Lög og réttur

  • Persónufrelsi er leiðarljósið
  • Allir eiga að njóta jafnréttis
  • Bætt staða hinsegin fólks
  • Efla þarf löggæslu og öryggisstarf
  • Bættir verkferlar í réttargæslukerfinu í kringum kynferðisafbrot

Sjálfstæðisstefnan grundvallast á frelsi og ábyrgð, jafnrétti og samkennd. Hún er
víðsýn og frjálslynd framfarastefna. Sjálfstæðismenn hafa einstaklingsfrelsi,
atvinnufrelsi og séreignarrétt í hávegum, með hagsmuni allra fyrir augum.
Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja jöfn tækifæri allra. Við teljum það
grundvallaratriði að tryggja jafna stöðu og jöfn tækifæri kvenna og karla.

Trúar-, tjáningar- og skoðanafrelsi eru grundvallarmannréttindi sem standa verður
vörð um. Öllum er heimilt að aðhyllast og iðka hvaða trú sem er, en trúariðkun er
ekki æðri lögum. Jafnframt verður að gæta þess að allir borgarar og samtök þeirra
virði stjórnarskrárvarin mannréttindi og sjónarmið sem af þeim verða leidd.

Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram vera leiðandi í málefnum hinsegin fólks, enda
hefur hann staðið að lagabreytingum um aukin réttindi þeirra, m.a. varðandi
samvist og ættleiðingar.

Löggæsla, almannavarnir og björgunarstarf hefur verið meira krefjandi á
undanförnum misserum og árum, meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna.
Öryggi landsmanna skal ávallt vera í forgrunni og því þarf meðal annars að tryggja
lögreglu og landhelgisgæslu meira fjármagn til að rækja starf sitt við að halda uppi
lögum og reglu ásamt því að koma til bjargar á sjó og landi. Sjálfstæðisflokkurinn
hefur því lagt áherslu á aukið fjármagn til lögreglunnar í fjármálaáætlun 2018-2022
ásamt því að ýta úr vör endurnýjun þyrluflota landhelgisgæslunnar. Áfram verður
haldið á sömu braut.

Samráðshópur um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins hefur nú unnið að gerð lokaskýrslu og framkvæmdaáætlun undanfarið ár og verður henni
skilað fyrir lok árs 2017. Sjálfstæðisflokkurinn mun leggja áherslu á að henni verði
fylgt eftir.