Mannhelgi í fyrirrúmi

Mbl.is fjallaði í vikunni um málefni flóttamanna.  Þar er meðal annars vitnað til svara Sjálfstæðisflokksins.  Hér má sjá svör flokksins við spurningum blaðsins:

Mun flokkurinn leggja áherslu á málefni flóttafólks í komandi alþingiskosningum?

Hver er stefna flokksins varðandi móttöku flóttafólks?

Dyflinarreglugerðinni er nánast alltaf beitt hér á landi – styður flokkurinn að henni sé beitt eða á að skoða hvert mál fyrir sig?

Mun flokkurinn beita sér fyrir því að tekið verði á móti fleiri/færri flóttamönnum en hingað til hefur verið gert komist hann til valda?

Verður lagt aukið fé í þennan málaflokk eða minni?

Hvað með að taka við flóttafólki sem þegar er komið til Evrópu en nú er tekið á móti Sýrlendingum sem eru í flóttamannabúðum í Sýrlandi.

SVÖR:

Mun flokkurinn leggja áherslu á málefni flóttafólks?
Málefni flóttamanna eru mjög í brennidepli í heiminum og Ísland hefur fylgst náið með því. Hér er bæði átt við flóttamenn og hælisleitendur en hvorttveggja lýtur alþjóðlegum skuldbindingum og lögum. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að taka vel á móti þeim sem hér setjast að og leggur áherslu á að íslenskt samfélag sé vel í stakk búið til að gera það. Í því skiptir miklu máli að gæta að því að flóttamenn geti aðlagast samfélaginu hér, lært íslensku og með öðrum hætti verið hluti af þjóðfélaginu. Að því hefur Sjálfstæðisflokkurinn unnið á þessu kjörtímabili og mun leggja sitt af mörkum til þess að svo verði áfram.

Um Dyflin: Dyflinnarsamstarfið byggir á Dyflinnarsamningnum (e. Dublin Convention) frá árinu 1990. Núgildandi reglugerð um Dyflinnarsamstarfið (nr. 604/2013) var samþykkt af Evrópuþinginu og ráðinu árið 2013. Markmið samstarfsins er að ákvarða hvaða ríki sé ábyrgt fyrir meðferð umsóknar einstaklings um alþjóðlega vernd og á að tryggja að hver einstaklingur fái skorið úr sínu máli á sanngjarnan hátt í einu ríkjanna. Einstaklingur getur því eingöngu sótt um og fengið afgreiðslu á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hjá einu samstarfsríkjanna. Meginreglan er sú að samstarfsríki það þar sem umsókn um alþjóðlega vernd er fyrst lögð fram ber ábyrgð á umsókn einstaklings. Við komu umsækjanda um alþjóðlega vernd er kannað hvort viðkomandi hafi sótt um alþjóðlega vernd í öðru samstarfsríki og hvort það ríki beri ábyrgð á meðferð umsóknar.

Við mat á því hvort heimilt sé að endursenda umsækjanda um vernd þarf m.a. að kanna hvort aðstæður í viðtökuríki kunni að brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sé svo er óheimilt að senda umsækjandann þangað og skal þá taka umsókn viðkomandi til efnismeðferðar hér, sbr. 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Þetta samstarf hefur ákveðinn tilgang. Vega þarf og meta kosti og galla þátttöku Íslands í Schengen á hverjum tíma. Sjálfstæðisflokkurinn telur veru Íslands í Schengen mikilvæga og þar með að þátttaka í Dyflinarsamstarfsins sé mikilvægur og í raun órjúfanlegur hluti samstarfsins.

Í þeim löndum þar sem veikleikarnir eru það miklir er fólk ekki sent til baka af stjórnvöldum. Endursendingum umsækjenda um vernd til Grikklands frá Íslandi var hætt árið 2010 vegna þess að aðstæður í gríska hæliskerfinu voru taldar ófullnægjandi. Hinn 15. október 2015 ákvað Útlendingastofnun að láta í bili af endursendingum umsækjenda um vernd til Ungverjalands. Var það gert í ljósi mikils og skyndilegs álags sem er á hæliskerfi landsins og vegna gagnrýni á aðstæður umsækjenda um vernd þar í landi. Í desember 2015 sendi innanríkisráðuneytið frá sér greinargerð um endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Ítalíu. Hafa einstaklingar sem teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu ekki verið sendir til Ítalíu vegna aðstæðna og aðbúnaðar þar. Fylgst er vel með þróun mála í Evrópu og staðan er endurmetin eftir því sem þörf er á.

Kvótaflóttamenn: Líkt og fram kemur í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins er móttaka flóttamanna sjálfsögð. Þar hafa íslensk stjórnvöld jafnframt aukið fé til málaflokksins og Sjálfstæðisflokkurinn fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að auka fjármagn til flóttamannaaðstoðar í kjölfar neyðar sem skapast hefur í Evrópu undanfarin misseri.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að kerfið sé í stakk búið að takast á við aukinn fjölda hælisleitenda og flóttamanna. Það á bæði við um móttökukerfið og þegar fólk er hingað komið og hefur nýtt líf í nýju landi. Við þurfum að vanda okkur, gera það sem við getum og gera það vel.

Hæliskerfið: Verulega auknu fé hefur verið varið í hæliskerfið (sem heyrir undir innanríkisráðuneytið). Meðfylgjandi mynd sýnir þróun fjárheimilda til alls málaflokksins, þ.e. útlendingamál, sem heyrir undir innanríkisráðuneytið. Mest aukning hefur verið vegna aukins fjölda hælisumsókna. Árið 2011 námu fjárveitingar til málaflokksins 314 m.kr. en það ár sóttu 76 um hæli hér á landi. Árið 2015 voru hælisleitendur 354 sem er aukning um 366%. Sama ár námu fjárheimildir til málaflokksins 1.323 m.kr. sem er aukning um 260%. Það hefur því verið lagt verulega aukið fé til málaflokksins sl. ár.

 

Árið 2015 sóttu 354 um vernd á Íslandi og hlutu 82 þeirra vernd. Aldrei áður hafa jafnmargir hlotið vernd þó meirihluta umsókna sé synjað. Skýrist synjunarhlutfallið af því hversu hátt hlutfall umsókna kemur frá löndunum á vesturhluta Balkanskaga (42% umsókna). Synjunarhlutfall er almennt mjög hátt meðal þessa hóps bæði hér á landi, sem og almennt í ríkjum Vestur-Evrópu eða að meðaltali í kringum 98%.

Ný útlendingalög: Ný lög um útlendinga voru samþykkt á alþingi nú í vor, af öllum flokkum og í þverpólitískri sátt.

Markmiðið með endurskoðun útlendingalaga var að tryggja betur en áður að mannúð, jöfnuður og skilvirkni ríki við meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi, sem og að koma til móts við margbreytilegar þarfir íslensks samfélags, þar á meðal atvinnulífsins og háskólasamfélagsins. Ný löggjöf tekur þannig annars vegar mið af og samræmir þarfir íslensks samfélags með tilliti til hagvaxtar, aukinnar kröfu um samkeppnishæfni á alþjóðavísu og hins vegar mannúðar og réttindaverndar þeirra sem hingað koma. Breytingar hafa verið gerðar til að einfalda umsókna- og afgreiðsluferli hælisumsókna, hraða málsmeðferð og skýra ýmsa óvissuþætti, m.a. til að tryggja að stjórnsýslan sé betur í stakk búin til að takast á við aukinn fjölda umsækjenda. Auk þessa eru ýmsar breytingar og uppfærslur í samræmi við alþjóðlega staðla og þróun.

Ný útlendingalög breyta ekki í aðalatriðum þeim skilgreiningum sem stuðst er við þegar umsókn um vernd er metin. Eftir sem áður er notast við flóttamannahugtak Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Ísland er bundið af sömu alþjóðasamningum og áður og er því ekki um efnislegar breytingar að ræða varðandi mat á umsóknum. Nýju lögunum er ætlað að standa vörð um þá stefnu að veita þeim vernd sem hennar þurfa og ekki síður að bregðast með skýrum og skilvirkum hætti við þeim umsóknum sem eru tilhæfulausar.

Flóttamenn frá Sýrlandi
Við styðjum að tekið sé á móti flóttamönnum frá stríðshrjáðum svæðum eins og við þekkjum frá Sýrlandi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur, með þátttöku sinni í ríkisstjórn, stutt dyggilega við að tekið sé á móti flóttamönnum frá Sýrlandi, svokölluðum kvótaflóttamönnum og mun gera það áfram.