferðaröryggi Vesturlandsvegar er stórlega ábótavant enda bera umferðarslys að undanförnu þess órækan vott. Upptalningin í þessari grein er alls ekki tæmandi en eins og sjá má er verkefnið risavaxið. Lauslega áætlað þarf að ráðast í verkefni á þessu svæði sem kosta munu háar fjárhæðir og er stærðargráðan í námunda við fimmtíu milljarða króna. Það er engin þolinmæði hjá almenningi, hvorki á þessu svæði né annars staðar, til að bíða í áratugi eftir þessum framkvæmdum. Lélegar samgöngur hafa enda mjög hamlandi áhrif á alla uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 25. janúar 2018.