Endurskoða þarf forsendur ríkisfélaga

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Í lok árs 2021 átti ríkið al­farið eða ráðandi hlut í 40 fé­lög­um, auk minni hluta í ýms­um fé­lög­um. Heild­ar­eign­ir þess­ara 40 fé­laga námu 4.074 millj­örðum króna og eigið fé 951 millj­arði. Yfir fimm þúsund starfs­menn eru inn­an veggja rík­is­fé­lag­anna. Flest rík­is­fé­lög­in eru hluta­fé­lög, op­in­ber hluta­fé­lög og einka­hluta­fé­lög.

Í árs­skýrslu rík­is­fyr­ir­tækja 2021, sem birt var í sept­em­ber síðastliðnum, kem­ur fram að í heild námu heild­ar­tekj­ur rík­is­fé­lag­anna 304 millj­örðum króna. Sam­an­lagður hagnaður var rúm­lega 76 millj­arðar. Rík­is­sjóður fékk 15 millj­arða í arð frá rík­is­fé­lög­un­um.

Í árs­skýrsl­unni eru sjö af 40 rík­is­fyr­ir­tækj­um tal­in vera á sam­keppn­ismarkaði og níu að hluta, eins og kem­ur fram á meðfylgj­andi töflu. En sum fyr­ir­tæki sem eru ekki tal­in vera á sam­keppn­ismarkaði eru það ekki vegna þess að ekki sé hægt að koma við sam­keppni, held­ur vegna þess að rík­is­valdið – lög­gjaf­inn – hef­ur tekið ákvörðun um að banna sam­keppni. Þetta á t.d. við um Áfeng­is- og tób­aksversl­un rík­is­ins. Af­nám einka­sölu rík­is­ins á smá­sölu áfeng­is myndi án nokk­urs vafa leiða til mik­ill­ar sam­keppni. Lög­gjaf­inn einn stend­ur í vegi fyr­ir henni.

For­send­ur breyt­ast

Í árs­skýrsl­unni seg­ir að for­send­ur fyr­ir eign­ar­haldi rík­is­ins á ein­stök­um fé­lög­um geti verið mjög ólík­ar, „auk þess sem rök fyr­ir eign­ar­hald­inu geta breyst með tím­an­um“. Ekki síst þess vegna er mik­il­vægt að rök­in að baki eign­ar­haldi rík­is­ins séu end­ur­met­in reglu­lega. Aðstæður breyt­ast, tækni fleyg­ir fram, neyslu­venj­ur breyt­ast sem og sam­keppn­is­um­hverfi. Spyrja þarf hvað rétt­læti það að binda sam­eig­in­lega fjár­muni lands­manna í ákveðnum rekstri og hvort einkaaðilar geti ekki sinnt hon­um með betri og hag­kvæm­ari hætti. Vega það og meta hvort hags­mun­um al­menn­ings sé bet­ur komið með því að umbreyta eign­um rík­is­fyr­ir­tækja í sam­fé­lags­lega innviði eða niður­greiðslu skulda. Ekki skipt­ir minna máli að huga að þeim áhrif­um sem rík­is­rekst­ur­inn hef­ur á sam­keppn­is­um­hverfi og mögu­leika frum­kvöðla til að hasla sér völl á markaði með nýja tækni og þjón­ustu!

Einu sinni þótti það eðli­legt að ríkið væri í skipa­út­gerð og bóka­út­gáfu. Fáum dett­ur það í hug í dag, ekki frek­ar en að ríkið stundi áhættu­sama síld­ar­út­gerð eða áburðarfram­leiðslu (þeir eru þó til sem láta sig dreyma um slík­an rík­is­rekst­ur). End­ur­skoðun á slík­um rík­is­rekstri var ekki án átaka og end­ur­skoðun á um­fangi og til­gangi ein­stakra rík­is­fé­laga á kom­andi árum verður það ekki held­ur.

Auðvitað á meg­in­regl­an, þegar for­send­ur rík­is­rekstr­ar eru end­ur­skoðaðar, að vera sú að ríkið dragi sig út af sam­keppn­ismarkaði. Þetta á til dæm­is við um fjöl­miðla, fjár­mála­starf­semi og leigu­markað. Telji lög­gjaf­inn nauðsyn­legt að tryggja að ákveðnum verk­efn­um sé sinnt, s.s. menn­ing­ar­legu hlut­verki, er hægt að gera það með því að virkja krafta sjálf­stætt starf­andi fyr­ir­tækja og ein­stak­linga. Heil­brigði á leigu­markaði verður ekki náð með rík­is­rekstri leigu­fé­lags held­ur með því að tryggja ein­falt reglu­verk, nægt fram­boð af bygg­ing­ar­lóðum og skýra lög­gjöf um rétt­indi og skyld­ur leigj­enda og leigu­sala.

Ný tækni og breytt­ar neyslu­venj­ur

En það er hægt að ganga lengra í að losa um eign­ir sem bundn­ar eru í rík­is­rekstri – nýta þær bet­ur í þágu al­menn­ings. Ríkið á að huga að því hvort, og þá með hvaða hætti, hægt sé að búa til jarðveg fyr­ir sam­keppni á sviðum þar sem eng­in sam­keppni er. Þetta á við um smá­sölu áfeng­is.

Tækni og breytt­ar neyslu­venj­ur hafa hægt og bít­andi grafið und­an for­send­um Ísland­s­pósts sem sinn­ir alþjón­ustu á póst­markaði, auk þess að vera í sam­keppni við einkaaðila á sviði flutn­inga- og hraðsend­ingaþjón­ustu. Ísland­s­póst­ur er gott dæmi um hve nauðsyn­legt það er að umbreyta rík­is­fyr­ir­tæki. Í fyrsta lagi verður að draga fyr­ir­tækið að fullu út af sam­keppn­ismarkaði og í öðru lagi skylda fyr­ir­tækið til að bjóða út þjón­ustu. Með því yrði byggt und­ir fjölda frum­kvöðla og fyr­ir­tækja úti um allt land á sviði flutn­inga- og póstþjón­ustu – ekki ósvipað og gert var þegar Vega­gerðin hóf að bjóða út vega­gerð og þjón­ustu.

Árs­skýrsla rík­is­fyr­ir­tækja dreg­ur upp ágæta mynd af þeim rík­is­fé­lög­um sem heyra und­ir efna­hags- og fjár­málaráðherra. En á veg­um rík­is­ins eru ýms­ar aðrar um­svifa­mikl­ar stofn­an­ir sem leika æ stærra hlut­verk í ís­lensku efna­hags­lífi. Sum­ar stofn­an­irn­ar eru að hluta á sam­keppn­ismarkaði. Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un, Byggðastofn­un og Mennta­sjóður náms­manna eru dæmi. End­ur­skoðun á hlut­verki og rekstri þess­ara stofn­ana er nauðsyn­leg.

Ohf-væðing mis­tök

Ég hef lengi verið sann­færður um að ohf-væðing rík­is­fyr­ir­tækja hafi verið til­raun sem mistókst. Ég hef líkt ohf-væðing­unni við eit­ur sem seytl­ar um æðar at­vinnu­lífs­ins. Sam­keppn­is­um­hverfið hef­ur orðið óheil­brigðara en ella. Op­in­beru hluta­fé­lög­in hafa gert hug­mynd­ir um hlut­verk rík­is­ins þoku­kennd­ari og mark­miðin, skyld­urn­ar og verk­efn­in óskýr­ari. Auðvitað hef­ur fleira haft þar áhrif, en op­in­beru hluta­fé­lög­in hafa nýtt sér fé­laga­formið – um­gjörðin hef­ur gert þau lík­ari lokuðum einka­fyr­ir­tækj­um en hefðbundn­um rík­is­fyr­ir­tækj­um. Í skjóli eign­ar­halds er sótt inn á sam­keppn­ismarkaði og lagt til at­lögu við einka­fyr­ir­tæki – lít­il og stór.

Von­ir um að gagn­sæi í rík­is­rekstr­in­um myndi aukast með því að færa fyr­ir­tæki í bún­ing op­in­bers hluta­fé­lags hafa orðið að engu. Það tók Rík­is­end­ur­skoðun mörg ár að fá stjórn­end­ur Rík­is­út­varps­ins ohf. til að fara eft­ir ákvæðum laga um fjár­reiður rík­is­ins. Op­in­bera hluta­fé­lagið Isa­via þverskallaðist við að fara eft­ir fyr­ir­mæl­um Úrsk­urðar­nefnd­ar upp­lýs­inga­mála og af­henda gögn vegna sam­keppni um leigu­rými í Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar. Dæm­in eru fleiri.

Um leið og við horf­um með gagn­rýn­um hætti á rekst­ur rík­is­fé­laga verðum við einnig að vinda ofan af ohf-væðing­unni, óháð því hvort tek­in er ákvörðun um hvort viðkom­andi rekst­ur verði áfram í hönd­um rík­is­ins eða ekki.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. maí 2023.