Stefnuskrá

D-listi, sjálfstæðis og óháðra í Tálknafjarðarhreppi og Vesturbyggð, leitar eftir umboði kjósenda til að leiða þau verkefni sem framundan eru í nýju sameinuðu sveitarfélagi.

Framboð okkar byggir á reynslumiklum bæjarfulltrúum í sambland við nýja krafta. Öll eigum við það sameiginlegt að vilja vinna af heilindum og ábyrgð fyrir okkar samfélag og okkur er það ljóst að verkefnið framundan er afar mikilvægt. Við horfum samstillt til framtíðar og heitum því að vinna samhent að þeim verkefnum sem framundan eru í nýju og breyttu starfsumhverfi. Við viljum virkja tækifærin í nýju öflugu sveitarfélagi og látum verkin tala, en við höfum líka hlustað og munum hlusta.

Við viljum efla samstöðu og gera samfélögin okkar ennþá öflugri. Við ætlum okkur að leiða samtal við stjórnvöld um eflingu innviða svo íbúar og fyrirtæki vilji fjárfesta til framtíðar í sameinuðu sveitarfélagi Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar.

Sameinað sveitarfélag Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar er fjölkjarna sveitarfélag sem mun á þessu fyrsta kjörtímabili taka upp vinnulag heimastjórna og því mun okkar samvinna og verklag þurfa að mótast af reynslunni sem af því skapast. Við ætlum okkur að standa vörð um sérstöðu hvers byggðakjarna og höfum metnað til að byggja upp nýtt og öflugt samfélag í samvinnu við íbúa og atvinnulíf.

Til að samfélagið nái sem bestum árangri í því að laða að fólk og fyrirtæki og hugsa sem best um þá sem fyrir eru, þá þarf öruggar samgöngur um svæðið. Okkar framtíðarsýn í samgöngum er með gerð jarðgangna en ekki fjallvegum. Aðgangur fólks að heilbrigðisþjónustu og almennt öryggi verður ekki viðunandi milli hverfa nema með slíkum samgöngubótum. Félagsstarf og menningarlíf með bættum samgöngum um sveitarfélagið myndi gjörbreytast og þarf að vera einfaldara til að hlúa að samfélaginu og velferð íbúa þess til framtíðar. Við þurfum að hafa skýra framtíðarsýn í samgöngumálum.

Á tímum orkuskipta er mikilvægt að við stöldrum við og horfum til framtíðar. Í gegnum ártugi höfum við búið við skert afhendingaröryggi með tilheyrandi hömlum í atvinnulífi og óþægindum fyrir íbúa. Mikilvægt er að við skoðum þá grænu kosti sem í okkar nær umhverfi eru, svo hægt sé að vinna bug á þessum mikla vanda. Án aðgerða mun þessi vandi stækka og hamla vexti okkar samfélags og atvinnulífs í komandi framtíð. Verum opin fyrir lausnum framtíðar í orkuöflun og bættu raforkuöryggi.

Samgöngur, félags- og skólamál, skipulagsmál, ljósleiðaravæðing, raforkumál, fjarskipta- og atvinnumál, það er af nógu að taka og nýjar áskoranir blasa við í sameinuðu sveitarfélagi. Allt það sem skiptir máli til þess að fólk vilji búa hér og starfa skiptir okkur máli. Við leggjum áherslu á að skapa samfélag og umhverfi sem hlúir vel að öllum aldurshópum og tekur vel á móti öllum þeim sem vilja leggja okkur lið í að búa til öflugt samfélag.

Frambjóðendur hafa að undanförnu hist og farið yfir verkefnin, ásamt því að bjóða í kaffispjall. Afrakstur þeirrar vinnu birtist hér á næstu síðum. Einhver þessara verkefna eru þegar í farvegi og önnur höfum við einsett okkur að komist á dagskrá á þessu stutta kjörtímabili.

Framboð D-lista mun standa fyrir ábyrgri fjármálastjórn og staðfestu í rekstri um leið og við gerum okkur grein fyrir að samfélag í vexti þarf að sækja fram til að vera samkeppnishæfur búsetukostur. Við göngum bjartsýn til kosninga og sækjum fram – sameinuð í sókn!


Fjölskylduvænt samfélag

  • Fjárfestum í mannauði sveitarfélagsins með því að styðja við frekari menntun og símenntun hjá því starfsfólki sem fyrir er.
  • Samræmum skólastefnu í sameinuðu sveitarfélagi, með það að markmiði að styðja við framúrskarandi skólastarf á öllum skólastigum, leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Eflum samstarf milli skólanna í sveitarfélaginu og tryggjum aðgengi að þjónustu í samræmi við meginmarkmið farsældarlaga.
  • Bjóðum upp á leikskólavist frá 12 mánaða aldri og leitum leiða til að efla mannauð og fjölga fagmenntuðu starfsfólki.
  • Styðjum við metnaðarfullt skólastarf tónlistarskóla og bjóðum upp á fjölbreytt námsframboð í öllum byggðakjörnum.
  • Eflum forvarnarstarf meðal ungmenna og styðjum betur við félagsmiðstöðvar í sveitarfélaginu. Nýtum leiðir til að bæta aðgengi ungmenna á aldrinum 16-18 ára að félagsstarfi ungs fólks.
  • Eflum framhaldsskólastigið með námsmiðstöð í samstarfi við fleiri skóla, byggt á vali nemenda og horfum til framtíðar í nýju námsumhverfi. Horfum til þess að nýta tækifæri til starfsmenntunar í heimabyggð.
  • Námsmenn á háskólastigi eða í annars konar námi hafi aðgengi að námsverum í byggðakjörnum, þar sem sköpuð verði aðstaða fyrir slíkt, t.d. í tengslum við starfsstöðvar sveitarfélagsins eða þekkingarsetur.
  • Haldið verður áfram að styðja við foreldra með foreldragreiðslum og brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur, þar til börn fá leikskólavist.
  • Við endurmetum reglulega þarfir í leik- og grunnskólaþjónustu á Barðaströnd í samráði við foreldra.
  • Gerum markvissa áætlun um uppbyggingu og viðhald á skólalóðum í sveitarfélaginu.
  • Skólahúsnæði fyrir leik- og grunnskóla byggt á Bíldudal, samkvæmt fyrirliggjandi þarfagreiningu og nýsamþykktu deiliskipulagi.

 

Heilsueflandi samfélag

  • Við viljum ýta undir öflugt frístunda og íþróttastarf fyrir fólk á öllum aldri um allt sveitarfélagið. Auðveldum aðgengi fyrir fastagesti að íþróttamiðstöðvum sveitarfélagsins.
  • Setjum hreyfingu og útivist í forgang. Nýtum græn svæði til að efla lýðheilsu, m.a. með fjölgun gönguleiða og heilsustígum. Fjölgum útivistarmöguleikum á leiksvæðum og opnum svæðum í sveitarfélaginu.
  • Unnið verði að úrbótum á útiaðstöðu við Byltu í samstarfi við heimastjórn.
  • Íþróttir eru öflugt verkfæri í forvarnarstarfi fyrir fólk á öllum aldri. Hlúum áfram að yngstu börnunum með íþróttaskólanum. Sinnum okkar hlutverki í umhirðu og viðhaldi íþróttasvæða.
  • Styðjum við starfsemi frumkvöðla- og félaga sem sinna mikilvægu starfi á sviði hreyfingar og íþrótta í sveitarfélaginu.

 

Velferðarmál

  • Við þurfum að þekkja og rækta hlutverk okkar sem fjölmenningarsamfélag. Bjóðum upp á markvissa nýbúaþjónustu, stuðlum að fræðslu, m.a. með stuðningi við íslenskukennslu.
  • Nýtum tæknina í auknum mæli til að bæta aðgengi að upplýsingum m.a. á heimasíðu sveitarfélagsins.
  • Við styðjum áfram við frjáls félagasamtök og leggjum okkar af mörkum til að styrkja stoðir þeirra til framtíðar.
  • Stöðugt þarf að huga að bættu aðgengi fatlaðra og hreyfihamlaðra að byggingum í eigu sveitarfélagsins.
  • Bjóðum áfram upp á leiguhúsnæði fyrir tekjulága einstaklinga. Samræmda húsnæðisáætlun þarf að gera fyrir allt sveitarfélagið og skilgreina hversu mikið leiguhúsnæði þarf að vera til reiðu á vegum sveitarfélagsins á hverjum stað.

 

Málefni eldri borgara

  • Þjón­usta sveit­ar­fé­lagsins við aldraða miðar að því að eldri borg­arar geti búið sem lengst heima með viðeig­andi stuðn­ingi. Við viljum leggja áherslu á að eldri borgarar séu virkir þáttakendur í stefnumótun og vel upplýstir um þá þjónustu sem þeir geta sótt til sveitarfélagsins.
  • Beitum okkur fyrir bættri þjónustu og úrbótum á HVEST.
  • Hlustum á íbúana sem kalla eftir aukinni samveru í félagsstarfi aldraðra og bætum strax við opnunartíma. Komum lýðheilsumarkmiðum á dagskrá með markvissri vikulegri hreyfingu.
  • Verum opin fyrir því að sækja nýjar og skilvirkar lausnir í heimaþjónustu við íbúa. Rýnum í tækifærin sem geta falist í að nýta mannauðinn betur.
  • Horfum til samstarfs við byggingaraðila um uppbyggingu minni íbúða með áherslu á húsnæði fyrir íbúa sem vilja minnka við sig.
  • Hefjum undirbúning að byggingu íbúða við Kamb á Patreksfirði.

 

Umhverfis- og skipulagsmál

  • Gera þarf átak í fegrun og umhirðu um allt samfélagið og sveitarfélagið þarf að vera sjálfsögð fyrirmynd á þeim eignum og svæðum sem þeim tilheyra.
  • Gera þarf framkvæmdaáætlun vegna endurnýjunar og viðhalds gatna- og fráveitukerfis, ásamt gangstéttargerð til næstu ára.
  • Horfum til framtíðar og tækninýjunga við endurbætur og viðhald í fráveitulausnum fyrir sveitarfélagið.
  • Gera þarf átak í umferðaöryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Lýsing og gangbrautir, göngustígar og hraðatakmarkanir.
  • Við leggjum til að áfram verði hvatar til byggingar atvinnu og íbúðarhúsa með afslætti af byggingaleyfis- og gatnagerðargjöldum og áhersla verði á þéttingu byggðar.
  • Deiliskipuleggjum ný hverfi eftir því sem þörf er á og leggjum áherslu á að til reiðu séu byggingalóðir í öllum byggðakjörnum.
  • Við bjóðum fyrirtækjum upp á samstarf um byggingu íbúðarhúsnæðis með kaup eða leigu á tilteknum prósentuhluta í nýbyggingum.
  • Sorpmálin eiga að vera til stöðugrar endurskoðunar með það að markmiði að draga úr sóun og lágmarka álögur.  Skoðað verði m.a. fyrirkomulag með afsláttarkortum eða “gjaldfrjálsir dagar” fyrir íbúa. Lögð verði áhersla á aukna auðveldara aðgengi að flokkun í dreifbýli og þéttbýli.
  • Ný sorpmóttöku og geymslusvæði verði tekin í notkun. Lögð sérstök áhersla á að umhverfið sé snyrtilegt og aðgengilegt.
  • Skoðum forsendur og áframhaldandi samstarf um uppbyggingu sameiginlegrar Björgunarmiðstöðvar á Patreksfirði.
  • Rýnt verði í mannaflaþörf og búnað hjá slökkviliði sveitarfélagsins, sem þarf að vera vel búið undir að takast á við auknar kröfur og vaxandi starfsemi í atvinnulífinu.

 

Atvinnumál

  • Við viljum styðja við öflugt atvinnulíf í sveitarfélaginu og verðum öflugir talsmenn atvinnulífs á svæðinu. Stoðir okkar byggja á sjávarútvegi, fiskeldi, ferðaþjónustu og landbúnaði.
  • Áhersla verði á uppbyggingu atvinnutækifæra sem byggja á sérstöðu okkar samfélaga og nærumhverfinu. Við fögnum uppbyggingu þekkingarseturs fiskeldis í Vatneyrarbúð og munum beita okkur fyrir því að fjölga og viðhalda þeim störfum sem skapast þar í sjávartengdri starfsemi. Greinum tækifærin sem felast í þjóðgarði.
  • Samkeppnishæft samfélag í þéttbýli og dreifbýli þarf að búa við raforkuöryggi, öflugt netsamband og örugg fjarskipti.
  • Landbúnaður er mikilvægur hlekkur í keðju fjölbreytts atvinnulífs sem skapa þarf lífvænleg skilyrði í vaxandi byggðum.
  • Bætum þjónustu og stuðlum að ábyrgri uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu með því að vera meðvituð um hlutverk okkar. Gera þarf áætlun um viðhald og uppbyggingu á tjaldstæðum í sveitarfélaginu í samráði við nýjar heimastjórnir. Samið verði við einkaaðila um rekstur tjaldstæðanna eftir því sem kostur er.

Aðkoma sveitarfélagsins að ferðaþjónustu snýr m.a. að:

  • Starf menningar- og ferðamálafulltrúa.
  • Tjaldsvæði í sveitarfélaginu.
  • Þjónusta og opnunartími sundlauga.
  • Menningarviðburðir og hátíðir á svæðinu.
  • Almenningssamgöngur milli byggðakjarna eru mikilvægur þáttur í sameinuðu sveitarfélagi og mikilvægt er að bæta þær og efla til framtíðar, þannig að atvinnulíf og samfélag geti nýtt sér þá kosti sem felast í föstum áætlunarferðum um svæðið.

 

Hafnir

Fjölga þarf leguplássum og bæta aðstæður í höfnum sveitarfélagsins, ásamt því að hafa geymslu- og uppsátursvæði til reiðu fyrir notendur hafnanna.  Við viljum að hafnir sveitarfélagsins séu vel reknar og skapi skilyrði fyrir gesti og notendur eins og best má vera. Framundan eru brýn verkefni í uppbyggingu hafna sveitarfélagsins sem eru með sívaxandi starfsemi vegna aukinna umsvifa í ferðaþjónustu og sjávartengdri starfsemi. Hafnarstjóri gegnir lykilhlutverki í skipulagi og umsjón hafna sveitarfélagsins í samvinnu við hafnarverði.

  • Gera þarf áætlun um viðhald og endurbætur hafna sveitarfélagsins.
  • Móta þarf stefnu um framtíðarhlutverk hafna á svæðinu. Hver er sérstaðan.
  • Fara þarf fram á úttekt Siglingastofnunar á aukinni hreyfingu í Patrekshöfn og tillögum til úrbóta verði tafarlaust hrint í framkvæmd.
  • Bæta þarf úr aðstöðu við báta/olíudælu í Tálknafjarðarhöfn.

 

Stjórnsýsla

Bæjarstjóri og lykilstarfsfólk sveitarfélagsins verði sýnilegt í byggðakjörnum og þar verði til staðar aðstaða sem nýtist starfsfólki, þannig að sveigjanlegt vinnuumhverfi sé til staðar.

  • Við stundum ábyrga fjárhagsáætlanagerð, stillum væntingum um framtíðina í hóf, þannig að tekjuáætlanir séu ekki byggðar á veikum grunni. Við fylgjum fjármála-reglum sveitarfélaga og gætum þess að viðmið um skuldahlutfall sé innan marka.
  • Við leitum leiða til að hafa álögur hóflegar, en gerum okkur grein fyrir að í vaxandi samfélagi, í samkeppni um nýja íbúa, eru gerðar kröfur um þjónustu og uppbyggingu sem þarf að fjármagna.
  • Við rýnum gjaldskrár með reglubundnum hætti með tilliti til fjölskylduafslátta og staðhátta.

Við tilhögun á stjórnun nýs sameinaðs sveitarfélags Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, þá höfum við tekið þá ákvörðun að ganga óbundin til kosninga.

 

Samskipti við stjórnvöld

Við beitum okkur í samtali við stjórnvöld og minnum á hlutverk þeirra í að búa til hvata- og stöðuleika, ásamt nauðsynlegri innviðauppbyggingu sem þarf til að byggja upp farsælt samfélag og kröftugt atvinnulíf í sameinuðu sveitarfélagi.

  • Við krefjumst þess að stjórnvöld setji fram skýra stefnu um raforkuöflun og úrbætur í afhendingaröryggi á Vestfjörðum í samræmi við tillögur úr skýrslu starfshóps um orkumál á Vestfjörðum frá apríl 2022. Skoða þarf alla virkjanakosti með opnum huga. Afhendingaröryggi verður eitt helsta baráttumál okkar í ljósi orkuskipta og framtíðarmöguleika svæðisins sem valkostur í búsetu og uppbyggingu atvinnulífs.
  • Við höldum áfram að krefjast þess að álögð gjöld af laxeldinu, sem renna í Fiskeldissjóð, renni að hluta eða í heild beint til sveitarfélaga í heimabyggð þar sem verðmætin verða til og innviðauppbyggingin þarf að fara fram.
  • Við beitum okkur fyrir skilvirku og stöðugu samtali við stjórnvöld um samgöngumál svæðisins. Við berjumst fyrir bættum samgöngum innan sveitarfélagsins, þar sem okkar sjálfsagða krafa er láglendisvegir og jarðgöng umfram allt. Við berjumst áfram fyrir því að veglagning verði kláruð með láglendisvegi til suðurs og Bíldudalsvegi um Trostansfjarðarheiði.
  • Við munum leggja áherslu á samtal um bætta vetrarþjónustu af hálfu Vegagerðarinnar og samtal um úrbætur á helstu ferðamannaleiðum.
  • Við leggjum áherslu á flugið sem nútíma samgöngumáta sem þarf að vera hagkvæmari í notkun fyrir íbúa. Loftbrúin er mikilvægur hvati fyrir notkun og kemur sér vel fyrir heimilin en kerfið þarf að viðhalda og þróa enn frekar. Gæta þarf að því að kerfi sem þetta verði ekki til þess að hækka verð til notenda.
  • Við berjumst fyrir úrbótum í höfnum sveitarfélagsins og mikilvægri þjónustu sem veitt er í ferjuhöfnum. Mikilvægt er að halda áfram samtali við stjórnvöld um ábyrgð þeirra og þátttöku í að skilgreina og tryggja tekjustofna hafnanna.
  • Við höldum áfram að berjast fyrir úrbótum í heilbrigðisþjónustu á heilbrigðisstofnun Vestfjarða, fjölgun hjúkrunarrýma og endurbótum á aðstöðu fyrir þjónustuþega ásamt aðgengi að sérfræðiþjónustu í heimabyggð. Taka þarf upp beinskeitt samtal við framkvæmdasýsluna/ríkið um uppbyggingu á hjúkrunarheimili, skv. áætlunum þar um.
  • Við höldum áfram að minna stjórnvöld á ábyrgð þeirra í öryggi borgaranna um allt land, hvort heldur er í smærri eða stærri samfélögum.
  • Við gerum þá kröfu að stjórnvöld hugi að dreifingu opinberra starfa um landið og nýti sér þann sjálfsagða möguleika að fjölga störfum án staðsetningar.
  • Við leggjum áherslu á eflingu byggða með auknum tækifærum íbúanna til að stunda háskólanám í fjarnámi í sinni heimabyggð.