Án agavalds eigenda og „áskrifenda“

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Von­ir mín­ar um að flokk­arn­ir þrír sem mynda rík­is­stjórn næðu sam­an um að marka skýra stefnu í mál­efn­um fjöl­miðla, þar sem rennt yrði styrk­ari stoðum und­ir sjálf­stæða fjöl­miðla og mis­rétti á sam­keppn­ismarkaði leiðrétt, a.m.k. að hluta, gengu ekki eft­ir. Von­brigði vissu­lega, en ég lít á það sem skyldu mína að halda áfram bar­átt­unni fyr­ir breyt­ing­um þannig að ekki líði enn eitt kjör­tíma­bil stöðnun­ar þar sem hægt og bít­andi flæðir und­an sjálf­stæðum fjöl­miðlum.

Þegar kem­ur að fjöl­miðlun er texti stjórn­arsátt­mál­ans þokka­lega skýr en ber þess aug­ljós merki að þrír ólík­ir flokk­ar komust niður á mála­miðlun: „Frjáls­ir fjöl­miðlar eru for­senda op­inn­ar lýðræðis­legr­ar umræðu og veita stjórn­völd­um, at­vinnu­líf­inu og helstu stofn­un­um sam­fé­lags­ins nauðsyn­legt aðhald. Rík­is­stjórn­in legg­ur áherslu á fjöl­breytni í flóru fjöl­miðla með öfl­ugu al­manna­út­varpi og einka­rekn­um fjöl­miðlum.“ Ekk­ert er hins veg­ar fast í hendi um hvernig rík­is­stjórn­in ætl­ar að ná mark­miði sínu um fjöl­breytta fjöl­miðlaflóru. Aðeins sagt að staða einka­rek­inna fjöl­miðla verði „met­in áður en nú­ver­andi stuðnings­kerfi renn­ur út og ákveðnar aðgerðir til að tryggja fjöl­breytni á fjöl­miðlamarkaði og öfl­ugt al­manna­út­varp“.

Fyr­ir­heit gef­in

Í stjórn­mála­álykt­un flokks­ráðsfund­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins í aðdrag­anda kosn­inga er gengið sæmi­lega hreint til verka: „Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn legg­ur áherslu á að rekst­ur sjálf­stæðra fjöl­miðla sé tryggður og leggst gegn bein­um rík­is­styrkj­um til þeirra. Um­fang RÚV á aug­lýs­inga­markaði og sam­keppni við stór er­lend tæknifyr­ir­tæki, sem búa við mun hag­stæðara skattaum­hverfi, hafa haft veru­lega nei­kvæð áhrif á rekstr­ar­um­hverfi einka­rek­inna fjöl­miðla. Rekst­ur rík­is­ins á fjöl­miðlum má ekki hamla frjálsri sam­keppni og raska rekstr­ar­grund­velli annarra fjöl­miðla. Tak­marka á veru­lega um­fang RÚV og bæta skattaum­hverfi fjöl­miðla.“

Það er á grunni þess­ar­ar álykt­un­ar sem þing­menn og ráðherr­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins verða að vinna á kjör­tíma­bil­inu. Fyr­ir­heit voru gef­in og þau ganga ekki gegn nýj­um stjórn­arsátt­mála. Heit­streng­ing­ar um fjöl­breytta flóru fjöl­miðla verða inn­an­tóm­ar ef ekki er komið í veg fyr­ir að rík­is­rekst­ur fjöl­miðla ryðji einka­rekn­um fjöl­miðlum úr veg­in­um. Fjöl­breytni og fjár­hags­legt sjálf­stæði frjálsra fjöl­miðla næst ekki með því að stinga þeim í sam­band við súr­efn­is­vél­ar rík­is­sjóðs, held­ur með því að koma í veg fyr­ir að fyr­ir­ferð Rík­is­út­varps­ins á markaði grafi und­an þeim.

Ég hef áður bent á að ólíkt Rík­is­út­varp­inu þurfa sjálf­stæðir fjöl­miðlar að standa reikn­ings­skil á því sem þeir gera, – gagn­vart les­end­um, áhorf­end­um og hlust­end­um. Ef áskrif­anda lík­ar ekki efni sem boðið er upp á, seg­ir hann ein­fald­lega upp áskrift­inni. Hlust­and­inn hætt­ir að stilla á út­varps­stöðina. Sá sem er ósátt­ur við hvernig frétt­ir og frétta­skýr­ing­ar eru mat­reidd­ar gefst upp á að heim­sækja vef­miðil­inn. Með minnk­andi vin­sæld­um verða mögu­leik­ar viðkom­andi fjöl­miðils til að afla tekna með aug­lýs­ing­um verri.

Með þess­um hætti veit­ir al­menn­ing­ur einka­rekn­um fjöl­miðlum aðhald. Rík­is­rek­in fjöl­miðlun, sem nýt­ur lögþvingaðra for­rétt­inda, býr ekki við aga­vald al­menn­ings. Eng­inn get­ur látið óánægju sína í ljós með því að segja upp áskrift­inni – hætta að greiða út­varps­gjaldið og slíta viðskipta­sam­band­inu. Inn­heimtumaður rík­is­ins trygg­ir að eng­inn komi sér und­an út­varps­gjald­inu.

Gert vel við rík­is­miðil

Frum­varp til fjár­laga 2022 sýn­ir glöggt hvernig lög­gjaf­inn hef­ur tryggt hags­muni Rík­is­út­varps­ins. Og ekki verður annað sagt en að skatt­greiðend­um sé gert skylt að gera vel við rík­is­miðil­inn á kom­andi ári með því að leggja hon­um til tæp­lega 5,1 millj­arð (og svo vals­ar hann frjáls um aug­lýs­inga­markaðinn í sam­keppni við aðra miðla). Þetta er 430 millj­óna króna hækk­un frá fjár­lög­um þessa árs. Hækk­un­in er svipuð og heild­ar­fram­lag til Lista­safns Íslands, litlu lægri en fjár­veit­ing til Þjóðskjala­safns og yfir þris­var sinn­um hærri fjár­hæð en ætl­un­in er að renni til Nátt­úru­m­inja­safns­ins.

Fátt get­ur komið í veg fyr­ir að fram­lag til Rík­is­út­varps­ins hækki á kom­andi ári. Um­hyggja mik­ils meiri hluta þing­manna gagn­vart rík­is­miðlin­um veg­ur þyngra en áhyggj­ur af stöðu einka­rek­inna fjöl­miðla. Sú hugs­un er einnig áleit­in hvort stjórn­mála­menn veigri sér við að fara gegn ægi­valdi rík­is­rek­inn­ar fjöl­miðlun­ar. Þeir vita hversu auðvelt það er að setja gagn­rýn­end­ur út af sakra­ment­inu og tak­marka aðgang þeirra að ljósvaka rík­is­ins.

Það er rétt sem Björn Bjarna­son seg­ir í dag­bókar­færslu á vef sín­um að ekki sé und­ar­legt að stjórn­end­ur miðla í sam­keppni við Rík­is­út­varpið „telji þenn­an fjár­aust­ur „óskilj­an­leg­an“. Raun­ar ættu þeir sem verða að gera sér þjón­ustu RÚV að góðu að vera sömu skoðunar vegna þess hve henni hnign­ar þrátt fyr­ir óstöðvandi fjár­streymið og ein­kenn­ist sí­fellt meira af end­ur­teknu efni. Metnaðarleysið magn­ast eft­ir því sem minna þarf að leggja á sig til að fá greitt fyr­ir það.“

Ásamt nokkr­um sam­herj­um mín­um hef ég lagt fram frum­varp um breyt­ing­ar á lög­um um Rík­is­út­varpið, þar sem rík­is­fyr­ir­tækið er dregið út af sam­keppn­ismarkaði aug­lýs­inga. Þá hef ég einnig lagt til að stutt verði við bakið á einka­rekn­um fjöl­miðlum í gegn­um skatt­kerfið en ekki með bein­um rík­is­styrkj­um, þar sem all­ir sitja við sama borð og jafn­ræðis er gætt. Um þetta hef ég fjallað áður. Nái hug­mynd­ir okk­ar Sjálf­stæðismanna fram að ganga verður sam­keppn­is­um­hverfi fjöl­miðla a.m.k. heil­brigðara og þannig stuðlað að því að mark­mið rík­is­stjórn­ar­inn­ar um fjöl­breytta flóru fjöl­miðla, ná­ist.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. desember 2021.