Utankjörfundaratkvæðagreiðsla

Í síðustu alþingiskosningum skiluðu 37.557 einstaklingar atkvæðum sínum með utankjörfundaratkvæðagreiðslu eða 18.6% kjósenda. Líkt og þessi mikli fjöldi segir til um, þá er í flestum tilfellum einfalt að ganga frá atkvæði sínu með þessum hætti. Utankjörfundarskrifstofa Sjálfstæðisflokksins hefur opnað í Valhöll og þangað má leita eftir upplýsingum og aðstoð með pósti á netfangið utank@xd.is. Verkefnisstjóri utankjörfundarskrifstofu er Bryndís Loftsdóttir. Þá má nálgast leiðbeiningar fyrir kjósendur á vef stjórnarráðsins.

Við viljum heyra af öllum þeim sem ekki komast til sinnar kjördeildar á kosningadag, þann 25. september, hvort sem þeir eru staddir hér á landi eða erlendis. Íslenskir ríkisborgarar sem búsettir eru erlendis geta kosið í allt að 8 ár frá því lögheimili var flutt af landinu, talið frá 1. desember næstum fyrir kjördag. Þá er hægt að sækja um framlengingu kosningaréttar til Þjóðskrár Íslands en samkvæmt núgildandi lögum rann kærufrestur út þann 1. desember 2020. Sérhvert atkvæði skiptir okkur máli og við leggjum allt kapp á að aðstoða kjósendur við að koma atkvæðum sínum til skila í tæka tíð.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst hjá sýslumönnum 13. ágúst
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hjá sýslumönnum hefst þann 13. ágúst. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram á eftirfarandi stöðum:

  • Innanlands: Hjá sýslumönnum um allt land, á aðalskrifstofum eða í útibúum þeirra. Þá getur sýslumaður einnig ákveðið að atkvæðagreiðsla á aðsetri embættis fari fram á sérstökum stað utan aðalskrifstofu, svo og að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stað í umdæmi hans. Upplýsingar um kjörstaði og afgreiðslutíma vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar er hægt að finna á vefsíðu sýslumanna. Sýslumenn auglýsa hver á sínum stað hvar og hvenær atkvæðagreiðslan fer fram.
  • Erlendis: Á skrifstofu sendiráðs, sendiræðisskrifstofu eða á skrifstofu kjörræðismanns samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið getur þó ákveðið að utankjörfundaratkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum erlendis. Utanríkisráðuneytið auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram erlendis.