Bryndís Haraldsdóttir

Bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ frá árinu 2010. Viðskiptafræðingur að mennt auk þess að hafa stundað meistaranám í opinberri stjórnsýslu. Ég er formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar Mosfellsbæjar. Sit í stjórn Strætó bs og gegndi þar stjórnarformennsku síðastliðin 2 ár. Ég sit jafnframt í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins og skólanefnd Framhaldsskólans í Mosfellsbæ.

  • Sækist eftir 4. sæti í Suðvesturkjördæmi
  • Starfsheiti: Formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar

Skipulagsmál, velferð og lýðheilsa
Ég hef setið í svæðisskipulagsnefnd og vann að nýju svæðisskipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið. Mikilvægi þess að við gerum virkum ferðamátum hátt undir höfði stuðlar að bættri lýðheilsu og sparar þjóðfélaginu til lengri tíma. Breytt aldursamsetning þjóðarinnar kallar á aukið fjármagn í heilbrigðismál en þá er mikilvægt að hugað sé að forvörnum enda eru lífstílssjúkdómar ein af okkar stærstu ógnum.
Nýsköpun í atvinnulífinu og skynsamleg nýting náttúruauðlinda
Ég hef stofnað fyrirtæki og er í atvinnurekstri með eiginmanni mínum. Ég starfaði um árabil hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þar veitti ég frumkvöðlum og fyrirtækjum ráðgjöf, auk þess að sinna norrænu og evrópsku samstarfi á sviði nýsköpunarmála. Ég stýrði atvinnuveganefnd Sjálfstæðisflokksins um árabil og hef þekkingu á íslensku atvinnulífi en sóknarfæri okkar liggja í þekkingu, hugviti og skynsamlegri nýtingu náttúru auðlinda.
Bæta þarf samskipti ríkis og sveitafélaga
Ég hef reynslu af opinberri stjórnsýslu og átta mig á mikilvægi þess að vandað sé til verka á vettvangi stjórnmála og stjórnsýslu. Allt of mikill tími og orka fer í ómarkviss samskipti ríkis og sveitarfélaga, þetta samstarf þarf að bæta til muna. Kjörnir fulltrúar eiga einfaldega að vinna í lausnum og veita sem bestu þjónustu til borgaranna með sem hagkvæmasta hætti sama hvort þeir eru á þingi eða í sveitarstjórnum.
Fjölskyldan í fyrirrúmi
Ég er gift Örnólfi Örnólfssyni rafvirkjameistara, við búum í Mosfellsbæ ásamt þremur börnum og tveimur hundum. Ég hef víðtæka reynslu af samfélagsmálum hvort sem það er sem kjörinn fulltrúi, foreldri, aðstandandi aldraðra, sjúkra eða fíkla. Lífið er allskonar og við sem kjörnir fulltrúar þurfum að tryggja að hér líði öllum vel. Ég hef reynslu af því að setja mig inn í ólík mál, skoða allar hliðar þess og taka ákvarðanir með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Ég býð fram krafta mína og er tilbúin að vinna fyrir okkur öll að enn betra samfélagi.