„Áherslan frekar verið á að setja reglur en afnema þær“

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var gestur Ingvars P. Guðbjörnssonar í 19. þætti Pólitíkurinnar. Hlusta má á þáttinn í heild sinni hér.

Í þættinum ræddu þeir einföldun regluverks sem hefur verið eitt af stefnumálum Sjálfstæðisflokksins um árabil. Málið hefur verið tekið föstum tökum í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og er 3. áfangi aðgerðaráætlunar nú hafinn en fyrr í vetur felldi Kristján Þór brott 1.242 reglugerðir auk þess sem Alþingi samþykkti nýverið lög þar sem alls 33 lagabálkar voru felldir brott í heild sinni og fimm stjórnsýslunefndir lagðar niður.

Einfaldara og skilvirkara greiðsluþátttökukerfi sjúklinga kom meðal annars til tals en Kristján Þór vann að því þegar hann var heilbrigðisráðherra 2013-2017. Einnig ræddu þeir um nýjan samning við garðyrkjubændur sem og um nýjan Matvælasjóð sem tók til starfa í júní með sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS – rannsóknarsjóðs í sjávarúvegi.