Framlag Íslands til loftslagsmála samofið útflutningshagsmunum

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra:

Við Íslend­ing­ar erum út­flutn­ingsþjóð. Það þýðir að lífs­kjör okk­ar byggj­ast um­fram allt á því að auka út­flutn­ings­verðmæti. Við erum líka þjóð sem býr að far­sælli sögu þegar kem­ur að sjálf­bærni, hvort sem litið er til nýt­ing­ar sjáv­ar­auðlind­ar­inn­ar eða á end­ur­nýj­an­leg­um, hrein­um orku­gjöf­um.

Heims­byggðin stend­ur frammi fyr­ir mikl­um vanda þegar kem­ur að lofts­lags­mál­um. Mestu skipt­ir að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda og þar kom­um við að nauðsyn orku­skipta, að heims­byggðin hætti að nota jarðefna­eldsneyti á borð við kol og olíu og nýti þess í stað end­ur­nýj­an­lega orku­gjafa.

Auðvitað eig­um við Íslend­ing­ar að ganga vel um okk­ar nán­asta um­hverfi og vera leiðandi í því á heimsvísu, eins og hingað til. En við get­um gert meira og eig­um að gera meira, miklu meira. Hér á landi er fram­leidd 99,9% end­ur­nýj­an­leg raf­orka, hrein og græn orka. Það er eins­dæmi. Þá get­ur reynsla okk­ar og þekk­ing þegar kem­ur að nýt­ingu end­ur­nýj­an­legra orku­gjafa reynst bjargráð fyr­ir aðrar þjóðir.

Stór­auk­in fram­leiðsla á end­ur­nýj­an­legri orku á heimsvísu er ein mik­il­væg­asta og áhrifa­rík­asta aðgerðin í lofts­lags­mál­um. Við Íslend­ing­ar erum í öf­undsverðri stöðu og get­um slegið marg­ar flug­ur í einu höggi: eflt ímynd lands­ins, dregið úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda og styrkt stoðir út­flutn­ings, aukið út­flutn­ings­tekj­ur og skapað eft­ir­sókn­ar­verð og verðmæt störf.

Fram­lag okk­ar til lofts­lags­mála er fólgið í því að auka fram­leiðslu á grænni orku. Raf­bíla­væðing­in, orku­skipt­in, sí­auk­in eft­ir­spurn eft­ir vinnslu og hýs­ingu gagna meðal ann­ars með notk­un of­ur­tölva og eft­ir­spurn eft­ir hrein­um og vist­væn­um mat­væl­um kall­ar allt á aukna fram­leiðslu end­ur­nýj­an­legr­ar orku. Þar stönd­um við vel að vígi í sam­an­b­urði við aðrar þjóðir og við eig­um að nýta það tæki­færi til upp­bygg­ing­ar á græn­um, orku­sækn­um iðnaði í þágu verðmæta­sköp­un­ar og fjölg­un­ar starfa hér á landi. Fram­lag Íslands til lofts­lags­mála er þannig í raun samofið út­flutn­ings­hags­mun­um okk­ar sem þjóðar.

Við þurf­um ekki og eig­um ekki að fara í fel­ur með það sem við höf­um fram að færa við lausn lofts­lags­vand­ans. Við ger­um mest gagn í þeirri bar­áttu með því að fram­leiða græna orku í rík­ari mæli og selja heims­byggðinni græn­ar vör­ur og þjón­ustu og hug­vit okk­ar og þekk­ingu á græn­um lausn­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. ágúst 2021.