Jólaboð Varðar

Hið árlega jólaboð Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík verður haldið í Valhöll fimmtudaginn 14. desember nk. kl. 17:15. Egill Þór Jónsson, formaður Varðar, flytur stutt ávarp og Pétur Ragnhildarson, prestur í Fella- og Hólakirkju og formaður Félags Sjálfstæðismanna í Fella- og Hólahverfi, flytur hugvekju.
Boðið verður upp á léttar veitingar í fljótandi og föstu formi.
Gestur okkar þetta árið er Skúli Sigurðsson rithöfundur sem les upp úr nýútkominni bók sinni Maðurinn frá São Paulo, en Skúli geystist fram á ritvöllinn á síðasta ári með sinni fyrstu bók, spennusögunni Stóra bróður.
Hún féll vel í kramið hjá lesenum, en fyrir Stóra bróður hlaut Skúli Blóðdropann, hin íslensku glæpasagnaverðlaun og varð Stóri bróðir því framlag Íslands til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna. Nú er í bígerð sjónvarpsþáttaröð sem gerð verður eftir bókinni.
Á vef bókaútgáfunnar Drápu segir um Manninn frá São Paulo:
„Í þessari annarri bók sinni fléttar Skúli Sigurðsson skáldskap saman við sögulega atburði og raunverulegar persónur svo úr verður magnaður hildarleikur – sem heldur lesendum í heljargreipum til síðustu síðu.
Maðurinn frá São Paulo er spennusaga um launmorð, njósnir og nasista á flótta.
Þýskur hermaður særist í orrustunni um Rostov í Úkraínu árið 1942. Honum er bjargað við illan leik.
Josef Mengele, dauðaengillinn í Auschwitz, flýr Evrópu fjórum árum eftir stríðslok.
Árið 1960 rænir ísraelska leyniþjónustan Adolf Eichmann í Buenos Aires. Réttað er yfir honum og hann hengdur í Tel Aviv.
Í Reykjavík er leigubílstjóri skotinn í hnakkann árið 1977. Héðinn Vernharðsson rannsakar málið.“