Hildur Sverrisdóttir

Ég er lögfræðingur og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Á stjórnmálaferli mínum hef ég kappkostað við að standa vörð um frelsi einstaklingsins, frjálslyndi og ábyrga stjórnarhætti. Ég tel mikilvægt að hafa öfluga málsvara sameiginlegra gilda okkar og grunnstefnu á Alþingi. Því sækist ég eftir 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Ég hef í stjórnmálastarfi mínu lagt aðaláherslu á frelsi einstaklingsins til orðs og æðis. Mér finnst mikilvægt að fólki sé ekki sagt fyrir verkum um hvað það má gera, segja og hugsa, svo lengi sem það meiðir engan annan. Grunngildi eins og tjáningarfrelsi, eignar- og sjálfsákvörðunarréttur missa marks ef við stöndum ekki vörð um þau alla daga og mátum við þau hvert einasta mál sem kemur á borð okkar stjórnmálamanna.Ég vil beita mér fyrir því að við varðveitum þann árangur sem hefur náðst í fjármálum ríkisins, um leið og ég vil að þau sem þurfa aðstoð okkar hinna séu fremst í forgangsröðinni þegar ríkissjóður fær aukið svigrúm. Ég vil bjóða upp á meira valfrelsi og virðingu fyrir mismunandi þörfum þeirra sem þurfa á velferðarþjónustu að halda. Ég vil að eldra fólk njóti ávaxta erfiðis síns og lífeyrisgreiðslur skerði ekki ellilífeyri. Ég vil að menntakerfið okkar miðist við að búa yngri kynslóðir undir breytta framtíð með nýjum áskorunum, þar sem verðmætasköpun og framleiðni nægir til að standa undir velferðarþjónustu við þjóð sem eldist. Ég vil ekki kollvarpa stjórnarskránni okkar heldur taka yfirvegaðar ákvarðanir um að breyta henni í sem víðtækastri sátt.Ég vil nýta reynslu mína úr borgarmálum, meðal annars til að berjast fyrir hagsmunum Reykvíkinga á þingi. Ég tel mig hafa ýmislegt fram að færa í umræðunni um hvernig við getum sýnt fyrirhyggju við uppbyggingu ferðaþjónustu, hlúð að því góða í borgarsamfélaginu okkar og verndað náttúru landsins okkar um leið og við njótum ávaxtanna af gífurlegri fjölgun ferðamanna. Ég vil nýta reynslu mína úr borgar- og skipulagsmálum til að stuðla að því að hægt sé að tryggja gott og hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og alla aðra.