Óli Björn Kárason

Ég hef tekið þá ákvörðun að bjóða mig fram í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi 10. september næstkomandi. Markmið mitt er að fá kosningu í eitt af efstu sætum framboðslistans og fá þannig tækifæri til að styrkja stöðu okkar í kjördæmi sem er lykill að velgengni Sjálfstæðisflokksins.

  • Sækist eftir 3. sæti í Suðvesturkjördæmi
  • Starfsheiti: Ritstjóri
  • Heimasíða: http://olibjorn.is

„Menn koma engu góðu til vegar, nema þeir séu sjálfir virkir þjóðarfélagsþegnar, geri upp eigin hug, þori að hugsa sjálfstætt, fylgja hugsun sinni eftir og átti sig á því, að fátt næst fyrirhafnarlaust. Menn verða í senn að nenna að leggja á sig hugsun og vinnu, ef þeir í raun og veru vilja knýja fram þær umbætur, er löngun þeirra stendur til.“
Þannig mælti Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra (1908-1970) í tilefni af 25 ára afmæli lýðveldisins árið 1969. Þessi brýning Bjarna er jafn nauðsynleg í dag og áður. Við sjálfstæðismenn munum litlu áorka án þess að leggja jafnt hugsun og vinnu í það sem við viljum ná fram.
Í aldarfjórðung hef ég tekið virkan þátt í þjóðfélagsumræðunni, sem blaðamaður, ritstjóri og útgefandi. Hugmyndir mínar og skoðanir eru skýrar og fyrir þeim vil ég berjast.
Á síðustu árum hef ég lagt áherslu á nauðsyn þess að Sjálfstæðisflokkurinn standi vörð um millistéttina, sem hefur borið þyngstu baggana eftir hrun fjármálakerfisins. Aðeins með lækkun skatta, jafnræði í lífeyrisréttindum og öflugra atvinnulífi verður hlutur millistéttarinnar réttur við.
Með sama hætti er mikilvægt að við sjálfstæðismenn gleymum ekki kjörorði okkar: Gjör rétt, þol ei órétt. Í því felst loforð um að gæta hagsmuna allra og þá ekki síst þeirra sem lakast standa. Rétta þeim hjálparhönd sem þurfa á því að halda. Þess vegna er mikilvægt að tryggja öflugt almannatryggingakerfi, þar sem fólki er ekki refsað fyrir að bæta sinn hag, líkt og nú er gert.
Gjör rétt, þol ei órétt, vísar einnig til þess að Sjálfstæðisflokkurinn vill byggja upp gott heilbrigðiskerfi og koma í veg fyrir að nokkur þurfi að neita sér um heilbrigðisþjónustu af fjárhagslegum ástæðum.
Þeir sem veljast til forystu fyrir okkur sjálfstæðismenn – í sveitarstjórnum og á Alþingi – þurfa oft að taka erfiðar ákvarðanir og hrinda þeim í framkvæmd. Til þess þarf kjark, skýra sýn á markmiðin og sannfæringu sem byggir á hugsjónum sjálfstæðisstefnunnar.
Eitt erfiðasta verkefni komandi ára verður að koma skikki á rekstur ríkisins með endurskipulagningu. Við vitum af dapurri reynslu að niðurskurður hér og þar dugar ekki. Uppskurður í öllu skipulagi er nauðsynlegur. Við þurfum að hugsa hlutverk ríkisins upp á nýtt og endurskilgreina. Aðeins Sjálfstæðisflokkurinn hefur burði til að leiða umræðuna, upplýsa um staðreyndir og benda á leiðir sem eru skynsamlegar og færar.
Eitt loforð skal ég gefa:
Ég mun tala skýrt og af sannfæringu og hvika í engu frá hugsjónum og grunnstefinu sem hefur sameinað okkur sjálfstæðismenn.