Ólöf Nordal innanríkisráðherra kynnti stöðu fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á ríkisstjórnarfundi síðastliðinn föstudag. Samþykkti ríkisstjórnin að lögð yrði fram þingsályktunartillaga um fullgildingu samningsins og mælti utanríkisráðherra fyrir henni á Alþingi í gær.
Fullgilding samningsins krefst margháttaðra lagabreytinga og hefur innanríkisráðuneytið þegar haft forgöngu um þær er snúa að ábyrgðasviði þess.
Samningurinn viðurkennir mannréttindi fatlaðs fólks, sem eru þau sömu og annarra, en staðfestir jafnframt rétt fatlaðs fólks til að njóta þessara réttinda og er hann því öðrum mannréttindasamningum til fyllingar. Markmið samningsins er að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi og að auka virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess.
Með þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 í júní 2012 ályktaði Alþingi að undirbúa lok aðlögunar íslenskrar löggjafar að ákvæðum samningsins á árinu 2013. Undirbúningur fullgildingar hefur tekið lengri tíma en áætlað var vegna umfangs verkefnisins. Verkefnið er nú hins vegar það langt komið hjá innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti að rétt þykir að leggja nú fram þingsályktunartillögu um fullgildingu samningsins.
Meðal laga sem liggur fyrir að breyta má nefna lög um þjónustu við fatlað fólk og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Stefnt er að því að leggja frumvarp þessa efnis fram á komandi vetri. Þá er í undirbúningi frumvarp til laga um bann við mismunun. Endurskoðun laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir stendur yfir og drög að frumvarpi til laga um sjálfstæða mannréttindastofnun hafa verið kynnt á vef innanríkisráðuneytis.
Mikilvægur áfangi
Óumdeilt er að fullgilding samningsins mun marka mikilvægan áfanga í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Þá er stór hluti þeirra skyldna sem lagðar eru á ríki samkvæmt samningnum í formi aðgerða sem ekki eru háðar lagabreytingum. Má þar nefna vitundarvakningu, þjálfun og fræðslu. Við fullgildingu verður hægt að hefja fjölda verkefna á þeim sviðum sem annars munu bíða. Þá kveður eftirlitskerfi samningsins á um starfsemi nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna og skýrslugjöf til hennar um framkvæmd samningsins sem er mikilvægur spegill á störf stjórnvalda og mikilvægur vettvangur fyrir réttindabaráttu fatlaðs fólks. Við fullgildingu samningsins virkjast þetta eftirlitskerfi. Loks er það viðvarandi verkefni stjórnvalda að þróa og útfæra réttindin sem samningurinn kveður á um, óháð einstaka lagabreytingum.