Örn Þórðarson

7. sæti í Reykjavík

Örn er reynslubolti þegar kemur að sveitarstjórnarmálum.  Hann hefur setið sem varamaður í fjölda nefnda og ráða í borginni á yfirstandandi kjörtímabili.  Vann frá 1996 fyrir sveitarfélög á landsbyggðinni, fyrst sem ráðgjafi og síðast sem sveitarstjóri og gjörþekkir því allar hliðar og viðfangsefni sveitarfélaga, stórra sem smárra.

Örn býr í Hlíðunum og hefur lengst af búið þar og í nágrenninu. Kona hans er Lóa Rún Kristinsdóttir og dóttir þeirra Assa sem enn býr heima. Aðrar dætur búa í Hafnarfirði og Berlín. Örn á fjögur afabörn.

Hann starfar sem kennari við Meistaraskólann, sem er hluti af Tækniskólasamfélaginu, kennir iðnsveinum sem vilja ná sér í meistararéttindi. Er með kennsluréttindi í stjórnmálafræði og viðskiptafræði, hefur lokið háskólaprófum í stjórnmálafræði, rekstrar- og viðskiptafræðum, MBA gráðu í stjórnun og nú síðast framhaldsnámi í kennslufræðum. Nám, hvort sem er framhaldsnám á háskólastigi eða styttri námskeið hafa verið hans helsta áhugamál og komið að mestu í stað þess að fylgjast með enska boltanum. Hann er með pungapróf í siglingum og útskrifaður í vettvangsstjórn hjá ríkislögreglustjóra sem reyndist afar gagnlegt þegar hann sat í almannavarnanefnd Rangárvallasýslu og tókst á við eldgos í Eyjafjallajökli 2010.

Þrátt fyrir að hafa búið lengst af í Hlíðunum og nágrenni, þá segist hann vera genatískur KR-ingur og sækir flesta ef ekki alla leiki liðsins.  Hann hefur sömuleiðis frá barnæsku haft gaman af laxveiði og unnið sem veiðileiðsögumaður. Frímúrarastarf hefur einnig lengi verið honum hugleikið og mætir í hverri viku á stúkufundi.

Hann hefur oft reynt að byrja í golfíþróttinni, en náð litlum árangri vegna anna. Náði til að mynda aldrei að spila á Strandavelli við Hellu, þrátt fyrir að búa þar í mörg ár , enda leyfðu annir í starfi sveitarstjóra ekki slíkan munað.  Örn er hins vegar staðráðinn í að láta ekkert stoppa sig í að ná árangri í golfíþróttinni í sumar, nema ef vera skyldi annir í nýju starfi borgarfulltrúa í Reykjavík.

Örn er heimakær rólegheitamaður, en vill breytingar í borginni, ekki seinna en strax og tilbúinn að fara í þær af einurð og krafti.