Skynsamleg námsaðstoð eða milljónagjafir til fárra

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um námslán og námsstyrki. Í frumvarpinu er mælt fyrir um gerbreytingu á LÍN þannig að námsstyrkir verði sýnilegir, dreifist jafnt og komið verður í veg fyrir að fáir einstaklingar fái tugmilljónagjafir frá skattborgurum.

Af greinargerð með frumvarpinu og af árskýrslum LÍN má sjá hversu núverandi námslánakerfi er gallað. Það felur í sér hvata til skuldsetningar og nýtist fyrst og fremst fáum einstaklingum sem taka mjög há lán – eða réttara sagt, taka mjög háa styrki. Af ársskýrslu LÍN má sjá að 20% þeirra sem eru með hæstu lánin taka til sín 65% styrkja í námslánakerfinu! Þar má sjá að 20 hæstu lántakarnir skulda um 690 milljónir og munu væntanlega borga 90 milljónir til baka – þannig að meðaltalsstyrkur frá skattborgurum verður 30 milljónir á mann! Í sömu skýrslu má sjá að þegar einstaklingur er kominn með 10 milljónir í námslán og bætir við sig einni milljón, þá eru 900 þúsund krónur af viðbótar-milljóninni gjöf. Af tölum frá LÍN má einnig sjá að 93% námsmanna eru með lán undir 10 milljónum.

Samkvæmt frumvarpinu munu allir sem stunda nám eiga rétt á styrk að fjárhæð 65.000 krónum á mánuði til að stunda nám eða tæplega 3 milljónum yfir fimm ára tímabil. Þetta er áhugavert þegar horft er til þess að skv. skýrslu LÍN eru 69% námsmanna með minna en 5 milljónir í námslán. Þarna er gætt jafnræðis í styrkveitingu til þeirra sem leggja nám fyrir sig. Til viðbótar má svo ekki gleyma að ríkið styrkir sérstaklega þá sem eiga börn með barnabótum og þá sem eru á leigumarkaði með húsnæðisbótum.

Þá er í frumvarpinu mælt fyrir um það, að þeir sem þurfa geti bætt við sig láni á niðurgreiddum vöxtum. Sveigjanleikinn er aukinn frá fyrra kerfi þannig að hægt verður að taka hlutalán og þannig hvatt til þess að dregið sé úr skuldsetningu ungs fólks. Þessi niðurgreiddu lán þarf að endurgreiða (eins og önnur lán) á allt að 40 árum, en á hinum Norðurlöndunum eru námslán endurgreidd á mun styttri tíma. Fram hefur komið hjá menntamálaráðherra að a.m.k. 85% námsmanna munu hafa lægri greiðslubyrði í núverandi kerfi. Niðurstaða Stúdentaráðs er sú að langflestir nemendur Háskólans séu betur settir ef frumvarpið verður samþykkt og helstu námsmannahreyfingar landsins hvetja til samþykktar þess.

Það er furðulegt að sjá Vinstri græna, Samfylkingu og Pírata setja sig upp á móti námsaðstoðarkerfi að norrænni fyrirmynd til að verja hagsmuni fárra. Takist þessum flokkum að stöðva LÍN-frumvarpið mun meginþorri námsmanna standa lakar settur og vinnandi fólk, skattborgarar, munu halda áfram að borga mikla styrki sem nýtist litlum hópi í gölluðu kerfi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. október.