Stjórnarskrámál

  • Stjórnarskráin er grunnlög landsins og breytingar á henni geta reynst afdrifaríkar
  • Vanda þarf breytingar og forðast kollsteypur
  • Víðtæk sátt þarf að vera um stjórnarskrárbreytingar

Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipunar landsins. Stjórnarskráin kveður á um
grundvallarreglur lýðveldisins og mannréttindi borgaranna. Hyggja þarf vel að
breytingum á stjórnarskránni og ráðrúm þarf að gefast, bæði innan þings og utan,
til að gaumgæfa tillögur að breytingum á henni.

Í þessu ljósi telur Sjálfstæðisflokkurinn að fara skuli varlega í breytingar á
stjórnarskránni. Heildarendurskoðun og umturnun á öllum ákvæðum
stjórnarskrárinnar samræmist illa sjónarmiðum um réttaröryggi, stöðugleika og
fyrirsjáanleika.

Að sama skapi telur Sjálfstæðisflokkurinn mikilvægt að breytingar á stjórnarskrá
séu gerðar í víðtækri pólitískri sátt.

Frá því að stjórnarskrárnefnd tók til starfa síðla árs 2013 hefur vinnan mótast af
tveimur meginsjónarmiðum. Annars vegar hefur verið gengið út frá því að
áfangaskipta endurskoðunarvinnunni og taka fyrir afmarkaða þætti
stjórnarskrárinnar í stað þess að leggja fram tillögur til heildarendurskoðunar. Hins
vegar hefur verið lögð mikil áhersla á að sem víðtækust sátt geti náðst um
niðurstöðurnar.

Bæði þessi sjónarmið eru í góðu samræmi við áherslur Sjálfstæðisflokksins í þessu
máli.

Sjálfstæðisflokkurinn telur óheillavænlegt að knýja fram róttækar breytingar á
stjórnarskrá í krafti meirihluta hverju sinni. Breytingar á stjórnarskrá á miklu
frekar að ákveða af yfirvegun og í áföngum í sem mestri samstöðu til að tryggja
stöðugleika í stjórnskipun landsins.