Skattamál

  • Lækkun skatta og einföldun skattkerfisins
  • Tekjuskattur lækkaður
  • Dregið úr jaðaráhrifum skatta
  • Tryggingagjald verði lækkað
  • Lögbundið lágmarksútsvar afnumið
  • Skattumhverfi fyrirtækja á að vera eitt og almennt
  • Tekið verði á skattaundanskotum

Sjálfstæðisflokkurinn vill halda sköttum í lágmarki og að fólk haldi sem mestu eftir
af því sem það aflar. Skattkerfið er ætlað til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Það á að
vera einfalt, gagnsætt, sanngjarnt og skilvirkt til að auka réttaröryggi borgaranna og
auðvelda skattyfirvöldum baráttuna gegn skattsvikum.

Draga þarf úr jaðaráhrifum skattkerfisins og bótakerfisins. Miða skal skattlagningu
og bætur við kjör einstaklinga en ekki sambúðarform eða fjölskyldustöðu.
Við ætlum að lækka tekjuskatt almennings enn frekar. Um síðustu áramót
afnámum við milliþrep tekjuskattsins, sem var yfir 40% miðað við meðalútsvar árið
2013 og lækkuðum neðra þrepið í tæp 37%. Nú ætlum við að lækka neðra þrepið
enn frekar í 35%.

Við ætlum að lækka tryggingargjaldið enn meira. Það skiptir atvinnulífið miklu.
Við ætlum að lækka fjármagnstekjuskatt og skattleggja raunávöxtun
fjármagnstekna í stað nafnávöxtunar. Við ætlum að lækka erfðafjárskatt aftur í 5%
með afnám hans að lokamarkmiði. Jafnframt viljum við einfalda
virðisaukaskattskerfið og fækka þar undanþágum.

Lögbundið lágmarksútsvar sveitarfélaga verður afnumið og ýtt undir samkeppni
sveitarfélaga.

Við afnámum almenn vörugjöld og fjölmarga tolla. Við ætlum að halda áfram á
þeirri braut, til dæmis með því að afnema tolla af ýmsum matvælum.
Gefnar verði meiri, greinarbetri og gegnsærri upplýsingar um opinberar álögur á
launa- og álagningarseðlum.

Skattumhverfi fyrirtækja á að vera með þeim hætti að ekki þurfi ívilnanir eða
afslátt af opinberum gjöldum til að tryggja alþjóðlega samkeppnishæfni. Skattar á
fjármálafyrirtæki eigi að vera almennir og án undanþága. Stjórnvöld verða að
árétta að bankar starfa á eigin ábyrgð en ekki skattgreiðenda.