Ráðdeild skilar árangri í Hafnarfirði

Eftir Rósu Guðbjartsdóttur: „Í Hafnarfirði munum við halda áfram á sömu braut og sýna ábyrgð og ráðdeild í rekstrinum…“
Viðsnúninginn í rekstri Hafnarfjarðarbæjar á milli ára, sem nam um 900 milljónum króna og kemur fram í nýlegu hálfsársuppgjöri bæjarins, má að miklu leyti rekja til hagræðingaraðgerða sem gripið var til í kjölfar rekstrarúttektar á síðastliðnu ári. Ein mesta hagræðingin náðist í útboðum vegna kaupa á þjónustu fyrir sveitarfélagið. Alls nemur sparnaðurinn á ári vegna þeirra um 150 milljónum króna eða 600 milljónum króna á heilu kjörtímabili. Er hér um að ræða tryggingar, endurskoðun, símakostnað og fleira.Ýmis störf og verkefni voru endurskipulögð og samningar endurskoðaðir sem leitt hafa til um 160 milljóna króna sparnaðar og svo mætti áfram telja um fjárhagsleg áhrif aðgerðanna. Þessi hagræðing náðist með því að fara ítarlega í gegnum alla þætti rekstrarins. Sú mikla vinna hefur ekki einungis leitt til sparnaðar heldur hefur þjónusta sveitarfélagsins við íbúa og fyrirtækin verið efld á sama tíma. Hér er því um að ræða betri nýtingu á fjármunum skattgreiðenda, en það eru jú þeir sem standa undir rekstri bæjarins.

Svigrúm til að styrkja innviði

Þessi árangur hefur leitt til þess að nú fer að sjá til sólar í fjármálum bæjarfélagsins. Framundan er hraðari niðurgreiðsla óhagstæðustu skulda bæjarins og þar með lækkun fjármagnskostnaðar sem hefur verið einn af stærstu útgjaldaliðum bæjarfélagsins.Það léttir talsvert á rekstrinum og skapar jafnframt svigrúm til að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir sem verða fjármagnaðar með eigin fé.

Nýlega var opnaður nýr leikskóli í Hafnarfirði sem eingöngu var byggður fyrir eigið fé sveitarfélagsins. Yfirstandandi ár er það fyrsta í hálfan annan áratug sem bærinn þarf ekki að taka lán til framkvæmda eða til að borga af lánum. Á árinu hefur búnaður eins og tölvur inni í leik- og grunnskólum bæjarins verið endurnýjaður að hluta eftir uppsafnaða þörf. Stefnt er að því að gera enn betur í þeim efnum ásamt því að auka fjármagn til viðhalds. Spjaldtölvuvæðing nemenda er hafin og áætlað að í byrjun árs 2018 verði allir nemendur í 5.-10. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar komnir með slík tæki. Þá hefur kennsluúthlutun verið aukin umfram fjölgun nemenda í grunnskólum bæjarins og þar með stöðugildum kennara verið fjölgað, leikskólagjöld ekki hækkað í þrjú ár, niðurgreiðslur auknar til dagforeldra og frístundastyrkir auknir.

Lægri álögur og gjöld

Þessi breytta staða sýnir okkur að með markvissum og vel ígrunduðum aðgerðum er hægt að ná árangri í opinberum rekstri án þess að bitni á þjónustu. Að mínu mati á það jafnan að vera keppikefli kjörinna fulltrúa að fara vel með fjármuni skattgreiðenda. Að nýta þá fyrst og fremst í þau verkefni sem hinu opinbera ber að sinna og gera það þá af metnaði.Í Hafnarfirði munum við halda áfram á sömu braut, sýna ábyrgð og ráðdeild í rekstrinum til hagsbóta fyrir Hafnfirðinga og framtíð þeirra. Þá fer líka að verða grundvöllur til þess að lækka álögur og gjöld í bæjarfélaginu.

Höfundur er formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.