Málefni útlendinga

  • Aðstoð við flóttafólk leiði til tækifæra til sjálfsbjargar
  • Mannhelgi og mannréttindi í fyrirrúmi
  • Tökum vel á móti útlendingum sem hér setjast að
  • Erlendir sérfræðingar og vinnuafl bætir samkeppnisstöðu Íslands

Hafa skal mannúðarsjónarmið og skilvirkni að leiðarljósi í málefnum hælisleitenda.
Jafnframt skal alltaf hafa að leiðarljósi að aðstoð við flóttamenn leiði til tækifæra til
sjálfsbjargar. Ísland eins og önnur lönd tekur á móti fólki á flótta undan ofríki og
stríði. Móttaka flóttafólks er sjálfsögð. Taka þarf vel á móti þeim sem leita hælis á
Íslandi og eiga rétt á því að komast í skjól frá stríðsátökum og brýnni neyð. Leggja
skal áherslu á að kerfið sé í stakk búið til að taka á móti fólki og vanda til verka,
flóttafólki og samfélaginu til heilla.

Mikill árangur hefur náðst við styttingu málsmeðferðartíma við meðferð umsókna
um alþjóðlega vernd að undanförnu og við að hraða brottför þeirra sem sækja um
vernd að tilhæfulausu. Margt er þó enn ógert og því er mikilvægt að hrinda í
framkvæmd boðaðri vinnu dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins um
þverpólitísks samráðsvettvang um útlendingalöggjöfina.

Í fjölmenningarsamfélagi er mannauður og fjölbreytt reynsla til þess fallin að auðga
samskipti einstaklinga og víðsýni. Taka skal vel á móti fólki sem hingað vill flytja og
tryggja að það njóti jafnra tækifæra á við aðra.

Einfalda þarf veitingu atvinnuleyfa fyrir fólk utan EES, meta menntun þeirra sem
hingað leita að verðleikum og tryggja að aðbúnaður á Íslandi geri landið
eftirsóknarvert til framtíðar.

Á Íslandi er fjöldi fyrirtækja sem hefur þörf fyrir aðgengi að sérhæfðu erlendu
starfsfólki. Ísland er og á að vera opið fyrir erlendum ríkisborgurum sem koma
hingað í atvinnuleit. Með því að nýta mannauð, þekkingu og reynslu þeirra sem
vilja búa hér á landi og starfa er samkeppnishæfni landsins betur tryggð.

Við þurfum að laða til landsins erlenda sérfræðinga sem miðla þekkingu sinni til
starfsmanna fyrirtækja og styrkja stöðu þeirra. Við erum fámenn en vel menntuð
þjóð. Þessi gátt til landsins verður að vera opin og regluverkið má ekki vera of flókið.
Þetta á fyrst og fremst við um einstaklinga frá ríkjum utan EES svæðisins.