Sáttaleið um íslenskan landbúnað

Flest erum við sammála um að vilja öflugan landbúnað á Íslandi. Við viljum hafa blómlegar byggðir til sveita og halda sérkennum íslenskrar matvælaframleiðslu. Matvælaöryggi skiptir einnig máli og er hluti af sjálfstæði þjóðarinnar. Það verður alltaf kostnaðarsamt fyrir fámenna þjóð að byggja stórt land eins og er í tilfelli okkar Íslendinga.

 

Framlög hafa lækkað
Mikil þróun hefur átt sér stað á undanförnum áratugum í landbúnaði. Tækni hefur leyst mörg handverkin af hólmi og bú hafa almennt stækkað á sama tíma og þeim hefur fækkað. Kynslóðaskipting hefur víða verið erfið þó vissulega megi sjá ánægjuleg merki þess að ungt fólk sé tilbúið að setjast að í sveitum landsins. Framlög okkar til landbúnaðar hafa lækkað mikið ef miðað er við hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þannig fóru um 5% af vergri landsframleiðslu okkar til landbúnaðar fyrir u.þ.b. 20 árum en nú er hlutfallið rétt um 1%. Á sama tíma hefur t.d. mjólkurframleiðsla aukist mjög mikið en búum hefur fækkað úr 1,600 í 650.

Horfumst í augu við ágreining
Gildandi búvörusamningur var gerður til 6-7 ára og í stað þess að horfast í augu við þann ágreining sem uppi er í samfélaginu um þessi mál hefur Alþingi ítrekað framlengt gildistíma samningsins og nú eru að verða 12 ár síðan hann var gerður. Á Alþingi eru uppi raddir hjá minnihlutanum að hlaupast enn og aftur undan ábyrgð sinni og lengja þess í stað eldri samning til einhvers tíma. Við í atvinnuveganefnd ákváðum hins vegar að horfast í augu við þá miklu gagnrýni sem fram kom á nýjan búvörusamning í vor. Í sumar höfum við greint málið og unnið að breytingartillögum sem vonandi geta leitt okkur áfram veginn í meiri sátt. Að mínu mati var kominn tími á að draga línu í sandinn og hefja nýja sókn í málefnum landbúnaðarins með aukið samráð allra hagsmunaaðila að leiðarljósi. Hagsmunir bænda, vinnsluaðila, verslunar og neytenda eru nátengdir í þessu mikilvæga máli. Allir eru hver öðrum háðir. Í viðtölum við fulltrúa þessara aðila hefur sú sameiginlega skoðun allra legið fyrir, við viljum öll öflugan hefðbundinn Íslenskan landbúnað.

 

Þjóðarsamtal um íslenskan landbúnað
Megingagnrýni hefur snúist um 3 atriði, tímalengd, verðlagningakerfi (m.a. undanþágu frá samkeppnislögum) og skort á samráði. Við höfum nú unnið breytingartillögur sem mæta þessum atriðum. Enginn vinnur fullnaðarsigur í þessari atrennu en málamiðlanir munu vonandi leiða til víðtækari sáttar. Endurskoðunarákvæði samningsins árið 2019 er gert víðtækara og nú er reiknað með atkvæðagreiðslu meðal bænda og afgreiðslu þingsins að nýju það ár. Lögbundin verður samráðsvettvangur hagsmunaaðila næstu 3 árin og ákvörðunum um nýtt verðmyndunarkerfi verður frestað . Það er von mín að það þjóðarsamtal sem við boðum um íslenskan landbúnað megi leiða til sáttaleiðar um framtíðarstefnu í íslenskum landbúnaði og sóknartækifæra fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein.