Huga þarf betur að gönguleiðum á viðkvæmum svæðum

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Það má með sanni segja að áhugi á útivist í nærumhverfi okkar hefur margfaldast. Það er ekki langt síðan maður gat gengið Úlfarsfell eða í kringum Reynisvatn nánast án þess að mæta nokkrum manni. Sem betur fer hefur áhugi á því að hreyfa sig úti í náttúrunni margfaldast, þetta á ekki aðeins við um okkar nærumhverfi, þetta er svona í öllum hverfum borgarinnar. Okkar nærumhverfi er þó ólíkt því sem gerist á mörgum öðrum svæðum Reykjavíkurborgar. Hér höfum við náttúruna nær okkur og mun minna af skipulögðum göngustígum. Það er nákvæmlega það sem gerir okkar útivistarsvæði svona heillandi. Því miður er það þó þannig að mikill átroðningur veldur skemmdum. Sér í lagi í tíðarfari eins og hefur verið undanfarna mánuði. Mikil aurbleyta hefur t.d. verið í Úlfarsfelli síðustu vikur og betra er að ganga fellið Mosfellsbæjar megin, góður stígur hefur verið lagður þar og því myndast síður aurbleyta.

Hvað er til ráða

Það er mikilvægt að ráðist sé í lagfæringar á þeim stíg sem flestir nýta sér til þess að ganga á Úlfarsfell. Gæta verður þó að þær lagfæringar sé vel unnar og gerðar þannig að þær falli sem best að náttúrunni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til að Reykjavíkurborg geri lagfæringar sem fyrst á gönguleiðum sem eru í landi Reykjavíkur upp á Úlfarsfell. Það væri ekki úr vegi að nýta til viðmiðunnar sambærilega lausn og er Mosfellsbæjar megin þegar kemur að lagfæringu á stígum upp á fellið, þar sem plastmottur sem hleypa gróðri og jarðvegi í gegnum sig hafa verið lagðar á hluta af gönguleiðinni upp á fellið. Það er lausn sem vert er að skoða því hún kemur í veg fyrir að gengið sé út fyrir stíginn og aukið svæði verði fyrir átroðning.

Huga þarf að fleiri svæðum

Það er mikilvægt að hugað sé betur að fleiri svæðum þar sem viðkvæm náttúran getur skemmst vegna mikils ágangs. Við verðum að útfæra opin svæði þannig að sem flestir geti nýtt þau án þess að skemmdir verði á þeim, þau haldi sínum sjarma og náttúrulega yfirbragði.

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu 14. apríl 2021.