Sex ára dóttir mín sat íbyggin og myndskreytti blað. Þriggja ára systir hennar kom og krotaði yfir teikninguna. Sú er eilítið skass, með heilmikinn einbeittan brotavilja. Uppátækið kom vandvirkri eldri systur í uppnám. Teikningin þótti nú eyðilögð. Sjálfsvorkunn stóð yfir nokkra stund þar til stúlkunni varð skyndilega ljóst að krotinu mætti hæglega breyta í fagurbleikar vatnaliljur – aðeins með örlítið breyttum útlínum.

Efnahagslegar afleiðingar COVID-19 hafa verið fólki og fyrirtækjum áfall. Heimilin hafa misst afkomuna, fólk hefur orðið fyrir heilsutjóni og fyrirtæki róa lífróður. Síðustu vikur hafa sviðsmyndir breyst hratt og efnahagslægðin dýpkað. Samhliða hefur borgarstjóri farið í felur – sem er þekkt stærð þegar á móti blæs. Nú mæðir á Reykjavíkurborg að tryggja ábyrgar og raunhæfar aðgerðir. Síðustu vikur hefur atvinnulausum fjölgað verulega og treysta nú ríflega 50% allra fullorðinna á framfærslu ríkisins. Eitt mikilvægasta verkefnið fram undan verður uppbygging og endurheimt starfa í virku og þróttmiklu atvinnulífi. Tryggja þarf áframhaldandi húsnæðisuppbyggingu með auknu svigrúmi á byggingamarkaði og áfangaskiptum greiðslum af byggingarétti. Rekstur nýrra leikskóladeilda mætti bjóða út og gefa einkaframtaki tækifæri til samfélagslegrar verðmætasköpunar. Ráðast mætti í atvinnuskapandi uppbyggingu á upphituðum göngu- og hjólastígum. Tækifærin leynast víða.

Létta þarf álögum af fólki og fyrirtækjum. Með einföldum aðgerðum má lækka orkureikninga heimilanna. Fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði þarf að lækka strax. Láta þarf af samkeppnisrekstri borgarinnar og selja hvort tveggja, Gagnaveituna og Malbikunarstöðina Höfða. Jafnframt má sæta færis og hefja viðræður við stærstu vinnustaði borgarinnar um sveigjanlegri vinnutíma. Reynsla síðustu missera hefur sýnt að aukinn sveigjanleiki léttir á umferðarálagi.

Við bregðumst við áföllum en eygjum jafnframt tækifærin. Af krafti má rísa úr krefjandi aðstæðum. Á botni djúprar efnahagslægðar verða framtak og framfarir að eiga öfluga viðspyrnu. Aðstæðurnar eru óvæntar, en við munum komast í gegnum þær. Ef við aðeins drögum fagrar útlínur um erfiðar aðstæður – má eflaust, einhvers staðar við sjóndeildarhringinn, greina fagurbleikar vatnaliljur.