Ákall um aðgerðir

Jón Gunnarsson alþingismaður og fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Það er engum vafa undirorpið að í aðdraganda síðustu kosninga til Alþingis kölluðu kjósendur eftir úrbótum í samgöngumálum þjóðarinnar. Það er því ekki að undra að sú aukning á fjárveitingum til slíkra verkefna sem samþykkt var á Alþingi skömmu fyrir áramót hafi valdið almenningi vonbrigðum.
Í þessari grein og þeim sem á eftir munu fylgja mun ég leitast við að greina þann vanda sem við blasir og benda á þau verkefni sem ráðast verður í fyrr en síðar svo unnt verði að byggja upp kerfi samgangna sem svarar kröfum nútímans um greiðar leiðir og umferðaröryggi.

Borgaryfirvöld hafa brugðist
Við sem búum á höfuðborgarsvæðinu verðum vör við það á hverjum degi að dregist hefur úr hömlu að bæta umferðarflæði og auka greiðfærni, þótt umferð hafi aukist um 25% á árunum 2006-2016. Með vaxandi fjölda bíla og þá ekki síst bílaleigubíla sem fjöldi ferðamanna nýtir sér, verða tafir sífellt meiri. Á álagstímum myndast langar raðir bíla vegna flöskuhálsa í Reykjavík með stóraukinni mengun vegna útblásturs.

Það er augljóst að borgaryfirvöld hafa algerlega brugðist skyldum sínum í þessu málefni. Í stað þess að byggja upp umferðarmannvirki til þess að mæta vaxandi umferð hafa þau farið í gagnstæða átt, þrengt götur og torveldað greiðar og öruggar samgöngur – og í þokkabót lagst gegn tillögum um mislæg gatnamót á stofnbrautum – sem sannarlega hefðu aukið umferðaröryggi og greitt fyrir umferðarflæði. Minna má á að hættulegustu gatnamót landsins eru á höfuðborgarsvæðinu og öll ljósastýrð. Einnig er rétt að halda því til haga að árið 2012 var gert samkomulag á milli ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að verja allt að einum milljarði króna árlega í að bæta þjónustu almenningssamgangna með það að markmiði að fjölga farþegum í strætisvögnum. Um leið féllu borgaryfirvöld frá óskum um ný umferðarmannvirki í Reykjavík. Óhætt er að segja að þessi tilraun hefur algerlega mistekist, fjölgun farþega í almenningssamgöngum hefur nær engin orðið, en á meðan lengjast biðraðir hvarvetna. Framtíðarsýn um þróun samgangna virðist algerlega skorta hjá yfirvöldum í Reykjavík, en þess í stað er einblínt á leiðir sem reynslan hefur sýnt að eru illfærar. Vonandi tekst íbúum í Reykjavík að reka núverandi stjórnvöld í borginni af höndum sér. Tækifæri til þess gefst í borgarstjórnarkosningum 25. maí nk.

Torvelda lagningu Sundabrautar
Öllum er ljóst að umferðarþungi, t.a.m. á Miklubraut er orðinn slíkur að óviðunandi er. Á álagstímum á morgnana og síðdegis fara um Ártúnsbrekku tugir þúsundir bifreiða. Sólarhringsumferð þar er nær 100 þúsund bílar. Neðan brekkunnar eru umferðarþyngstu gatnamót landsins, en jafnframt þau öruggustu. Þau eru mislæg. Öllum ætti að vera ljóst að þetta ástand getur ekki varað öllu lengur. Brýnt er að draga úr umferð á þessum kafla og augljósa leiðin til þess að svo megi verða er bygging Sundabrautar. Umræða um Sundabraut hefur staðið allt of lengi. Ákvarðana og athafna er þörf. Rétt er að halda því til haga að yfirvöld í Reykjavík hafa ekki talið í sínum verkahring að stuðla að lausn þessa máls. Síðasta aðgerð þeirra var reyndar sú að torvelda lagningu Sundabrautar með því að selja landskika undir íbúðabyggð þar sem Sundabraut átti að liggja frá landi við Elliðavog. Að mati Vegagerðarinnar mun sú ákvörðun ein og sér hækka kostnað við Sundabraut um 10 milljarða króna. Mögulegt er að sá kostnaðarauki muni lenda á herðum skattgreiðenda í Reykjavík, enda kveða vegalög á um að standi sveitarfélag í vegi fyrir að hagkvæmasti kostur legu þjóðvegar verði valinn að mati Vegagerðarinnar, sé mögulegt að rukka sveitarfélagið um mismuninn.

Ljósastýrðu gatnamótin á Miklubraut hættulegust
Ég nefndi að hin mislægu gatnamót Reykjanesbrautar og Miklubrautar við Elliðaárnar eru umferðarþyngstu gatnamót landsins, en jafnframt einhver þau öruggustu. Öðru máli gegnir um nálæg gatnamót sem eru slysamestu gatnamót landsins, svo sem Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, Miklubrautar og Grensásvegar, Miklubrautar og Háaleitisbrautar, svo ekki sé talað um Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Þessi gatnamót eru öll ljósastýrð og brýnt að bæta þar úr með gerð mislægra gatnamóta og huga jafnframt að því að leggja Miklubraut í stokk niður fyrir gatnamót Lönguhlíðar, líkt og hugmyndir hafa verið uppi um. Vinstri meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefur ekki léð máls á þessum samgöngubótum og ber þannig pólitíska ábyrgð á hárri slysatíðni á þessum leiðum.

Útrýmum ljósastýrðum gatnamótum
Það er mjög brýnt að þegar verði farið í að útrýma ljósastýrðum gatnamótum á stofnbrautum í Reykjavík og hljóta áðurnefnd gatnamót og vegarkaflar að vera þar í forgangi. En það verður ekki gert án samkomulags við borgaryfirvöld – sem lítinn samstarfsvilja hafa sýnt. Ég treysti því að sú forysta sem Sjálfstæðisflokkurinn velur sér fyrir komandi borgarstjórnarkosningar setji á oddinn að gert verði átak í að útrýma slysamestu gatnamótum borgarinnar og byggja mislæg gatnamót í stað ljósastýrðra. Kostnaður við gerð mislægra gatnamóta á áðurnefndum stöðum er sambærilegur kostnaði við Dýrafjarðarjarðgöng – og skal þó ekki gert lítið úr þeirri mikilvægu samgöngubót.

Áætlað er að kostnaður vegna slysa á áðurnefndum fernum gatnamótum sé á annan tug milljarða króna á síðustu 5 árum og þannig samsvarandi eða ívið hærri en kostnaður við gerð mislægra gatnamóta á þessum stöðum. Og á meðan við horfum framan í þessar staðreyndir, þá leyfa borgaryfirvöld sér að láta sem ekkert sé. Útbætur í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu eru sannarlega mikilvægar, en þær einar og sér geta ekki leyst þann vanda sem við blasir. Þess vegna verður að líta til fleiri leiða.
Í fréttum þessa dagana hefur komið fram að slysatíðni í umferðinni árið 2017 var með því mesta sem orðið hefur á síðustu árum, þegar litið er til slysa þar sem fólk slasaðist alvarlegra eða beið bana. Sá skerfur sem Reykjavíkurborg á í þeim hörmungum er óskemmtilegur vitnisburður um pólitíska stjórn og forgangsröðun borgarinnar. Kostnaður við umferðarslys er gríðarlegur, bæði vegna tjóns á eignum og slysa á fólki, að ekki sé talað um banaslysin. Og aldrei verður settur verðmiði á mannlegar hörmungar sem eru óhjákvæmilegur fylgifiskur slysa á fólki.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 20. janúar 2018.